02.05.1978
Efri deild: 95. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4348 í B-deild Alþingistíðinda. (3600)

245. mál, verðlag, samkeppnishömlur og óréttmætir viðskiptahættir

Frsm. 2. minni hl. (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Nál. mitt um frv. til l. um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti er á þskj. 829.

Frv. til l. um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta víðskiptahætti hefur verið skamman tíma nú til umr. á Alþ. og Ed. haft mjög takmarkaðan tíma til athugunar á frv. Hins vegar má segja að meginefni þess sé margra ára gamalt og þekkt meðal þm. og hinna ýmsu félagssamtaka.

Frv. eins og það birtist nú, er samið af sérstakri nefnd, er viðskrh. skipaði í mars 1976. Frv. fylgja fjölmargar aths. og þar kemur fram m. a. mjög mismunandi afstaða til hinna ýmsu greina, annars vegar frá hendi margra samtaka úr atvinnulífinu og hins vegar frá hendi launþega og félagasamtaka þeirra.

Á fund nefndarinnar í Ed. kom Georg Ólafsson verðlagsstjóri og gerði nokkra grein fyrir verðlagseftirliti í dag hér á landi og framkvæmd núgildandi laga. Þar kom fram, að svonefnd verðlagsnefnd heldur nokkuð reglulega fundi, þar sem hún tekur fyrir verðákvörðunarbeiðnir. Hins vegar er framkvæmdaþátturinn í höndum verðlagsskrifstofunnar, sem skal fylgjast með að samþykktir verðlagsnefndar séu í framkvæmd eins og til stendur. Einnig gefur verðlagsskrifstofan út tilkynningar um álagningarprósentu á margvíslega vöruflokka og vinna kaupmenn samkv. þessum tilkynningum og innan þeirra marka er þær gefa svigrúm til.

Það kom fram í máli verðlagsstjóra, að t. d. af hálfu iðnaðarins er kvartað yfir seinagangi í ákvörðunartöku hjá verðlagsnefnd. Hins vegar hefur sú trú skapast af hálfu neytenda eftir margra ára verðgæslukerfi, að þeir telja sig verndaða í gegnum núverandi verðlagskerfi. Miðað við reynslu, a. m. k. í vissum vöruflokkum, má halda því fram, að hér sé um missýn að ræða og því réttlætanlegt að reyna annað kerfi í verðlagningu. Það skal tekið fram, að núverandi löggjöf er það rúm, að innan hennar væri hægt að gera verðlag frjálsara eða frjálst, ef almennur áhugi og samstaða væri um slíkt.

Það, sem þetta frv. hefur einkum í för með sér og er nýtt, er löggjöf um samkeppnishömlur. Það skal undirstrikað, að sá þáttur í frv. er afar mikilvægur og er e. t. v. það besta fyrir hinn almenna neytanda og vel rekin fyrirtæki hér á landi.

Því má halda fram, að áhættan með samþykkt þessa frv. að lögum sé ekki ýkjamikil og því vel réttlætanlegt að það nái nú fram að ganga í síðustu vinnuviku Alþ. Þó ber þess að geta og leggja á það ríka áherslu, að allt veltur hér á hve vel tekst til að tryggja þá framkvæmd um samkeppnishömlur og frjálsa verðmyndun er frv. gerir ráð fyrir að muni eiga sér stað þegar vissum forsendum er fullnægt.

Samfara þessum breytingum, sem frv. boðar, lagði verðlagsstjóri mikla áherslu á að óhjákvæmilegt væri að endurskipulagning ætti sér stað á verðlagsskrifstofunni til að tryggja raunhæft eftirlit með ýmsum hugsanlegum samkeppnishömlum og óréttmætum viðskiptaháttum. Því miður var á verðlagsstjóra að heyra, að ekkert hafi verið hugsað enn sem komið er fyrir þessum mikilvæga þætti í framkvæmd væntanlegra laga og taldi hann því óhjákvæmilegt, ef vel ætti að takast til, að gildistími laganna væri með 12 mánaða fyrirvara í stað 6 mánaða, eins og frv. gerir ráð fyrir. Þetta mat verðlagsstjóra á ríkjandi ástandi hvað varðar heilbrigða samkeppni er einkar athyglisvert. Þetta vill segja að forsendur fyrir gildi frv. virðast ekki vera fyrir hendi, og ekkert fullvissar undirritaðan á þessu stigi, miðað við aðrar fram komnar upplýsingar, um að verðlag mundi lækka á næstunni þótt frv. yrði að lögum nú.

Það hefur komið fram í umr. um þetta frv., að hér mun mjög velta á hvernig til tekst um framkvæmd laganna. Þar sem nú liggur fyrir að ekkert sérstakt hefur verið gert til þess að tryggja heppilega framkvæmd, bæði fyrir þá, er annast verslunina sjálfa, og neytendur almennt, virðist undirrituðum ekki tímabært, þrátt fyrir langan aðdraganda, að frv. verði samþ. nú alveg í þinglok.

Undirritaður vill leggja áherslu á að nauðsynlegt er að tryggja hér frjálsa, heiðarlega og samkeppnishæfa verslun og einnig er nauðsyn að setja sérstaka löggjöf er tryggi hagsmuni hins almenna neytanda. Því miður hefur komið í ljós að þessar forsendur eru ekki fyrir hendi, svo að hagsmunaaðilar finna margt að frv. eins og það liggur fyrir. Það er því mat undirritaðs, að óskynsamlegt sé að þetta frv. verði samþykkt nú, rétt fyrir alþingiskosningar, samtímis því að mikill óróleiki er á vinnumarkaðinum og launþegasamtökin hafa lýst alvarlegri andstöðu við vissar greinar frv. Það eru því heppileg vinnubrögð, að málið í heild verði athugað af næstu ríkisstj. og lagt fyrir væntanlegt Alþ. á haustdögum. Þess vegna leggur undirritaður til, að málinu verði vísað til hæstv. ríkisstj.

Ég gæti farið nánar út í vissa þætti sem þetta frv. fjallar um, en ætla ekki að eyða þessari kvöldstund í það. Ég tel að búið sé að ræða mjög mikið um málið og sýnilegt er að um það í heild er engan veginn samstaða. Það er mjög athyglisvert, eins og ég undirstrika hér, hversu ólíkir eru hagsmunir þeirra sem telja að frv. sé ekki viðunandi. Að vísu sjá þeir frv. frá mismunandi sjónarhorni og taka þess vegna mismunandi afstöðu til greina eftir því hvernig þær snúa eða kunna að verka gagnvart þeim. Ég álít þess vegna fullréttmætt og eðlilegt að málið fái ekki afgreiðslu nú þrátt fyrir ágætan undirbúning og þrátt fyrir mikla meðferð af hendi hæstv. ráðh. Ég tel slíkt ekki skynsamlegt og legg því til, eins og ég sagði í lokaorðum nál., að frv. verði vísað til hæstv. ríkisstj.