03.05.1978
Efri deild: 96. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4406 í B-deild Alþingistíðinda. (3727)

200. mál, sala eyðijarðanna Kroppsstaða og Efstabóls í Mosvallahreppi

Frsm. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Ég verð að lýsa furðu minni á þeirri brtt. sem hér er lögð fram, því að ég vil taka það fram, að í umr. í landbn. Ed. kom í ljós að við höfðum fullt traust á hreppsnefnd Mosvallahrepps til þess að fjalla um þetta málefni. Ég verð að segja að mér finnst ekki vera rétt af Alþ. að vantreysta heimamönnum til þess að hlutast til um mál sem þetta. Ég hef að vísu ekki borið það undir meðnm. mína í landbn., hvort þeir séu samþykkir þessari brtt. eða ekki, en ég dreg það mjög í efa eftir þær umr. sem urðu í n. Við töldum að það væri mjög eðlilegt, að það væri hreppsnefndin sem hefði síðasta orðið um hvernig með þessi mál yrði farið heima fyrir. Og ég verð að segja fyrir mig, að ég ber fyllsta traust til hreppsnefndar Mosvallahrepps til að sjá þessu máli farsællega borgið þannig að allir geti vel við unað heima fyrir.