03.05.1978
Efri deild: 96. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4407 í B-deild Alþingistíðinda. (3734)

255. mál, söluskattur

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Oft hefur hvarflað að mér sú spurning, hve ríkissjóður og aðrir opinberir innheimtuaðilar hafi mikið upp úr öllum þeim sektum og kvöðum sem innheimtar eru af annars heiðarlegu fólki. Hvað eru þessar sektartekjur ríkissjóðs miklar? Hvað eru þær stór hluti af heildartekjum ríkissjóðs?

Ástæðan fyrir því, að ég mun greiða þessu frv. mótatkv., er sú, að oft er það svo að skilvísasta fólk, sem er söluskattsskylt, hefur ekki innheimt skattinn þegar greiðslu er krafist. Þessir aðilar verða að sæta þeim afarkostum fram yfir aðra innheimtumenn ríkistekna, að þeir eru með lögum skyldaðir til þessara starfa endurgjaldslaust gegn vilja sínum og hljóta peningasektir fyrir hafi þeir þau eðlilegu samskipti við viðskiptavini sína að eiga við þá lánsviðskipti, því að ef svo er hafa þeir ekki tekið á móti söluskattinum á gjalddaga hans. Mér er næst að segja, að aldrei hafi nein stétt verið meiri órétti beitt og aldrei hafi svo margir verið pískaðir áfram kauplaust í skjóli laga. Því mun ég greiða þessu frv. mótatkv.