03.05.1978
Efri deild: 96. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4406 í B-deild Alþingistíðinda. (3728)

200. mál, sala eyðijarðanna Kroppsstaða og Efstabóls í Mosvallahreppi

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég get nú notað sömu orð og hv. 6. þm. Suðurl. Ég get lýst furðu minni. Ég taldi mig vera að undirstrika þann vilja sem kemur fram hjá hv. landbn. Ég hef ekki lýst nokkru vantrausti á hreppsnefnd Mosvallahrepps. Hins vegar get ég einnig upplýst það, að ég hef rætt við landbrn. um málið, sem hefur lýst furðu sinni á því, að svona mikið kapp skuli lagt á að selja þessar jarðir sem eru í leigu til 1981. Það eru fleiri sem geta lýst furðu sinni en hv. 6. þm. Suðurl. Ég satt að segja skil þetta ekki.

En ég vil ekki vera að bregða fæti fyrir þessa samþykkt fyrst hv. landbn. hefur athugað málið. Ég veit að hún ræddi við þann bónda, sem hér er um að ræða, um það hvort búskaparaðstaða er þarna í hættu. Ég vil og þakka hv. landbn. fyrir það, sem kemur fram í nál. hennar. En það er landbrn., sem selur jarðirnar. Landbrn. fer með eignarrétt á þessum jörðum fyrir hönd ríkissjóðs og því er ég ekki síst að beina þessu til landbrn. auk hreppsnefndar Mosvallahrepps. Ég held að báðir aðilar þurfi að vera sér þess fyllilega meðvitandi, hvað hér er um að ræða. Ég veit að hér inni er enginn sem vill raska búskaparaðstöðu þeirra manna, sem þarna hafa aðstöðu.

Ég skal ekki hafa um þetta fleiri orð. Þetta er eingöngu til að undirstrika það og til þess að tryggja að þessi vilji hv. landbn. og ég vona hv. d. allrar komi skýrt fram.