03.05.1978
Efri deild: 96. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4404 í B-deild Alþingistíðinda. (3720)

299. mál, jöfnunargjald

Bragi Sigurjónsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég vil taka undir þau ummæli, sem hér hafa komið fram í d., að óviðfelldið er að leggja á þjóðina nýja skatta og skjóta sér undan því að skilgreina til fulls, í hvað þeir eiga að lenda, ekki síst þegar við heyrum og finnum að þetta eru í raun og veru peningar sem þegar er búið að leggja á þjóðina og innheimta, sem á að greiða að hluta. Það er þannig verið að tvítaka hluta af þessu, en hitt, sem eftir stendur, fáum við ekki að vita með fullu hvernig hugsað er að nota. Ég held einnig að það sé í raun og veru ákaflega óvenjulegt að slíkt gjald sé lagt á eins og hér er á ferðinni. Þess vegna vil ég taka mjög ákveðið undir ummæli hv. 12. þm. Reykv., Alberts Guðmundssonar, um leið og ég enda þessi fáu orð með því að lýsa því yfir að ég er alfarið á móti þessu frv.