02.05.1978
Neðri deild: 92. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4388 í B-deild Alþingistíðinda. (3656)

299. mál, jöfnunargjald

Tómas Árnason:

Herra forseti. Aðeins örfá orð til viðbótar við það sem hv. frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. sagði í framsögu sinni um þetta mál. Að vísu var fróðlegt að hlusta á ræðu hv. 2. þm. Austurl. um það, hvernig vísitölufyrirkomulagið skrúfar upp verðlagið í landinu, en ég ætla ekki að stofna til frekari umr. um það mál við þetta tækifæri.

Það, sem ég vildi ræða stuttlega, er um ráðstöfun þessa gjalds. Ég sagði við 1. umr. málsins, að ég teldi það vera galla á frv. að ekki lægi fyrir hvernig ætti að ráðstafa gjaldinu. En þó er ljóst, að það mikið liggur fyrir í þessu efni að það á að ráðstafa því í tvennum tilgangi, annars vegar til ríkissjóðs og hins vegar til iðnaðarins. En ekki liggur fyrir hvernig þetta skiptist.

Augljóst er að þetta frv. opnar leið til þess að greiða eða endurgreiða þennan svokallaða uppsafnaða söluskatt af útflutningsvörum samkeppnisiðnaðar fyrir árin 1975 og 1976. Ég hygg að ég fari rétt með það, að sú upphæð muni nema um 217 millj. kr., eftir því sem fulltrúar iðnaðarins hafa upplýst. Ég er þeirrar skoðunar að endurgreiða eigi þennan söluskatt af þessu gjaldi. Ég hygg að flestir eða allir þm. Framsfl. séu sömu skoðunar. Og ég vil láta það koma fram og líta svo á, að alls ekki sé loku fyrir það skotið, að svo verði gert þar sem tekjur eiga að verða nægar til þess, a. m. k. á næsta ári. Ég álít því að eðlilegt sé að ráðstafa tekjum af þessu gjaldi á þann hátt að hluti af því renni til ríkissjóðs.

Það er rétt, sem komið hefur fram, að gjaldið veldur auknum útgjöldum ríkissjóðs, laun hækka vegna gjaldsins. Það er deilt um hversu mikil verðhækkunaráhrifin af gjaldinu séu. Hagstofan hefur sagt að þau yrðu 0.3% og aðrir hafa nefnt hærri tölur, eins og hér hefur komið fram. Ég hygg að ekki væri óeðlilegt að álíta að verðhækkunaráhrifin væru í kringum 0.5%. Það mundi þýða veruleg útgjöld í hækkuðum launum ríkisstarfsmanna. Kannske væri ekki óeðlilegt að nefna 200–300 millj. í því sambandi. En gjaldið á að gefa 675 millj. kr. á árinu 1978 og 1080 millj. á ársgrundvelli.

Í öðru lagi hefur verið lýst yfir, að gjaldið muni að hluta til renna til iðnaðarins, og sérstaklega verið nefnd iðnþróun í því sambandi, til stuðnings iðnaðinum, til þess að hann geti staðist harða samkeppni við iðnað EFTA-landanna. Auk þessa álít ég að eðlilegt sé að uppsafnaði söluskatturinn fyrir árin 1975 og 1976 verði greiddur af þessu gjaldi. —Ég vildi láta þetta koma fram sem skoðun af hálfu okkar þm. Framsfl.