03.05.1978
Efri deild: 96. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4399 í B-deild Alþingistíðinda. (3714)

299. mál, jöfnunargjald

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Hér liggur fyrir til umr. frv. til l. um jöfnunargjald. Með frv. þessu er lagt til að sérstakt gjald verði lagt á innfluttar iðnaðarvörur til að vega upp á móti þeim söluskatti sem verður hluti af framleiðsluverði innlends varnings.

Við myndun markaðssamstarfs landa Vestur-Evrópu á sjötta áratugnum — Efnahagsbandalags Evrópu og Fríverslunarsamtaka Evrópu — kom fljótlega í ljós að hin mismunandi kerfi söluskatta þessara landa röskuðu að ýmsu leyti samkeppnisaðstöðu framleiðslugreina þessara lands eftir því hvaða skattkerfi var í gildi. Var það talið verka sem hemill á þá fríverslun sem stefnt var að. Í sumum löndum var innheimtur svonefndur fjölstigasöluskattur er lagðist á heildsöluverð á hverju viðskiptastigi og gat því lagst oft á sömu vöruna á leið hennar um hin ýmsu viðskiptastig frá framleiðanda til endanlegra kaupenda. Í öðrum löndum var innheimtur svonefndur einsstigs söluskattur, en hann er krafinn aðeins á einu viðskiptastigi, t. d. heildsölustigi eða smásölustigi.

Söluskattur á Íslandi er almennt bundinn við síðasta viðskiptastig og er því einsstigs söluskattur þótt frá þeirri meginreglu séu nokkrar undantekningar. Í enn öðrum löndum var í gildi svonefndur virðisaukaskattur. Hann er fjölstigaskattur er greiðist á hverju viðskiptastigi. Við skil á skatti þessum til ríkissjóðs má fyrirtæki draga frá álögðum skatti af heildarsölu þann skatt sem það hefur greitt við kaup á vörum og hvers konar aðföngum til framleiðslunnar.

Til þess að koma í veg fyrir að þessi mismunandi skattkerfi röskuðu innbyrðis samkeppnisaðstöðu aðildarlanda var fljótlega hafist handa um að samræma söluskattskerfin. Má nú heita að öll aðildarlönd Efnahagsbandalagsins og Fríverslunarsamtakanna — að Finnlandi og Íslandi undanskildum hafi samræmt söluskattskerfi sín með því að taka upp virðisaukaskatt. Þetta skattkerfi felur í sér m. a., að enginn skattur er innifalinn í verði útfluttrar vöru og þjónustu þar sem uppsöfnunaráhrifa gætir ekki frá virðisaukaskattkerfi.

Í grg., er fjmrn. birti um virðisaukaskatt, er fjallað ítarlega um þá uppsöfnun, sem á sér stað á söluskatti hér á landi, og áhrif hennar á samkeppnisaðstöðu. Í álitinu segir m. a.:

„Uppsöfnunaráhrifin valda ófyrirsjáanlegri mismunun á samkeppnisaðstöðu hinna ýmsu atvinnugreina og framleiðsluaðferða. Þau geta þar með haft áhrif á val neytenda á neysluvörum, og þau hafa tilviljunarkennd áhrif á samkeppnisaðstöðu íslenskra framleiðsluvara, bæði á erlendum og innlendum markaði, í samkeppni við erlendis framleiddar vörur.“

Með frv. þessu er jöfnuð að verulegu leyti sú mismunun sem íslenskur iðnaður hefur búið við. Áætlað er, að tekjur af jöfnunargjaldi muni nema 675 millj. kr. á árinu 1978, en tæpum 1100 millj. árið 1979. Gert er ráð fyrir að hluta af þessum tekjum verði varið til eflingar iðnþróun samkvæmt því er ákveðið verður í fjárl. ár hvert, en árið 1978 verði það með ákvörðun ríkisstj. Þ. á m. er gert ráð fyrir að hluta gjaldsins verði varið til endurgreiðslu á uppsöfnuðum söluskatti, til eflingar útflutningsmiðstöð iðnaðarins og markaðsöflun fyrir íslenskar iðnaðarvörur, til undirbúnings og skipulagningar tæknistofnunar fyrir iðnaðinn, til eflingar tækniaðstoð við iðnfyrirtæki, til starfsþjálfunar og eftirmenntunar faglærðs og ófaglærðs fólks er við iðnað starfar, til að auka stuðning við nýiðnaðarverkefni og til eflingar vöruþróun.

Ég vil að þessu mæltu, herra forseti, leyfa mér að leggja til að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn. Vænti ég þess, að hún og d. hafi aðstöðu til að afgreiða þetta frv. áður en þingi lýkur.