02.05.1978
Neðri deild: 92. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4389 í B-deild Alþingistíðinda. (3657)

299. mál, jöfnunargjald

Frsm. meiri hl. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Aðeins nokkur orð út af ræðu hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar. Hann ræddi um að það væri að því látið liggja að þetta gjald væri lagt á vegna íslensks iðnaðar. Mér fundust þetta dálítið undarleg ummæli miðað við það, að yfir okkur hv. þm. hefur rignt till. frá íslenskum iðnrekendum núna undanfarin ár og ég man nú ekki betur en sú till., að lagt yrði á jöfnunargjald til þess að íslenskir iðnrekendur stæðu jafnfætis erlendum samkeppendum sínum, væri komin frá þeim, þó kannske væri hún ekki númer eitt. Númer eitt var að fá frestun á tollalækkunum vegna EFTA-aðildar, en þetta hygg ég að sé samdóma álit íslenskra iðnrekenda og hafi verið till. þeirra. Verður ekki komist nær því að mæta tilmælum þeirra og létta þeim róðurinn.

Þetta mál snýst í rauninni um mjög einfaldan hlut. Allir íslenskir iðnrekendur, hvort sem þeir flytja út vöru eða selja hana á heimamarkaði, greiða söluskatt í ríkissjóð. Þessi söluskattur er 2–4%. Þá var það till. þeirra, að í stað þess að þetta yrði endurgreitt úr ríkissjóði, sem ég skal koma að í örfáum orðum á eftir, þá yrði lagt á þetta gjald og þá stæðu hinir erlendu framleiðendur jafnfætis þeim, sem greiddu í ríkissjóð 2–4% söluskatt. Samkeppnisaðstaða þessara beggja aðila væri hin sama, ef þeir seldu vöru sína á innlenda markaðnum og ef söluskatturinn yrði endurgreiddur fyrir þá, sem selja erlendis, sem gefur auga leið að þarf að vera með í myndinni. Um þetta snýst málið fyrst og fremst, þ. e. a. s. jöfnun á aðstöðu í skattlagningu alveg án tillits til þess, hvernig þessu gjaldi er að öðru leyti varið. Þetta hefur verið tillaga forráðamanna íslensks iðnaðar um margra mánaða skeið að yrði gert. Það þarf því ekki að fara neitt í grafgötur um að þetta er gert að þeirra ósk og þetta er gert fyrir íslenskan iðnað. Allt annað mál er, að þeir vildu kannske kveða dálítið fastar á um hvernig ætti að verja þessu gjaldi til eflingar iðnþróun, en það er bara allt annað mál þó það sé kannske tengt þessu. — Ég vildi láta þetta koma skýrt fram, að að sjálfsögðu er þetta mál flutt fyrir eindregna áeggjan forráðamanna íslensks iðnaðar.

Hv. þm. sagði að ekki væri ágreiningur um að endurgreiða söluskatt sem leggst á iðnrekendur, bæði þá, sem flytja iðnaðarvörur úr landi, og þá, sem framleiða vörur fyrir innanlandsmarkað. En þetta eru engar smáupphæðir sem þarna er um að ræða. Ég hef ekki tölur um þetta, en ég gæti giskað á að þetta væri allt að því að vera um 1 milljarður, svipuð upphæð og jöfnunargjaldið er reiknað á einu ári, — 1 milljarður sem þarna er um að tefla. Og þá er spurningin: Hvernig á að afla fjár til þess að greiða þetta? Þetta eru aukaútgjöld fyrir ríkissjóð, miðað við það sem reiknað hefur verið með í fjárlagagerð. Og hvernig á að afla tekna til þess að greiða þetta? Á að skera niður? Hvar á þá að skera niður? Á að leggja á söluskatt? Það fer alveg nákvæmlega eins fyrir því og þessu gjaldi, að vísitölukerfið okkar, eins og hv. þm. lýsti svo glæsilega áðan, mundi skrúfa söluskattinn upp nákvæmlega eins og þetta gjald. Þó er von til þess að þetta gjald verði miklu viðaminna í verðhækkun, eins og hér var rakið að framan, og ég ætla ekki að fara út í það. En það er nákvæmlega sama hvernig aflað væri fjár til þess að standa straum af því tekjutapi eða þeim útgjaldaauka sem ríkissjóður yrði fyrir, nema með því að hækka tekjuskatt. Það er einasta leiðin sem opin er, þannig að það fari ekki út í verðlagið og margfaldist ekki upp í því vísitölukerfi sem við búum við.

Svo að lokum: Ég skal ekki orðlengja um þetta mál, en hv. þm. gerði mikið úr því, að ráðstöfun á tekjum væri óljós. Ég verð að segja fyrir mig, að mér fyndist að æskilegt væri að kveða skýrar á um það. Um þetta er nokkur óvissa, þar sem lagt er í dóm ríkisstj. á þessu ári að ráðstafa tekjum af þessu gjaldi. Á hinn bóginn er skýrt tekið fram, að þessu gjaldi, sem verður áreiðanlega til á næsta ári, því að ekki er gert ráð fyrir að virðisaukaskattur verði þá tekinn upp, mun Alþ. ráðstafa þá samkv. þessum lögum. Fjvn. mun gera till. til Alþ. um að ráðstafa því, þannig að Alþ. hefur það í hendi sér á næsta ári. Og það hefur verið skýrt tekið fram, bæði í framsögu minni og nál. meiri hl., að á meðan þetta gjald verði lagt á geti útflytjendur íslenskra iðnaðarvara reiknað með því, að endurgreiddur verði söluskattur af útfluttum iðnaðarvörum.

Hv. þm. klykkti út með því að endurtaka margoft, að þetta frv. væri ekki til stuðnings íslenskum iðnaði. Ég vil nú leggja það í dóm hv. þm, hér í d., hvort þeir líti svo á, að Félag ísl. iðnrekenda og forustumenn iðnaðarins viti ekki nokkurn veginn hvað þeirra atvinnuvegi er fyrir bestu eða hvort Verslunarráðið eða Félag ísl. stórkaupmanna sé ekki dómbært á það.