17.10.1977
Sameinað þing: 4. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í B-deild Alþingistíðinda. (36)

Umræður utan dagskrár

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen) :

Herra forseti. Hæstv. forsrh. hefur gert grein fyrir stöðu máls þess, sem hér er til umr., og ég sé ekki ástæðu til að bæta þar við. Það eru aðeins örfá atriði vegna þeirra umr., sem hér hafa farið fram, þeirrar gagnrýni, sem fram hefur komið, sem mér finnst nánast veigalítil.

Ég hjó eftir því að hv. 2. þm. Austurl. vildi ekki gefa þeim aðilum, sem hafa staðið í þessum samningum, jákvæð meðmæli. Ég er ekki viss um að þeir hefðu viljað hafa niðurstöðuna þá, að það væri að vænta úr þeirri átt jákvæðrar umsagnar. Hins vegar hjó hann í og notaði orðið „lokatilboð“ og vildi sýna fram á með því orði og því, sem hann vildi láta þar fylgja, að þannig væri ekki rétt á málunum haldið. Ég væri ekki hlutlaus aðili í þessari deilu ef ég færi að hefja hér langar umr. En ég vil þó ekki láta hjá líða að vekja athygli á því, sem fram er komið í blöðum, í grg. samninganefndar ríkisins, þar sem vikið er að því, að umrætt sunnudagskvöld var lagt fram á fundi, eins og það var orðað, lokatilboð þegar þar var ræddur launastiginn og það sem honum var til samtengingar. Þegar spurt var eftir öðrum atriðum, sem vikið hafði verið að áður í þeim umr., þá voru þau atriði ekki tiltæk, en við töldum að sjálfsögðu nauðsynlegt að fá vitneskju um, hver þessi önnur atriði væru og þau yrðu metin áður en samningur væri undirritaður, að við vissum hvað í samningnum fælist.

Það var haldinn sérstakur fundur síðdegis á mánudag þar sem sáttanefnd var beðin um það af okkar hálfu að fá fram þessi önnur atriði. En það tókst ekki, og þess vegna slitnaði upp úr umr. Ég vænti þess, að síðari hluta þessa dags liggi fyrir samninganefndunum þessi önnur atriði, svo að hægt sé að meta þau og halda áfram þar sem frá var horfið.

Hér var vikið af hv. 3. landsk. þm.grg. þeirri, sem Hagstofa Íslands gerði, og þeim orðum, sem ég hef látið um þá skýrslu falla. Það er rétt, Hagstofan gerði samanburð að mínu frumkvæði og ég skýrði frá því hér á Alþ. í fyrra. Þessi samanburður, sem Hagstofan gerði, er ákaflega erfiður, því að stöður hjá hinu opinbera og á almenna vinnumarkaðnum eru ákaflega misjafnar og þar erfitt um samanburð, og gerir hagstofustjóri mikinn fyrirvara á þeirri grg. sem hann lætur frá sér fara. Hann undirstrikar mjög rækilega, að það er ákaflega erfitt að gera þennan samanhurð þannig að viðhlítandi sé. Engu að síður taldi ég að af þessum samanburði mætti marka, að í vissum launaflokkum hjá hinu opinbera væru starfsmenn þess orðnir aftur úr og bæri þess vegna að leiðrétta það í þeim samningum sem nú hafa staðið yfir. Með hvaða hætti hægt verður að fá fram þá leiðréttingu sem allir geta sætt sig við, skal ég ekki um segja. En ég hef látið hafa það eftir mér, eins og fram kom í ræðu hans, að ég vildi að það væri tekið tillit til þessa og það yrði reynt að ná fram þeirri réttlætingu sem mögulegt væri. Hvernig þessi skýrsla yrði lögð fram hér á þingi eða alþm. gerður greiður aðgangur að henni skal ég athuga og reyna að koma þeim málum þannig fyrir, að þm. geti fengið þá skýrslu til skoðunar.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð mín fleiri. Ég vildi koma þessu að hér. Ég tek undir það, sem hæstv. forsrh. sagði í ræðu sinni, að forsenda þeirrar löggjafar, sem sett var um aðferðir í sambandi við launakjör opinberra starfsmanna, var sú, að þar væri til aðili sem úrskurðaði um það, hverjir ættu að sinna störfum til þess að öryggi og heilsa landsmanna væri tryggð. Ég vonast til þess að báðir aðilar virði og hlíti úrskurði kjaradeilunefndar. Það mun að sjálfsögðu ríkisstj. og ríkisstofnanir gera. Og við hljótum að gera þá kröfu, að viðsemjandi okkar geri það líka. Ef ekki, þá eru forsendur brostnar fyrir því samkomulagi sem gert var á sínum tíma, og ég veit að mikill meiri hluti opinberra starfsmanna vill ekki að þær forsendur séu brostnar.