02.05.1978
Neðri deild: 92. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4383 í B-deild Alþingistíðinda. (3655)

299. mál, jöfnunargjald

Frsm. minni hl. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Eins og þegar hefur fram komið varð fjh.- og viðskn. ekki sammála um afgreiðslu þessa frv. Ég og hv. 9. þm. Reykv., Gylfi Þ. Gíslason, skipum minni hl. n. og höfum gefið út nál. á þskj. 853, en þar leggjum við til, að frv. verði fellt.

Í þessu frv. felst ný skattlagning, eins og greinilega hefur komið fram í umr. um málið. Er gert ráð fyrir því, að lagt verði nýtt gjald, 3%, á allar innfluttar samkeppnisvörur eða svonefndar EFTA-vörur — þær vörur sem hafa hlotið tollalækkun í samræmi við samning Íslands við Fríverslunarsamtök Evrópu og Efnahagsbandalagið. Látið er að því liggja, að þetta gjald sé lagt á vegna íslensks iðnaðar. En það er nú síður en svo, að það sé, að mati okkar sem skipum minni hl. Um það er ekki deilt, að ástæða er til þess að endurgreiða íslenskum iðnaði svonefndan uppsafnaðan söluskatt sem orðið hefur til með þeim hætti, að hér er lagður hár söluskattur á marga þá hluti sem iðnaðurinn verður að kaupa, og þannig verður íslenskur iðnaður að greiða gjald í formi söluskatts sem samkeppnisiðnaður sá, sem á aðgang að íslenskum markaði, þarf ekki að greiða í sínum heimalöndum. Endurgreiðsla af þessu tagi á söluskatti hefur átt sér stað hér áður. Og það er einnig gert ráð fyrir því að endurgreiða söluskatt með þessum hætti fyrir árið 1977. Það er gert ráð fyrir því á yfirstandandi fjárl., svo að það er ekkert nýtt. Út af fyrir sig erum við, sem skipum minni hl., sammála þessu sjónarmiði, að sanngjarnt sé og eðlilegt að endurgreiða svonefndan uppsafnaðan söluskatt. Deilan stendur því ekki um það.

En þetta frv., sem hér liggur fyrir, miðar ekki að því að endurgreiða þegar innheimtan söluskatt eins og áður hefur verið gert. Þetta frv. miðar að því að leggja á nýjan innflutningsskatt, nýtt innflutningsgjald, og því er að sjálfsögðu haldið fram, að með því að leggja á þetta gjald verði það íslenskum iðnaði nokkur vernd. Auðvitað er ekki hægt að neita því, að það geti orðið honum nokkur vernd út af fyrir sig að leggja gjaldið á, alveg eins og tollarnir voru það áður. En þar með er ekki öll sagan sögð. Það ber að skoða hvaða áhrif verða af þessu gjaldi.

Frsm. meiri hl. n., sem hér talaði á undan mér, vék nokkuð að því, að þær upplýsingar, sem fjh.- og viðskn. hefur fengið, eru ekki allar á eina lund um það, hve mikil áhrif til verðhækkunar muni hljótast af þessu gjaldi. En í rauninni er það afar eðlilegt, sem hér hefur komið fram í upplýsingum um málið, að þessum upplýsingum ber ekki algerlega saman. Ástæðurnar eru einfaldlega þær, að það er ómögulegt annað en geta sér nokkuð til um hvernig til muni takast í sambandi við þetta gjald. Í bréfi, sem n. barst frá Hagstofu Íslands, gerði hún ráð fyrir, að þetta 3% innflutningsgjald mundi þýða 0.3% hækkun á almennu verðlagi eða á verðlagsvísitölu, en þá reiknaði hún ekki með að afleiðingarnar af innlendri hækkun á hliðstæðri iðnaðarvöru yrðu nema litlar. Samráð hafði verið haft við fleiri aðila. Frsm. meiri hl. minntist á að það hefði komið fram hjá hagfræðingi Alþýðusambandsins, að hann teldi að verðhækkun af þessu gjaldi mætti telja ekki minni en 0.5%. Og þarna komu fleiri aðilar til. Það var einnig haft samráð við hagfræðing Þjóðhagsstofnunar sem sagði að hans álit væri að ef reiknað væri á venjulegan hátt með áhrifum slíkra gjalda, þá væri mjög sennilegt að þetta gæti numið 0.7–0.8%. Hagfræðingar á vegum Verslunarráðs Íslands töldu að ef reiknað væri með þeim verðhækkunum, sem eðlilegt væri að fylgdu í kjölfar svona gjalds, þá mundi verðhækkunin nema 0.7–1%.

Ég tel að það leiki enginn vafi á því, miðað við þessar upplýsingar og þegar þær forsendur eru athugaðar, sem þessir aðilar leggja til grundvallar, að þetta gjald muni í reynd þýða almenna verðhækkun sem nemur einhvers staðar á milli 0.5 og 1%. Það er að mínum dómi hrein blekking að tala um að íslenskur iðnaður muni ekki sigla í kjölfarið og hækka sínar innlendu vörur til samræmis við þá samkeppnisaðstöðu sem þarna skapast. Auðvitað er það líka tilgangur hjá iðnaðinum í þessu tilfelli að njóta nokkurs í þessum efnum. Greinilega var á það bent, að einmitt þær greinar, eins og fataiðnaður og ýmsar fleiri, hafa slíka aðstöðu að þær munu notfæra sér þetta. Og þá er mjög hætt við því, þegar verðhækkunin hefur gengið út í kerfið og haldið áfram að margfalda sig, eins og alltaf er afleiðingin af svona innflutningsgjöldum, að þessir útreikningar frá Verslunarráðinu séu réttir, búast megi við því, að verðlagsvísitala hækki í kringum 1%.

En með þessu er ekki heldur öll sagan sögð. Mönnum sýnist út af fyrir sig, að 1% eða 0.5% sé ekki ýkjamikið í öllum hækkunum hjá okkur. En þá er rétt að athuga hvaða aðrar upplýsingar liggja fyrir um hvað þetta þýði raunverulega í hagkerfi okkar.

Það liggur fyrir að heildarlaunagreiðslur í landinu eru um 220 milljarðar kr. 1%, sem þessi launaupphæð hækkaði um, mundi þá nema 2200 millj. kr. Þetta kom greinilega fram hjá talsmanni Verslunarráðsins, þegar hann gerði grein fyrir afstöðu sinni og þeirra til málsins. En þó að menn vildu reikna með því, að þessi verðhækkun yrði helmingi minni, eða í kringum 0.5%, sem er algert lágmark, þá mundu afleiðingarnar verða þær, ef þessu yrði velt út í kaupgjaldið, sem maður verður að reikna með að gerist fyrr eða síðar, þá væri hér um hækkun á almennu kaupgjaldi að ræða sem næmi á ári kringum 1100 millj. kr. eða álíka hárri upphæð og gjaldið á að nema á heilu ári. En með þessu er ekki öll sagan sögð. Að mínum dómi er einmitt mjög fróðlegt fyrir alþm. að virða dæmi eins og þetta fyrir sér. Gjald er lagt á í sambandi við innflutning og það getur gefið í tekjur í kringum 1100 millj. Það endurkastast þannig, að þegar það er búið að vefja upp á sig í kerfinu þýðir það almenna launahækkun a. m. k. upp á sömu fjárhæð. En þar með er ekki öll sagan sögð, eins og ég sagði. Auðvitað fer það svo, þegar launaupphæðin í landinu hefur hækkað um 1100 millj. kr. eða 2200 millj. kr., að ríkissjóður kemur á nýjan leik og tekur sinn tekjuskatt af þessari upphæð. Það er mjög varlega áætlað óhætt að reikna með því, að ríkið komi og taki í þessu tilfelli, þegar þetta bætist ofan á aðrar tekjur, að meðaltali 20–25%. Ríkið tekur ekki aðeins þetta, heldur gerist það svo, að um leið og launahækkunin verður þessi í kerfinu, þá vitanlega nota menn þessi laun og það kemur fram í auknum innflutningi og aukinni umsetningu í landinu, þá kemur ríkið með sinn söluskatt til viðbótar. Þarna fara menn að sjá hvernig margföldunarkerfið gengur fyrir sig. Þeir mættu kannske hugsa eitthvað til þess sem standa hér upp sí og æ og ætla að leysa allan vanda með því að búa alltaf til nýjan og nýjan skatt eða hækka skattana í sífellu, eins og núv. hæstv. ríkisstj. gerir ósparlega. En þegar menn eru búnir að hækka þessa skatta, sem hefur þessar afleiðingar, þá koma þeir á eftir og segja: Nú verður að lækka launin í frystihúsunum. Þetta gengur ekki lengur. — Og þá reka menn sig auðvitað á klett. Þá lenda menn fljótlega í útflutningsbanni og olíuafgreiðslubanni o. s. frv., gefast svo upp eftir tiltekinn tíma, semja og taka nýja veltu.

En þetta dæmi getur líka verið fróðlegt fyrir íslenskan iðnað, og það kom einnig fram í umr. í n. Út af fyrir sig er ekki ósennilegt að íslenskur iðnaður fái eitthvað af þessu gjaldi, — ég segi eitthvað, því að það hafa engar upplýsingar fengist um hvað ætti að renna til iðnaðarins af þessu gjaldi — engar — aðeins talað um að eitthvað eigi að renna til hans, hluti af þessu gjaldi. Ég vil geta þess, að þeir fulltrúar, sem mættu hjá n. fyrir hönd íslenskra iðnrekenda, sögðu beinlínis á nefndarfundinum að þeir gerðu kröfu til þess, að fram kæmi skýrt og ákveðið, annað hvort í lagasetningunni, í nál. eða á annan hátt bindandi á Alþ., hvað af þessu gjaldi ætti að renna til iðnaðarins. Og þeir settu fram sínar kröfur. Kröfur þeirra voru um að af þessu gjaldi á yfirstandandi. ári, þegar tekjurnar af gjaldinu eru áætlaðar að nema 675 millj. kr., fengju þeir greiddar í ákveðnu skyni 457 millj. Og þeir sögðust ekki sætta sig við minna en þetta og þeir gerðu grein fyrir þessu á eftirfarandi hátt:

Í fyrsta lagi væri um að ræða 217 millj. kr. vegna uppsafnaðs söluskatts í sambandi við útfluttar iðnaðarvörur á árunum 1975 og 1976. Í öðru lagi rynnu til Útflutningsmiðstöðvar iðnaðarins 60 millj. kr. Og í þriðja lagi rynnu til Tæknistofnunar Íslands í sambandi við undirbúning og skipulagningu við þá stofnun 25 millj. kr. Í tækniaðstoð fyrir iðnfyrirtæki færu 30 millj. kr. Starfsþjálfun og endurmenntun fengi 25 millj. kr. Ný iðnaðarverkefni 50 millj. kr. Vöruþróun, sérstakt framlag í iðnrekstrarsjóð, 50 millj. kr. Samtals 457 millj. kr. af 675 millj. kr.

Þeir tóku einnig fram á þessum fundi, að þeir gerðu kröfu til þess að fá sama hlutfall og 457 millj. af 675 af tekjum næsta árs, sem í frv. væru áætlaðar 1080 millj., sem sagt á milli 700 og 800 millj. á næsta ári. Ég tel að það hafi komið skýrt fram hjá þessum fulltrúum iðnrekenda, að ef þeir fengju þetta ekki fast og ákveðið, þá kærðu þeir sig ekkert um gjaldið, af því að auðvitað er þeim ljóst að gjaldið kemur til með að leggjast á íslenskan iðnað. En við þessum kröfum iðnrekenda hefur ekki verið orðið. Það kemur ekkert fram með breytingum á ákvæðum frv. frá hv. meiri hl. og það kemur ekkert bindandi fram um það, hve mikið af þessu gjaldi eigi að renna til iðnaðarins. Hitt vita allir að hæstv. fjmrh. berst fyrir þessu gjaldi vegna þess að hann vill fá nýjar tekjur í ríkissjóð. Hann dregur enga dul á að þetta eigi að renna í ríkissjóð, þó að óákveðinn hluti af gjaldinu sé tengdur iðnaði.

En þetta er ekki heldur öll sagan varðandi hagsmuni iðnaðarins. Nú á auðvitað, þó að iðnaðurinn fengi þetta, sem ekki lítur út fyrir á neinn hátt, eftir að reikna út hve mikið fellur á íslenskan iðnað af þeim kauphækkunum sem munu sigla í kjölfar þessara verðhækkana. Ef launahækkanirnar sem heild verða eins og fulltrúar Verslunarráðsins reikna út, þ. e. a. s. í kringum 2200 millj. kr. á ári, þá er mjög sennilegt að íslenskur iðnaður verði, þegar á allt er litið, að greiða af þessari heildarlaunahækkun hátt í 30% miðað við umsetningu hans og stærð í þjóðfélaginu. Það er ekki ósennilegt, að hlutfallið liggi einhvers staðar þar í kringum. Og þá gæti þessi launasumma, sem iðnaðurinn fengi í hausinn, numið í kringum 660 millj. Við skulum lækka upphæðina nokkuð í áætlun og segja að hún gæti verið á milli 400 og 500 millj. kr.

Það er alveg augljóst, að þessi leið, sem hér er valin, er ekki mikill stuðningur við íslenskan iðnað. Ég veit vissulega að þetta kæmi eitthvað dálítið mismunandi við hinar einstöku iðngreinar. Sumar mundu eingöngu fá á sig þær afleiðingar, sem koma fram í hækkandi verðlagi og hækkandi launagreiðslu, og fá ekkert í aðra hönd. Aðrar mundu fá eitthvað, af því að þær standa að beinum útflutningsgreinum og fá einhverjar beinar greiðslur, sem eflaust yrðu þá jafnmiklar eða þá kannske meiri en sem næmi auknum útgjöldum.

Þegar á þetta er litið hika ég ekki við að segja að samþykkt þessa frv. er ekki til stuðnings íslenskum iðnaði, síður en svo. Það miðar að því að auka tekjur ríkissjóðs, það er rétt, og meira að segja mun ríkið fá mun meira í sinn hlut en það sem virðist koma beint út úr gjaldinu. Ríkið mun fá eins og fyrri daginn allmikið af auknum tekjum í kjölfar hækkandi verðlags í landinu almennt. En auðvitað fær ríkið líka á sig vissa bagga. Ríkissjóður þarf sjálfur að borga allmikla launafúlgu og sú launafúlga hækkar auðvitað með áhrifum þessa gjalds.

Að mínum dómi er þetta gjald, sem hér er á ferðinni, alveg dæmigert um skatta á vegum ríkisins. Till. kemur fram um skatt. Menn mega helst ekki vera að því að vega og meta þennan skatt. Menn skulu verða að renna honum niður umhugsunarlaust, og helst er sagt við menn, að þeir ættu ekki að vera að grufla neitt út í það, hvaða afleiðingar þetta hefði. Og á allra síðustu stundu í þinginu á auðvitað að reyna að koma þessu í gegn. Þeir, sem standa fyrir þessu, að leggja á einn nýjan skattinn enn í þessu formi, reyna að afsaka sig og segja: Þetta stendur ekki nema svona í tvö ár, það á að koma virðisaukaskattur eftir tæp tvö ár, svo að það er ekkert voðalega mikið þó að ríkissjóður hirði nú 1 milljarð á ári í 2 ár eða kannske 21/2 ár. En í fyrsta lagi, eins og bent hefur verið á, er auðvitað ekki nokkur minnsta vissa fyrir því, að neinn virðisaukaskattur verði kominn eftir tvö ár. Það er í algerri þoku ennþá. Auk þess er svo það, að menn ættu að vera búnir að læra það, að þó að hér kæmi upp virðisaukaskattur hjá okkur, auðvitað í staðinn fyrir söluskatt, þá mun sá fjmrh., sem þá verður í stólnum, standa fast á því að halda í alla þá tekjustofna sem hann hefur komist einu sinn yfir, og ef hann á stoð á Alþ. í álíka fylgispökum mönnum og núv. fjmrh. á í þessu tilfelli, þar sem menn munar ekkert um að taka á sig hvað sem er, þá heldur hann þessu og rúmlega það og öllum þessum aukasköttum sem hann hefur verið að koma á að undanförnu.

Nei, það mál, sem hér liggur fyrir, var í rauninni afskaplega einfalt. Það var búið að endurgreiða uppsafnaðan söluskatt í nokkur ár, það var búið að taka ákvörðun um endurgreiðslu á söluskatti fyrir árið 1977. (Gripið fram í: Bara af útflutningi.) Já, bara af útflutningi. Og það var aðalatriðið. Það var því ósköp auðvelt að halda því áfram. Að því leyti til sem iðnaður, sem framleiddi fyrir innlendan markað, átti hér hlut að máli, þá var vitanlega enginn vandi að semja um að hann fengi hluta af uppsöfnuðum söluskatti og þar yrði gengið út frá almennri meðaltalsprósentu. Það er auðvitað alger fjarstæða, sem kom fram hjá hv. frsm. meiri hl., að gera þyrfti þetta þannig upp, að þetta væri endurgreitt, á meðan við höfum ekki tekið upp virðisaukaskatt, mismunandi til hvers einstaks fyrirtækis. Iðnaðurinn hefði vissulega sætt sig við að hér yrði reiknuð út meðaltalsprósenta og hér yrði um endurgreiðslu að ræða. Hér átti auðvitað að vera um endurgreiðslu að ræða, en ekki fara þann veg að leggja bara á nýjan skatt.

Ég hef í rauninni gert grein fyrir afstöðu minni og væntanlega okkar beggja í minni hl. til þessa máls. Við höfum lýst yfir þeirri afstöðu okkar, að við erum reiðubúnir til þess að taka þátt í því að setja reglur um endurgreiðslu á uppsöfnuðum söluskatti. En við erum algerlega á móti því að fara þá leið sem lögð er til í þessu frv., vegna þess að hún er ekki í samræmi við hagsmuni iðnaðarins almennt séð. Iðnaðurinn veit ekkert hvað hann fær út úr þessu gjaldi. Honum hefur algerlega verið neitað um svör við því, hvað hann eigi að fá mikið af gjaldinu. Það liggja engar bindandi upplýsingar fyrir um hvernig eigi að ráðstafa gjaldinu. Hitt liggur miklu frekar fyrir, hvað iðnaðurinn muni fá í hausinn í sambandi við afleiðingarnar af þessu gjaldi. Og ég sé ekki neina ástæðu til þess að liggja á því, að það kom skýrt fram hjá formanni Félags íslenskra iðnrekenda og samstarfsmanni hans, að þeir gerðu þetta að algeru skilyrði — að fá þetta ákveðið og fá þetta hlutfall af gjaldinu — fyrir stuðningi sínum við málið. Þessu skilyrði hefur ekki verið mætt. Þá liggur málið þannig fyrir: Iðnaðurinn hefur ekki samþykkt þetta. Verslunarráðið mælir á móti þessu. Alþýðusambandið mælir á móti þessu. En fjmrh. mælir með því. Það er rétt, hann mælir með því, hann vill fá gjaldið. — En það er svo auðvitað í stíl við ýmislegt annað að leggja á ný og ný gjöld og afsaka það með því, að verið sé að gera slíkt fyrir þennan eða hinn. Ef þessa leið á að velja, sem hér er lögð til, þá er það auðvitað algert lágmark að gera skýra grein fyrir því, hvernig á að verja þessum fjármunum, alveg bindandi, svo að það liggi alveg á ljósu hvað af fjármunum þessa gjalds eigi að fara til stuðnings við iðnaðinn á beinan eða óbeinan hátt og hvað eigi að renna í ríkissjóð.

Afstaða okkar í minni hl. er sú, að með tilliti til þessa, sem ég hef sagt og upplýst hefur verið um þetta mál, þá teljum við að fella beri þetta frv.