08.11.1977
Sameinað þing: 14. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 546 í B-deild Alþingistíðinda. (365)

1. mál, fjárlög 1978

Ingi Tryggvason:

Herra forseti. Enn liggur nýtt fjárlagafrv. fyrir hinu háa Alþ. Eftir þær umr., sem hér hafa farið fram í dag af hálfu stjórnarandstöðunnar, verður víst ekki fremur nú en endranær um þetta frv. sagt hið fornkveðna, að allir vildu Lilju kveðið hafa. Þvert á móti sætir frv, harðri gagnrýni og fáir eða engir finnast vafalaust sem ánægðir eru með alla þætti þess. Það er vissulega ekki nýtt. Fjárlög grípa með ýmsum og mismunandi hætti inn í líf hvers einstaklings. Stundum hillir þar undir að vonir um mikilsverð framfaramál heilla byggðarlaga eða landsins alls rætist. Alltaf er þó hitt gert, að það er seilst ofan í vasa borgaranna til að greiða hina ýmsu reikninga. Stundum finnst manni að þeir, sem gagnrýna harðast fjárlagafrv. hverju sinni, telji sig hafa yfir að ráða einhvers konar töfraráðum sem dugi til að hækka útgjöld til framkvæmda á hinum ýmsu sviðum, hækka t.d. tryggingabætur, auka löggæslu, stórauka framlög til skóla og menningarmála o.s.frv, og lækka jafnframt álögur á almenning. Það tíðkast mjög að flytja till. um hækkun framlaga til ýmissa nauðsynjamála sem allir vildu fegnir styðja. Hitt er sjaldgæfara, að bent sé á raunhæfar leiðir til tekjuöflunar á móti. Það er t.d. ekki úr vegi að geta þess, að ég fór lauslega yfir þær till., sem fluttar voru af hálfu stjórnarandstöðunnar við 2. og 3. umr. fjárl. á s.l. ári, og ég kom þar ekki auga á neina lækkunartill., heldur aðeins hækkunartill. (KP: Það er ekki rétt.) Ég kom ekki auga á, sagði ég.

Það væri áreiðanlega auðvelt starf fjvn. hv. Alþ. og skemmtilegt, ef það væri eingöngu í því fólgið að raða verkefnum á útgjaldahlið fjárlagafrv. og engar áhyggjur þyrfti að hafa af tekjuhliðinni. En þannig gengur þetta bara ekki til. Enn eigum við sem fyrr við þann vanda að stríða, að miklu fleiri verkefni bíða úrlausnar en gjaldþol almennings leyfir að leyst séu. Ég er einn þeirra manna sem oftast finnst þeir menn hafa rök að flytja sem bera upp óskir um aukin fjárframlög við fjvn. En svo fáir sem við erum og framkvæmdageta okkar takmörkuð er engin von til að við getum á svipstundu komist fullkomlega til jafns við langþróaðar iðnaðarþjóðir við ýmiss konar uppbyggingu til félagslegra þarfa. Hitt er sönnu nær, að ástæða sé til að vera stoltur af því sem áunnist hefur. Margt af því getur áreiðanlega talist til stórvirkja.

Á undanförnum árum hafa ákveðnir þættir í þjóðarbúskap okkar verið gagnrýndir öðru fremur. Má þar t.d. nefna dómsmál, samgöngumál, upphæðir bótagreiðslna almannatrygginga, ýmsa þætti sjúkratrygginga, byggingu sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva, skóla, menningarmál o.fl. Það er mjög eðlilegt að menn finni hver á sínum stað hvar skórinn kreppir einkum að, og auðvitað er það svo eins og áður, að þetta frv., sem nú liggur fyrir hinu háa Alþ., gerir ekki ráð fyrir að sé komið til móts við nema hluta af óskum þegnanna um fjárframlög til ýmiss konar framfaramála.

Ef við lítum á þetta fjárlagafrv, og athugum helstu einkenni þess, þá er eitt það augljósasta hversu hækkanir verða miklar vegna aukins kostnaðar við sjálfan ríkisreksturinn. Annað, sem er augljóst, er að svipuð útgjöld eru ætluð til framkvæmda á fjárl, sjálfum eins og að undanförnu að framkvæmdamætti, en nokkur samdráttur í þeim framkvæmdur sem fjármagnaðar eru með lántökum. Það, sem ræður mestu um þessa þróun, að rekstrarliðirnir hækka mjög, eru þær miklu kauphækkanir sem hafa orðið á þessu ári og fyrirsjáanlegar eru á næstunni. Ég ætla ekki hér að fara að tala um að þessar kauphækkanir séu of miklar eða að þeir menn, sem taka kaup sitt hjá ríkinu, séu ofhaldnir af þeim launum sem þeir taka þar. En hitt er auðvitað alveg augljóst mál, að það er ákaflega náið samband á milli heildarupphæðar fjárlagafrv. og þess kaupgjalds sem greitt er í landinu hverju sinni. Þetta sést m.a. af því, að í A-hluta fjárlagafrv. eru laun áætluð, áður en þær hækkanir eru teknar inn sem stafa af síðustu kauphækkunum og áður en búið er að gera ráð fyrir þeirri kauphækkun sem verður 1. des. vegna vísitöluhækkana og annarra hækkana, þá er þó gert ráð fyrir því að laun séu nærri 32 milljarðar eða rúmlega fjórði hluti af heildarupphæð A-hluta fjárl., og í B-hlutanum eru launin áætluð rúmlega 12 milljarðar. Auk þess hafa svo auðvitað launagreiðslur geysilegt áhrif á hversu nýtast þau framlög sem varið er til hinna ýmsu framkvæmda í landinu. Þess vegna er það augljóst mál, að kaupgjaldið sjálft hefur ákaflega mikil áhrif á upphæð fjári. og miklar kaupgjaldshækkanir hækka sjálfkrafa fjárlagafrv. geysimikið, ef á annað borð á að koma á svipaðan hátt til móts við almennar þarfir þjóðfélagsins og áður hefur verið.

Það kom m.a. fram hjá hv. 11. landsk. þm., eftir því sem ég skildi mál hans, að það væri ekki launahækkanirnar sem hefðu umtalsverð áhrif á verðbólguna og þær hefðu ekki heldur umtalsverð áhrif á afkomu ríkisbúskaparins, því að mikill hluti launahækkananna kæmi aftur til baka í óbeinum og beinum sköttum. Auðvitað er það rétt, að mikill hluti launahækkana kemur aftur til ríkissjóðs — mikill hluti, en ekki neitt nálægt því allt — í beinum og óbeinum sköttum. En þess ber að geta, að eins og fyrirkomulag er á skattgreiðslu kemur mjög mikill hluti af þessum hækkunum ekki til ríkissjóðs aftur fyrr en eftir nokkuð langan tíma. Og eitt af því, sem ráðgert er að breyta í skattalögunum — auðvitað aðeins eitt af því sem ráðgert er að breyta og alls ekki út af fyrir sig nein stórkostleg lækning á skattamálum — er að taka upp staðgreiðslu skatta. Það hefur auðvitað það í för með sér, að þegar launahækkanir verða miklar og verðþensla er mikil, þá koma afleiðingar launahækkana fyrr til greiðslna inn í ríkissjóð. En það er rétt sem hér var bent á, að þetta hefur veruleg áhrif á gjaldþol almennings, Ef borgaður er 40% skattur á verðþenslutímum, þá skiptir náttúrlega miklu máli hvort sá skattur er greiddur jafnóðum af því kaupi, sem út er greitt hverju sinni, eða hann er greiddur af tekjum liðins árs. Þetta mundi ekki skipta miklu máli ef við byggjum við stöðugt verðlag, en þegar verðþenslan er jafnmikil og er, þá er í raun og veru alrangt að tala um að beinir skattar séu nærri því eins háir og skattalögin sjálf segja. Menn eru á því ári, sem þeir greiða skattana, ekki að greiða nema 40 eða 50% í heild af tekjum sínum, heldur miklu lægri upphæð, misjafnlega miklu lægri eftir því hversu launahækkanir verða miklar á milli áranna.

Ég ætla, áður en lengra er farið, að minnast á nokkra þætti fjárlagafrv, sem gagnrýndir hafa verið, á mismunandi hátt að vísu, og byrja á því að nefna greiðslur landbrn. Einn sá þáttur, sem mest hefur verið gagnrýndur í þessu frv., raunar bæði í sjónvarpsumr. í gærkvöldi og eins hér í dag, er sú upphæð sem ráðgert er að verja til útflutningsbóta á næsta ári. Þessi upphæð er vissulega há, og það er ekkert undarlegt við það að menn ræði um hvernig best verði snúist við þeim vanda sem skapast af því að ekki fæst það verð fyrir útfluttar landbúnaðarvörur sem við þyrftum að fá til að framleiðsla þeirra stæði undir sér. Ég hygg að menn hlaupi oft yfir þá staðreynd, að landbúnaður svo að segja hvarvetna í heiminum, þó að það finnist vafalaust undantekningar frá því, er mjög studdur af opinberu fé. Þetta er gert hér á landi, og þetta er gert í aðalviðskiptalöndum okkar, eins og t.d. á Norðurlöndunum. Hér eru beinir styrkir til landbúnaðarins einkum fólgnir annars vegar í útflutningsbótunum og hins vegar í beinum ræktunarstyrkjum og að litlu leyti í styrkjum til húsbygginga.

Upphaf útflutningsbótanna má rekja til þess, að samkv. lagabreytingum frá 1959, sem ég hygg að allir stjórnmálaflokkar sem þá áttu sæti á Alþ. hafi samþykkt, var gert ráð fyrir að taka upp útflutningsbætur. Þessar útflutningsbætur áttu að vera að hámarki 10% af heildarframleiðsluverðmætt landbúnaðarvara. Lög geta vissulega verið umdeilanleg, en ég held að það sé rétt að rifja upp í fáum orðum tilefni og tilgang þessarar lagasetningar.

Eitt meginatriði framleiðsluráðslaganna frá 1917 er það ákvæði, að bændum skuli tryggðar tekjur í samræmi við aðrar vinnandi stéttir í landinu, eins og það var orðað. Á fyrstu árunum eftir setningu framleiðsluráðslaganna var oft skortur á einstökum landbúnaðarvörum og útflutningur var ekki. Árið 1958 lagði Framleiðsluráð landbúnaðarins verðjöfnunargjald á dilkakjöt í innanlandssölu til að bæta óhagkvæman útflutning. Þessa ákvörðun framleiðsluráðs kærðu fulltrúar neytenda í 6 manna n., en töpuðu málinu bæði í undirrétti og Hæstarétti og lauk málinu síðla sumars 1959. Upp úr þessum átökum kom sú breyting á framleiðsluráðslögunum, að réttur til útflutningsbóta var ákveðinn og hámark þeirra miðað við 10% af heildarverðmæti landbúnaðarframleiðslunnar og skyldi þetta gjald greitt beint úr ríkissjóði. Flest ár síðan þetta var ákveðið hefur aðeins verið þörf fyrir hluta útflutningsbótanna, en á árunum 1967–1968 og árunum þar í kring hrökk útflutningsbótarétturinn ekki að fullu til að greiða bændum það verð sem þeir áttu að fá, og það sama er að endurtaka sig á þessu ári sem nú er að líða.

Ákvæðin um útflutningsbætur eru sett til þess að tryggja bændum fullt verð fyrir framleiðsluvörur sínar þótt framleiðslan fari nokkuð fram úr innanlandsþörf. Í útflutningsbótaréttinum er viðurkennd sú meginstefna í framleiðslumálum, að miðað skuli að því að hér séu framleiddar nægar kjöt- og mjólkurvörur til innanlandsneyslu, og til þess að svo megi verða er auðvitað ekki hægt að komast hjá nokkurri umframframleiðslu, mismunandi mikilli eftir árferði. Ef tryggja á bændum viðunandi lífskjör, verður það vart gert án einhvers konar þátttöku ríkisvaldsins, einfaldlega vegna þess að viðskiptalönd okkar og nágrannar styrkja landbúnað sinn með beinum og óbeinum styrkjum og halda þannig niðri verði á neysluvörum. Eðlileg verðmyndun á sér því naumast stað í landbúnaði í okkar heimshluta. Gott dæmi um þetta eru viðskiptin við frændur okkar Norðmenn. Við seljum þeim verulegan hluta þess dilkakjöts sem við flytjum út. Norskir bændur fá til muna hærra verð fyrir sitt dilkakjöt en íslenskir bændur, og Norðmenn greiða okkur innan við helming þess verðs sem við þyrftum að fá. Ef við gætum selt dilkakjöt í Noregi á sama grundvelli og Norðmenn selja okkur skip og aðrar iðnaðarvörur, þyrfti ekki útflutningsbætur á þann dilkakjötsútflutning, og ekki stæði á norskum neytendum að kaupa kjötið okkar.

Of langt mál yrði að ræða hér í einstökum atriðum rök með og móti útflutningsframleiðslu landbúnaðarvara. En minna má á að ull og skinn eru verðmæt hráefni og undirstaða iðnaðar sem veitir mikla atvinnu. Vinnsla annarra landbúnaðarvara er einnig mikilvæg fyrir atvinnulíf þéttbýlisins. Útflutningur landbúnaðarvara færir okkur þrátt fyrir allt mikilsverðan gjaldeyri. Mestu máli skiptir þó, að ef við á annað borð ætlum að halda áfram að byggja þetta land, þá verður það ekki gert án landbúnaðar.

Fólki heftur fækkað mjög ört í landbúnaði á undanförnum árum. Framleiðslan hefur aukist. Ýmissa félagslegra vandamála gætir í vaxandi mæli í strjálbýlinu. Það væru hörmuleg mistök, — mistök sem afkomendur okkar ættu bágt með að fyrirgefa, ef svo yrði þrengt að íslenskum landbúnaði að enn yrði stórfelld fólksfækkun í sveitum og heil byggðarlög legðust í auðn. Við ættum heldur að hyggja að aðgerðum Norðmanna í þessu efni. Þeir telja það öryggis- og hagsmunamál að bæta hag sinnar bændastéttar og fylgja þeirri skoðun eftir með stórfelldum opinberum framlögum til landbúnaðar.

Ekki er úr vegi einmitt nú að geta þess sem öllum er kunnugt, að það fara fram stórfelldar hækkanir á kaupgjaldi í landinu og með nýlegum samningum við starfsmenn ríkis og bæja hefur ríkið tekið á sig stórfelld aukin útgjöld í formi hækkaðs kaupgjalds. Á sama tíma og þetta gerist hefur orðið að leggja sérstakt verðjöfnunargjald á dilkakjötsframleiðslu haustsins 1976 og þetta verðjöfnunargjald kemur til þess að lækka kaup og tekjur bænda mjög veralega á þessu almanaksári. Ég er einn þeirra manna sem telja að stefnan í landbúnaðarmálum þurfi alltaf að vera til endurskoðunar, og ég er líka einn þeirra manna sem telja að það sé engin allsherjarlausn á vandamálum landbúnaðarins að auka framleiðsluna. En þegar hugað er að vandamálum landbúnaðarins, þá þarf að hafa fleira en eitt í hyggju og, eins og ég sagði áðan, m.a. það að leysa þau á þann hátt að við styrkjum byggðina í sveitunum fremur en veikjum hana. Til lengdar yrði það farsælast fyrir alla landsmenn.

Samgrn. er eitt af þeim rn., sem vissulega er oft talað um, og þær framkvæmdir, sem það hefur með höndum eða Vegagerðin fyrir þess hönd. Vegalagning er eitt af þeim efnum sem hvað mest er til umr. manna á meðal, a.m.k. úti um landsbyggðina. Þetta rn, fær til umráða talsvert hærri fjárupphæð en var á s.l. ári. Á fjárl. 1977 var áætlað fé til vegagerðar 5 milljarðar 650 millj., en í frv. nú er sambærileg tala rúmir 9 milljarðar og hækkunin er hátt í 4 milljarða milli ára. Þetta svarar til þess að framkvæmdamáttur vegafjár hækki um 25–30% frá því sem var á s.l. ári, miðað við verðlag þess tíma sem fjárlagafrv. er sett fram.

Það hefur verið minnst á það hér áður, að formaður þingflokks Alþfl. varaði alveg sérstaklega í sjónvarpinu í gærkvöldi við þessari miklu aukningu vegafjár. Ég get varla gert ráð fyrir því að formaður þingflokksins flytji þjóðinni í sjónvarpi boðskap sem hann fylgir ekki eftir hér inni á hinu háa Alþ. Það kann að vera að stórframkvæmdir séu alltaf meira og minna varhugaverðar, og vegaframkvæmdir hafa vissulega verið umdeildar. Ég hygg þó að hinn almenni borgari í dreifbýlinu spyrji ekki eins oft um neinn einstakan þátt framkvæmda og einmitt vegagerðina. Það hefur verið rakið hér áður, að víða um land vantar mikið á að frumþörfum sé fullnægt í vegagerð. Vegirnir eru allvíða þannig úr garði gerðir að stórfelldar samgöngutafir verða á vetrum, jafnvel milli allfjölmennra byggðarlaga, þótt vegir þar liggi um láglendi. Hitt er líka alveg augljóst, að við getum ekki til lengdar unað því, að ekki komi það sem kallað er varanlegt slitlag á vegina umfram það sem nú er. Ég hygg, að við eigum ekki mjög langt í land með að byggja helstu umferðaræðar um sveitir — helstu vöruflutningaleiðir og fólksflutningaleiðir um sveitir — upp úr snjónum. Og þegar því verkefni er lokið í aðalatriðum getum við snúið okkur af alefli að því að leggja slitlag á vegina.

Það er oft verið að bera saman framkvæmdir í vegagerð nú og á árunum eftir 1970, og það er rétt, að á þeim erfiðleikatímum, sem þessi ríkisstj. hefur átt við að búa í fjármálum, hefur nokkuð dregið úr vegaframkvæmdum. En ég vil vekja athygli á því, að með sérstökum hætti var staðið að stórframkvæmdum á tíma vinstri stjórnarinnar, eins og t.d. vegarlagningunni yfir Skeiðarársand, og lagt var í tiltölulega stórar framkvæmdir á takmörkuðum svæðum þá, eins og lagningu bundins slittags í nágrenni Reykjavíkur. Þó að vegaframkvæmdir hafi ekki aukist að magni til frá þessum árum, þá hygg ég að þeir, sem búa í hinum dreifðu byggðum, verði ekki síður varir við vegaframkvæmdir nú en var á þessum árum, þegar undanskilinn er Skeiðarársandurinn.

Hér hefur verið minnst á hafnarframkvæmdir, og m.a. kom fram í ræðu hv. 5. þm. Vestf. að það hefði ekki verið staðið við loforð um óafturkræf framlög úr Hafnabótasjóði á árunum 1976 og 1977. Ég vil upplýsa hv. þm. um að þetta er alls ekki rétt. Ég hef því miður ekki hér við höndina með svo litlum fyrirvara tæmandi upplýsingar um þetta mál. en þess má geta, að á árinu 1976 var t.d. veitt allmikið óafturkræft framlag til bæjar á Vestfjörðum sem heitir Bolungarvík og á árinu 1977 t.d. til Bíldudals. Það hefur því verið staðið við þetta loforð og fjárframlög úr þessum sjóði, óafturkræf fjárframlög vegna erfiðrar afkomu hafna, hefur m.a. runnið til Bolungarvíkur á þessum tíma.

Það hefur borið allmikið á því í ræðum þeirra þm., sem hér hafa talað á undan mér, að þeir hafa fullyrt margt. Það er tiltölulega auðvelt að fullyrða, það er ekki ævinlega jafnauðvelt að standa við það sem fullyrt er. Í þessu tilfelli er auðvelt og tiltölulega fljótlegt fyrir hv. þm. að ganga úr skugga um það, að hann hafi haft þarna rangt fyrir sér og það veit ég, að hann mun gera.

En ef við lítum á hafnarframkvæmdir, þá hefur vissulega mjög mikið þokast áfram í hafnarframkvæmdum á landinu á undanförnum árum. Það hefur verið unnið stöðugt að hafnargerð. Auðvitað hafa verkin þar ekki gengið eins bratt fram og áhugamenn og framkvæmdaglaðir menn hefðu viljað. Samt sem áður hefur þokast þar mjög í áttina, og ég hygg að í raun og veru sé þessi þáttur samgöngumálanna e.t.v. einna best á vegi staddur nú. Það þýðir auðvitað ekki að þarna megi láta deigan síga á nokkurn hátt. Þarna verður að halda framkvæmdum áfram um allt land. Við eigum margar hafnir í landinu. Þessar hafnir eru ákaflega nauðsynlegar, ekki eingöngu samgöngutæki, heldur líka atvinnutæki, og við megum á engan hátt vanrækja uppbyggingu hafnanna, enda tel ég, eins og áður segir, að þar hafi verið unnin stórvirki á undanförnum árum.

Um flugmálin vil ég segja það, að það kemur þar fram eins og annars staðar að við höfum ekki þá framkvæmdagetu sem við hefðum óskað eftir og vissulega hefði verið þörf á. í landinu eru milli 30 og 40, ég held nær 40 áætlunarflugvellir, og það þarf ekki mikið ímyndunarafl til að átta sig á því, að það kostar mikið fé að búa þessa flugvelli fullkomnum öryggistækjum og búa þá yfirleitt svo úr garði að þeir geti kallast fullkomnir nútímaflugvellir. Í þessu sambandi er kannske rétt að geta þess, að nokkrir menn úr fjvn, áttu þess kost á s.l. vori að skoða flugvelli hjá frændum okkar Norðmönnum, og var það vissulega lærdómsríkt og mjög athyglisvert. Þeir hafa byggt ágæta flugvelli, bæði litla og stóra, með fullkomnum öryggisbúnaði og vel búna á allan hátt. Það, sem vekur þó athygli þegar bornar eru saman samgöngur í þessum tveim grannlöndum, er það, að Norðmenn hafa einungis mjög lítið fleiri áætlunarflugvelli en við Íslendingar. Ef við þyrftum ekki að byggja hlutfallslega fleiri flugvelli en Norðmenn, þá gætum við látið okkur nægja tvo flugvelli í landinu. Ég hygg að við mundum ekki verða í neinum sérstökum vandræðum með að leysa þann þátt samgöngumálanna, ef við ekki þyrftum að byggja þarna hlutfallslega meira en Norðmenn. Þess vegna hlýtur það að verða svo, að það taki langan tíma að gera alla flugvelli okkar svo vel úr garði sem þurfa þykir og vissulega væri ákjósanlegt. Að því er samt unnið stöðugt þó ekki sé eins hratt farið og margir hefðu óskað sér.

Af þessu, sem ég hef hér sagt, er augljóst að sá framkvæmdaþáttur, sem gert er ráð fyrir að aukist langmest samkv. fjárlagafrv., er vegagerðin. Ég fagna því, að sú ákvörðun hefur verið tekin af ríkisstj. og studd af þeim þingmeirihl., sem hún styðst við, að gera myndarlegt átak í vegamálum. Það er atriði sem ég veit að þjóðin þakkar bæði strax og þessi verk eru unnin og ekki síður þeir sem á næstu árum eiga eftir að fara um vegina. Það hefur verið gagnrýnt hér, hvernig fjár til þessara framkvæmda verður aflað, og auðvitað er það, að menn finna sárt til þess að þurfa að greiða háar upphæðir, hvort sem það er fyrir bifreiðarnar, sem þeir kaupa, eða fyrir bensínið, sem þeir nota. Ég ætla ekki að leggja hér dóm á það, hvort hæfileg hlutföll séu þarna á milli þessara tveggja þátta. En hitt er nokkuð augljóst, að við hljótum með einhverjum hætti að leggja mikið kapp á að bæta vegina. Það er út af fyrir sig óeðlilegt ósamræmi sem í því er fólgið að við höfum efni á því að kaupa mikið af dýrum bifreiðum, en ekki efni á því að búa vegina svo úr garði að bifreiðarnar, þessar vönduðu bifreiðar okkar, endist á vegunum.

Hækkanir á því fé, sem gengur til menntmrn., eru 46.6% samkv. fjárlagafrv. Þar gætir auðvitað mjög mikilla kauphækkana, og enn eiga þær kauphækkanir, sem eftir er að gera ráð fyrir í frv., eftir að hækka hlut menntmrn. í fjárl. verulega frá því sem frv. gerir ráð fyrir. Af þeim þáttum, sem þarna er verulega aukið fjármagn til, má nefna kennslu þroskaheftra. Samkv. því, sem í fjárlagafrv. segir, eru þessi framlög aukin í krónutölu úr 132 millj. árið 1976, samkv. fjárl. 1976, og upp í 372.8 millj. samkv. frv. 1978. Þarna er vissulega verkefni sem nauðsynlegt er að sinna betur er gert hefur verið, og með þessu fjárlagafrv. er sýndur mjög verulegur vilji til þess að hlúa betur að þeim, sem við erfiðleika eiga að stríða í þjóðfélaginu, heldur en gert hefur verið á undanförnum árum. Þá má líka nefna það, að verulega eru auknar fjárveitingar til fræðsluskrifstofanna sem eiga að styðja mjög við bakið á þeim, sem fást við fræðslumál dreifbýlisins.

Hækkun til dómsmrn. vegna dómgæslu, lögreglumála o.fl. er 1866.4 millj. kr. Þar fer mest fyrir hækkun til sýslumanna og bæjarfógeta, eða 607 millj., og Landhelgisgæslunnar 376 millj. rúmar. Það hefur mikið verið gagnrýnt á undanförnum árum, að dómsmálakerfið væri seinvirkt og þar þyrfti úrbóta við. Á valdatíma þessarar ríkisstj. hafa verið samþykkt nokkur lagafrv. sem eiga að auka öryggi og flýta gangi dómsmála. Stærsta nýmælið þar er rannsóknarlögregla ríkisins. Þær breytingar, sem hafa verið gerðar á dómskerfinu, kosta allmikið fé, bæði í húsakosti og mannahaldi. Á næsta ári er t.d. gert ráð fyrir 125 millj. kr. til byggingar ríkisfangelsa og vinnuhæla, og er það síst of í lagt. Ég tel að með þeirri styrkingu, sem dómsmálakerfið hefur hlotið á þessu tímabili með lagasetningu og auknum fjárframlögum, sé tvímælalaust komið til móts við kröfur almennings í landinu með myndarlegum hætti. En þarna ber enn að sama brunni, að aukin þjónusta kostar aukið fé og þetta aukna fjármagn hlýtur að verða að sækja í vasa skattborgaranna.

Það væri rétt að nefna hér ýmislegt fleira. Það má t.d. nefna að auknu fé er varið til fiskirannsókna og til ýmissa þátta í sambandi við sjávarútveg, og alls staðar her auðvitað frv. merki þess, að í flestum greinum er haldið áfram við þær framkvæmdir og við þau framfaramál sem aðaláhersla hefur verið lögð á á undanförnum árum.

Eitt af því sem gagnrýnt hefur verið, bæði af almenningi og stundum af stjórnarandstöðu, er hinn mikli kostnaður við sjálfan rekstur ríkisins. Það kom hér fram hjá hv. þm. Sighvati Björgvinssyni, að komið hefði í ljós á fundi í fjvn. að ekki hefðu komist til skila ákvarðanir fjvn. um fækkun manna í ákveðnu ríkisfyrirtæki. Ég var því miður ekki staddur á þessum fundi og þekki málið þess vegna ekki frá fundinum. En ég vil gjarnan taka undir það með hv. þm., að hvernig sem á þessu stendur, hvar sem upplýsingar um þetta hafa strandað, þá er það auðvitað ófyrirgefanlegt. Ég tel að af hálfu ríkisins sé verulega unnið að því að koma í veg fyrir óþarfa og óeðlilega útþenslu ríkisbáknsins. Það er í fyrsta lagi gert með því, að allar fastráðningar starfsmanna verða að fara fyrir ráðningarnefnd ríkisins sem aflar mjög ítarlegra upplýsinga um þörf fyrir þær óskir sem berast. Mér er það persónulega kunnugt, að það er mjög algengt að neitað sé um þær beiðnir sem berast um aukið mannahald, þó að hitt komi vissulega fyrir, að slíkar óskir séu teknar til greina. Þá er það eins, að fyrir fjvn. liggja hverju sinni óskir um aukið mannahald á ýmsum sviðum, og ég hygg að þeir, sem starfað hafa í fjvn., geti borið um það, að þar er ekki að því hrapað að leyfa fjölgun ríkisstarfsmanna. Þá tel ég að útgáfa starfsmannaskrár, skrár yfir ríkisstarfsmenn, þar sem gerð er grein fyrir því, hverjir hafa verið ráðnir með fullum heimildum og hverjir án slíkra fullra heimilda, sé mjög til þess að auka aðhald að ríkisstofnunum. En það hefur óneitanlega nokkuð borið á því, að einkum þær ríkisstofnanir, sem hafa að einhverju leyti tekjur á eigin vegum, hafi aukið starfsmannahald án þess að farið væri hinar réttu leiðir til þess að fá leyfi til þess. Starfsmannaskráin hefur hjálpað til þess að fjvn. gæti gert sér gleggri grein fyrir stöðunni í þessum málum, og bæði á s.l. sumri og sumrinu 1976 fór fjvn. yfir þessa skrá, gerði að vísu till. um að talsvert mikill fjöldi þeirra manna, sem þarna voru ráðnir, fengi fastráðningu eða yrði heimilað ráðning á, en neitaði líka ráðningu margra. Ég tel að það sé mjög nauðsynlegt að starfsmannaskráin komi fyrr út en verið hefur, og nú er áformað að starfsmannaskrá, sem byggist á starfsmannahaldi á áramótum, komi út mjög snemma á næsta ári, og þá verður það enn á ný verkefni fjvn. að fara yfir skrána og kanna að hve miklu leyti kann að hafa verið farið á svig við fyrirmæli fjvn. eða þær reglur sem gilda um ráðningu starfsmanna hjá ríkisfyrirtækjum. Ég tel sem sagt að þarna sé beitt mjög verulegu aðhaldi, þó að hitt sé að vísu rétt, að það getur oft verið umdeilanlegt hvernig bregðast beri við umsóknum um aukið mannahald.

Einn sá kostnaður, sem er mjög tilfinnanlegur við mannahald ríkisins og þó mjög misjafnlega eftir starfsgreinum, er yfirvinna. Hún er í sumum starfsgreinum mikil og mjög kostnaðarsöm. Algengt er að þau rök séu færð fyrir óskum um aukið mannahald, að þá geti yfirvinnan minnkað. Og vissulega getur verið fullkomlega réttlætanlegt að ráða fremur fleira starfsfólk til starfa heldur en hlaða það starfsfólk, sem fyrir er, óhæfilega miklum störfum.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hélt hér langa ræðu áðan, fullyrt margt og varð ekki orða vant, eftir því sem ég best gat heyrt, til þess að túlka sjónarmið sín. Hann virtist sakna þess mjög að ráðh. Framsfl. tækju meiri þátt í umr. um fjárlagafrv. en raun ber vilni. Ég get náttúrlega tekið undir það með honum, að sjálfsagt hefðu orðið betri ræðuhöld hér ef ráðh. hefðu tekið þátt í umr. En hitt verð ég að viðurkenna, að ég skil ekki fullkomlega þessa miklu aðdáun sem Sighvatur hefur á ráðh., þó að þeir séu vissulega ágætir menn. Ég hef álitið, að við hér í hinu háa Alþ. ættum að vera nokkuð jafnir gagnvart mönnum, svo að það skipti e.t.v. ekki öllu máli, þegar mál eru rædd, hvaða starfstitil sá ber sem málin ræðir. Hins vegar skal ég taka það fram, að ég tók þetta ekki sem neitt sérstakt vantraust á mig, jafnvel þó að Sighvatur vissi að ég hefði beðið um orðið.

Það var ýmislegt merkilegt í þessari ræðu, eins og t.d. fullyrðing um að aldrei hafi svo mikill meiri hl. þm. fellt gengið eins mikið og gert hefði verið hjá þessari ríkisstj. (SighB: Rýrt verðgildi gjaldmiðilsins, sagði ég.) Rýrt verðgildi gjaldmiðilsins svo mikið. Þetta getur sjálfsagt verið rétt og þarna sleginn varnagli sem ákaflega auðvelt er að koma sér á bak við, þar sem verið er að tala um hversu mikill meiri hl. sé. Ég er ekki viss um að styrkleiki ríkisstj. þurfi endilega að fara eftir því, hvort meiri hl. er einum eða tveimur mönnum í þinginu meiri eða minni, þótt vissulega sé stuðningur að því að hafa mikið þingfylgi. En það er kannske ekki endilega það sem úrslitum ræður. Mér fannst þetta ágætt dæmi um hvernig hægt er að vera með stórar fullyrðingar á þann hátt að kannske þýði þær í raun og veru ekki nokkurn skapaðan hlut, því nógu margir varnaglar voru í fullyrðingunni til þess að það var mjög ólíklegt að hún gæti ekki staðist, án þess að hún segði þó í sjálfu sér nokkurn skapaðan hlut.

Það voru líka notuð hér hörð orð um Kröfluvirkjun. Ég veit það jafnvel og allir landsmenn, að þar hefur orðið slys. Það var ekki séð, þegar þessi framkvæmd var ákveðin, að þar yrðu þau stórfelldu eldsumbrot sem orðið hafa og ekki sér enn fyrir endann á. Það verður auðvitað aldrei sannað eða afsannað að Kröfluvirkjun hefði verið afbragðs fyrirtæki, ef þetta slys hefði ekki hent. Það er ómögulegt að gera það. En ég vil leyfa mér að fullyrða að það sé okkur mjög nauðsynlegt að virkja gufuafl hér á landi og það sé ekki hægt að fullyrða neitt um það nú í dag nema þessi virkjun eigi eftir að reynast vel og skila góðum arði. Hins vegar er það rétt, að ef við hefðum getað séð svolítið fram í tímann hefðum við auðvitað ekki valið stað til öflunar gufu þar sem eldgos var í þann veginn að brjótast upp á yfirborðið.

Þá gagnrýndi hv. þm. Sighvatur Björgvinsson þá menn, sem teldu að framkvæmdir væru sífellt af því góða, og tók sem dæmi máli sínu til sönnunar, að þetta væru menn sem hugsuðu svo, að ein Borgarfjarðarbrú væri góð, tvær Borgarfjarðarbrýr væru helmingi betri og þrjár Borgarfjarðarbrýr þá náttúrlega þrisvar sinnum betri. Ég er einn þeirra manna sem telja sig vera framkvæmdasinnaða. En ég held að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson meti ekki rétt skynsemi landsmanna þegar hann mælir orð eins og þessi. Ég held að það sé algerlega fráleitt að almenningur á Íslandi hugsi á þessa leið og að nokkur hugsi á þessa leið. Og ég verð að segja það eins og er, að ég kann því út af fyrir sig ekki vel að einmitt á þetta sé deilt. Við erum skammt á veg komnir með ýmsar framkvæmdir af mjög eðlilegum ástæðum. Við vorum fátæk þjóð langt fram á þessa öld, og við höfum ekki getað gert allt það sem hugurinn girnist. En ég mótmæli því alveg, að það sé hinn almenni hugsunarháttur að hugsa ekkert um það til hvers framkvæmdirnar leiða. Auðvitað er það svo, að menn greinir á um hversu skynsamleg hver einstök framkvæmd er, en þó venjulega miklu meira um það, hvernig skuli raða þeim framkvæmdum sem við getum komið á hverju sinni.

Hv. þm. talar líka um stjórnlaus og hömlulaus framkvæmdaáform. Ég held að þetta fjárlagafrv., sem nú liggur fyrir, beri þess ekki vitni að fyrirhugaðar séu stjórnlausar og hömlulausar framkvæmdir. Ég held að það verði miklu fleiri til þess að gagnrýna þetta frv. einmitt með svipuðu hugarfari og hv. þm. Karvel Pálmason, sem virtist algerlega á öndverðum meiði við hv. þm. Sighvat Björgvinsson og taldi að framkvæmdaþættirnir væru allt of litlir og það væri allt of stutt stigið til framfara og framkvæma. Mér virðist að þessir hv. þm. og alveg sérstaklega hv. þm. Sighvatur Björgvinsson eigi svolítið erfitt með að samræma þetta tvennt sem hann telur sig þó fylgja, annars vegar framkvæmdir, hins vegar ekki framkvæmdir, annars vegar megi fjárlög ekki hækka, hins vegar verði ekki hjá því komist að þau hækki, m.a. vegna hækkaðra kaupgreiðslna. Það væri ákaflega æskilegt ef mál eins og fjárlög, frv. eins og fjárlagafrv. væri rætt efnislegar en mér finnst að þessir tveir hv. þm. hafi gert.

Það hefur verið minnst á skattamál, og það er rétt að ekki hefur enn þá séð dagsins ljós nýtt skattafrv. Ég er einn þeirra manna sem telja að það sé mikil nauðsyn að endurskoða skattalög, og ég vil vona að það takist, áður en þessu þingi lýkur, að semja ný skattalög. Það var minnst á staðgreiðslu skatta og þannig tekið til orða, að staðgreiðslukerfið ætti að taka upp á kostnað annarrar ríkisstj. Ég hygg að það sé ekki líklegt að slíkt fyrirkomulag mætti mjög verulegri gagnrýni, ef það er framkvæmt skynsamlega. Og ég vil vænta þess, að það fyrirkomulag að staðgreiða skatta verði þegnunum og ríkisheildinni heppilegra en það fyrirkomulag sem nú er.

Herra forseti. Það er vissulega margt í þessu frv. til fjárl. sem væri vert að taka til miklu nánari skoðunar en hefur verið gert í þessum fáu orðum mínum. Ég hefði viljað að hægt væri að samþykkja fjárlög sem fælu hvort tveggja í sér, að hægt væri að framkvæma meira og þyrfti minni skatta að taka. En það er bara ekki hægt. Við verðum að sníða okkur stakk eftir vexti. Við verðum að velja úr þær framkvæmdir, sem við teljum nauðsynlegar, og reyna að koma þeim eins hratt áfram og við getum. Við verðum að stilla í hóf skattaálögum á allan almenning í landinu, og við verðum að stilla í hóf kostnaði við ríkisreksturinn.

Einn af stærstu kostnaðarliðunum og einn sá kostnaðarliður sem hvað mest mun hækka í meðförum fjvn., eru framlög til heilbrigðis- og tryggingamála. Þessi þáttur er núna langfyrirferðarmestur í fjárlagafrv. eða rösklega þriðjungur af heildarupphæð fjárlagafrv., og þessi þáttur á mjög eftir að hækka vegna hækkana á lífeyrisgreiðslum og greiðslum til sjúkratrygginga sem verða beinar afleiðingar þeirra kaupsamninga, sem nýgerðir eru, og þeirra hækkana, sem fyrirsjáanlegar eru á kaupgjaldi á næstunni. Það hafa stundum komið upp raddir um það, að hægt væri að spara í þessum þætti ríkisútgjalda, og sjálfsagt væri það hægt. En ég vil spyrja: Viljum við það í rauninni þegar á herðir? Þarna er auðvitað mjög stór liður, og ef einhverjar aðgerðir væru gerðar til þess að lækka þennan lið, þá mundi þar fljótt geta munað um. En ég hygg samt að þegar grannt er skoðað verði menn mjög tregir til þess að lækka útgjöld til t.d. tryggingamálanna og til þeirra sem að einhverju leyti eiga erfitt í þjóðfélaginu, annaðhvort vegna aldurs eða vegna veikinda.

Herra forseti. Ég mun ekki orðlengja þetta meira að ráði. Þó langar mig aðeins til þess að geta um eina stofnun sem var nefnd sérstaklega í kvöld, og það er Fjölbrautaskóli Suðurnesja. Það er rétt, að þar er ekki gert sérstaklega ráð fyrir framlagi til framkvæmda. Það er hins vegar ekki rétt, að það sé ekki rúm innan fjári. fyrir framkvæmdir t.d. á grunnskólastiginu. Það hefur alls ekki verið ákveðið enn þá í hvaða nýjar framkvæmdir kunni að verða ráðist. En rétt til þess að sýna hvernig fjárlög geta hækkað milli ára, þá er ekki ófróðlegt að geta þess, að samkv. ríkisreikningnum 1976 var varið 23 millj. kr. til Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Samkv. fjárl. fyrir 1977 er þessi upphæð 52.3 millj. Og samkv. frv. nú er áætlað að verja til Fjölbrautaskóla á Suðurnesjum 143.9 millj. Þetta eru vissulega miklar hækkanir, þar sem bilið á milli fjárl. 1977 og áætlunar 1978 er að þetta hefur nærri þrefaldast. Á sama tíma er hækkað framlag til grunnskóla á Reykjanesi um 300 millj., en einhver hluti af þessari miklu hækkun Fjölbrautaskólans er vafalaust á kostnað grunnskólans. Þetta auðvitað leysir ekki húsnæðismál skólans, en þessar tölur sýna einungis að víða í okkar ríkiskerfi verða hækkanir, sem fylgja lögum og oft gleymast þegar talað er um framlög ríkisins til hinna ýmsu stofnana.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.