03.05.1978
Efri deild: 96. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4405 í B-deild Alþingistíðinda. (3725)

200. mál, sala eyðijarðanna Kroppsstaða og Efstabóls í Mosvallahreppi

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég fagna þeim fyrirvara sem kemur fram í nál. þess efnis, að sveitarstjórn Mosvallahrepps sjái fyrir því, að áformuð jarðasala raski ekki búskaparaðstöðu bænda í sveitarfélaginu. Ég tel að þarna sé tekið tillit til þess, sem kom fram við 1. umr. um þetta mál. Hins vegar er mér ekki alveg ljóst, hvort það sé í raun og veru ekki landbrn., sem á þessar jarðir og fer með þær, sem þarf að sjá til þess að svo verði, að þarna verði ekki raskað búskaparaðstöðu. Nú er mér alveg ljóst, að þetta gefur til kynna einróma vilja landbn., að þess verði gætt að búskaparaðstöðu verði ekki raskað. Ég efast um að nokkur maður hafi í huga að búskaparaðstöðuverði raskað. Mér sýnist hins vegar að þetta verði betur tryggt með því að taka þennan fyrirvara n. inn í tillgr., þannig að landbrn. beri jafnframt að gæta þess við ráðstöfun á jörðunum. Því vil ég leyfa mér að flytja brtt. svo hljóðandi:

„Á eftir orðunum „sem um semst“ komi: „enda raski áformuð jarðasala ekki búskaparaðstöðu bænda í sveitarfélaginu.“

Þetta er eins og ég sagði áðan tekið nokkurn veginn óbreytt upp úr nál. og með þessu hyggst ég undirstrika þann vilja sem kemur fram hjá hv. landbn. E. t. v. óttast einhverjir að þetta mál komist ekki í gegnum þingið, ef þessi brtt. verður samþykkt. Ég held að það sé alveg ástæðulaust. Við erum nú með frv. eftir 1. umr. til 2. umr., sem að sjálfsögðu eiga eftir að fara í gegnum Nd., og mér sýnist að þetta mál geti vel fylgt þeim frv. og ekki þurfi að óttast að það nái fram að ganga.