03.05.1978
Efri deild: 96. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4401 í B-deild Alþingistíðinda. (3717)

299. mál, jöfnunargjald

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég harma að hæstv. fjmrh. skyldi ekki svara betur eða beint þeirri fsp. sem hv. 2. þm. Vestf. beindi til hans varðandi endurgreiðslu á söluskatti fyrir árin 1975 og 1976 af því jöfnunargjaldi sem hér er til umr. Tilkoma þessa frv. er samkv. hugmyndum iðnrekenda til þess eins að reyna að pína út úr fjmrn., fjmrh. og ríkissjóði endurgreiðslu á peningum sem þegar eru komnir í ríkissjóð og hefur alltaf staðið til í hugum iðnrekenda að skyldi endurgreiða, enda hefur ríkissjóður endurgreitt hluta, þ. e. til 1975, og stendur til að endurgreiða eftir 1976 uppsafnaðan söluskatt af útfluttum iðnaðarvörum. Ég ítreka því fsp. hv. þm. Steingríms Hermannssonar til fjmrh. og óska eftir hreinu og beinu svari: Stendur til að endurgreiða, verði þetta frv. samþykkt, uppsafnaðan söluskatt af útflutningsafurðum eða iðnaðarvörum fyrir árið 1975 og 1976? Og ég óska ekki eftir loðnu svari.

Varðandi þennan uppsafnaða söluskatt, sem mikið hefur verið talað um, flutti ég á sínum tíma þáltill. í Sþ. á þskj. 96, svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að endurgreiða fyrir júnílok 1978 uppsafnaðan söluskatt af útfluttum iðnaðarvörum áranna 1975, 1976 og 1977.“

Þrátt fyrir margítrekaðar tilraunir hefur mér ekki tekist að fá þessa þáltill mína rædda í Sþ., og það svar, sem ég hef fengið frá hv. formanni fjvn., er að þeir væru ekki tilbúnir að afgreiða hana úr n. Mér er alveg óskiljanlegt hvernig á því stendur. Það, sem ég hef í huga sem ástæðuna, vil ég ekki segja í þessum ræðustól. En ég vona að hæstv. fjmrh. skilji og viti nákvæmlega hvað ég á við.

Þetta frv. til 1. um jöfnunargjald er að mínu viti mjög slæmt, vegna þess að hér er verið að leggja á slíkt gjald ég ætla að biðja hæstv. fjmrh. að taka eftir því sem ég segi — að það næsta, sem hentar íslenskum iðnaði, er að óska eftir því að þjóðin kaupi erlendan iðnaðarvarning til þess að styrkja íslenskan iðnað. Því meira sem keypt er af honum, þeim mun hærri upphæð skapa þessi 3% til skiptanna. Þetta er furðulegt gjald, fyrir utan að vera tvísköttun. Það er uppsafnaður söluskattur í ríkissjóði, sem ríkissjóður á að skila, en iðnrekendur voru beðnir um að koma með till. um gjaldtöku til þess að ríkissjóður gæti aflað tekna til að standa í skilum. Og þetta er till. sem hér liggur frammi í formi frv. til l. um jöfnunargjald.

Það liggur ekki fyrir nein sundurliðun á því, hvernig á að ráðstafa þessu fé, sem á þessu ári yrði eitthvað á sjöunda hundrað millj. — á ársgrundvelli yfir milljarð a. m. k. — sem hefur bein áhrif á allt verðlag og þar að auki, eftir því sem fram kom hjá fulltrúa Alþýðusambands Íslands þegar hann kom á nefndarfund, nákvæmlega sömu áhrif á Alþýðusambandið og ráðstafanir ríkisstj. í efnahagsmálum, þó í minna mæli sé. Og ég held að allir séu búnir að fá sig fullsadda af þeim.

Ég ætla að endurtaka það, að þetta er slæmt frv., fyrir utan að þessu frv. er ekki eingöngu ætlað að standa undir aðstoð eða uppbyggingu á íslenskum iðnaði eða auka atvinnutækifæri eða styrkja hann til endurnýjunar. Það er langt frá því. Það er eins og þetta frv. sé líka notað, í þetta skipti eins og öll önnur skipti, til að gera hugmyndir, sem eiga að standa undir einhverju ákveðnu, að tekjulind fyrir ríkissjóð. Það eru ekki orðið til nein samskipti, hvorki opinberra aðila þeirra á milli né við fyrirtæki eða einkaaðila, svo að ríkið sé ekki að einhverju leyti með klærnar inni í innheimtu eða gjaldtöku. Og nú er nóg komið.

Það allra minnsta, sem hægt er að gera hér, er að það komi skýrt fram, hvernig á að ráðstafa væntanlegum tekjum, þannig að þjóðin sjái, og ég tala nú ekki um þm. viti nákvæmlega hvað þeir eru að samþykkja. En þetta er frv., sem þeir aðilar, sem komu á fund fjh.- og viðskn., sameinaða fundi, vöruðu við. Ég man ekki eftir neinum öðrum en iðnrekendum sjálfum sem hafa mælt með samþykkt þessa frv., og ég verð að álíta að þeir geri það að óathuguðu máli, því að þetta gerir ekki annað en að hvetja til þess að kaupa erlendar iðnaðarvörur til að styrkja íslenskan iðnað.

Ég ætla ekki að rekja frekar efni þessa frv., en þó langar mig til að benda á, að í aths. við 3. gr. segir svo: „Gert er ráð fyrir að tekjum af jöfnunargjaldi verði að hluta til varið til eflingar iðnþróunar.“ Ég reikna með að hitt fari beint í ríkissjóð. Ég á eftir að sjá það, að ríkissjóður haldi áfram að endurgreiða söluskattinn. En neðar í þessum sömu aths. segir: „Lagt er til að ríkisstj. ráðstafi því fé er innheimtist árið 1978, og mun því fyrst og fremst varið til þeirra viðfangsefna á sviði iðnaðar sem upp eru talin á fjárlögum fyrir árið 1978.“ — Það er ekki sagt hvort það eigi að koma til aðstoðar því, sem talað er um í fjárl., eða hvort á að gera eitthvað meira á því sviði sem talið er upp í fjárl. 1978. Búið er að taka ákvörðun um það á fjárl, hversu mikið á að gera á þessu sviði, þ. e. a. s. á sviði iðnaðar, en þetta er sem sagt viðbót við fjárl, hvort sem það á að auka verkefnin eða ríkissjóð vantar tekjur til að standa undir þeim fjárl. sem þegar er búið að samþykkja. Þetta er allt jafnóljóst.

Ég vil svo undirstrika það, að þeir aðilar, sem komu á fundi fjh.- og viðskn. og voru beðnir að láta í ljós skoðun sína á þessu jöfnunargjaldi, töldu það vera verðbólguhvetjandi og mæltu á móti samþykkt þess. Það voru m. a. fulltrúar frá Iðju og frá Alþýðusambandinu og fyrir fjh.- og viðskn. lá líka samþykkt framkvæmdastjórnar Verslunarráðs Íslands