02.05.1978
Neðri deild: 91. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4364 í B-deild Alþingistíðinda. (3612)

242. mál, lyfjalög

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Hæstv. forseti. Eins og fram kemur í aths. með þessu lagafrv. hefur verið starfandi nefnd á vegum heilbr.- og trmrn. að endurskoðun lyfjamálefna um 5 ára skeið. Niðurstaðan hefur orðið sú, að eðlilegt þótti að skipta gildandi lyfsölulögum í þrjá lagabálka. Hér liggur fyrir frv. til lyfjalaga og enn fremur hefur verið afgreitt frá Alþ. annað frv., um lyfjafræðinga, en í þriðja frv., sem ekki er samið og verður ekki lagt fram á Alþ. fyrr en í fyrsta lagi að hausti eða næsta vetur, verður fjallað um dreifingu lyfja almennt og þar með rekstur lyfjaheildverslana og lyfjabúða.

Þessi nefnd gerði drög að frv., sem hér liggur fyrir, og skilaði þeim í árslok 1977. Rn. sendi að því loknu drögin til umsagnar Apótekarafélagi Íslands, Lyfjafræðingafélagi Íslands, Læknafélagi Íslands og lyfjavöruhópi Félags ísl. stórkaupmanna. Að fengnum aths. þessara aðila hefur rn. gert ýmsar breytingar frá hinum fyrri drögum nefndarinnar. Er þá fyrst og fremst að telja kafla, sem nefndin hafði í sínum drögum og fjallaði um sölu og dreifingu lyfja. Rn. telur að þessi kafli eigi betur heima í væntanlegu frv. um dreifingu lyfja og geti þannig beðið að ósekju, enda voru í þeim kafla veigamikil nýmæli, svo sem um stofnun sérstakra lyfjabúða á vegum Háskóla Íslands og sérstakra sjúkrahúslyfjabúða, sem rétt er að fjallað verði um við lagasetningu um heildarskipulag lyfjadreifingarmála hér á landi.

Þá hafa verið gerðar verulegar breytingar á skipan lyfjaverðlagsnefndar og lyfjanefndar og stjórn lyfsölusjóðs frá því er greindi í upphaflegum drögum nefndarinnar. Eru breytingarnar helst þær, að fækkað er nefndar- og stjórnarmönnum frá því sem var í drögum nefndarinnar, og er það einnig í samræmi við skoðanir áðurgreindra umsagnaraðila. Það blandast engum hugur um að lyf eru mjög viðkvæmur varningur og er sífellt meiri ástæða til að gæta fyllstu varúðar í allri meðferð á þeim.

Annar þáttur, sem yfirvöld þurfa að gæta, er að verð á lyfjum sé hóflegt svo sem kostur er, enda eru útgjöld vegna lyfja verulegur kostnaðarhluti í greiðslum almannatrygginga vegna sjúkrakostnaðar. Einnig er nauðsynlegt að heilbrigðisyfirvöld hlutist til um að allt dreifingarkerfi lyfja og framleiðsla þeirra innanlands fari fram með sem öruggustum hætti. Segja má að þessum nefndu þáttum séu gerð skil í þessu frv., en að undanskildum dreifingarþættinum sem tekinn var út og ég gat um hér áðan.

Veigamesta nýmælið er án efa stofnun lyfsölusjóðs. Helsta röksemdin fyrir stofnun slíks sjóðs er að mjög ör eigendaskipti eru á lyfjabúðum, að meðaltali um það bil á 15 ára fresti, og þar af leiðandi er lyfjaverðinu ætlað að taka þátt í að greiða mjög ört niður stofnkostnað af lyfjabúðum. Annað mál er svo að sá, sem byrjar lyfjabúðarekstur, þarf á tiltölulega stuttum tíma að festa mikið fé í húsnæði, tækjum og birgðum og verður því að stofna til skulda sem einatt verða honum þungur baggi framan af. Afleiðingar þessa hafa verið að sumir menn hafa ekki getað notfært sér lyfsöluleyfi, og ætla má einnig að hæfir menn veigri sér við að sækja um leyfi til lyfsölu. Tilgangur lyfsölusjóðs er því að stuðla með nokkrum hætti að lausn þessa vanda og þá einkum að auðvelda eigendaskipti að lyfjabúðum. Þá er honum einnig ætlað að jafna aðstöðu þeirra, sem fá lyfsöluleyfi.

Annað veigamikið nýmæli í þessu frv. er að áætlað er að lyfjabúðir hafi ekki, eins og tíðkast hefur frá upphafi og fram til þessa tíma, sjálfkrafa rétt til framleiðslu lyfja, heldur lúti þær sömu kröfum og um lyfjagerðir eftir árið 1985. Er þetta liður í þeirri þróun sem hefur orðið sífellt örari síðustu árin í framleiðslu lyfja. Öll tækni og rannsóknakröfur hafa aukist svo að smáir framleiðendur eiga örðugt um vik og í rauninni er óhagkvæmt að margir aðilar hér á landi fáist við sömu framleiðslu. Eftir sem áður má ætla að stærri lyfjabúðir haldi áfram framleiðslu eftir árið 1985, að fengnu starfsleyfi. En annars verða það fyrst og fremst stærri aðilar í lyfjaframleiðslu í dag sem hafa á hendi lyfjaframleiðslu eftir þann tíma. Er þar fyrst og fremst um þrjú fyrirtæki að ræða, eitt ríkisfyrirtæki og tvö fyrirtæki einkaaðila.

Í Ed. voru gerðar allmargar breytingar á frv. Flestar voru þær fremur litlar og aðallega þá til þess að gera hin ýmsu ákvæði skýrari en áður var. Auk þess voru nokkrar smávægilegar efnisbreytingar gerðar á frv. Um það var full samstaða bæði í þeirri n., sem hafði með frv. að gera þar, og í d. í heild.

Mér þykir ekki rétt að orðlengja um fleiri atriði þessa frv, á þessu stigi, en vitna til ítarlegra aths. með frv. og legg til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.