09.11.1977
Efri deild: 13. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 567 í B-deild Alþingistíðinda. (375)

72. mál, umferðarlög

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég vil með nokkrum orðum fjalla um þetta frv. nú.

Það er vissulega rétt hjá hæstv. ráðh., að það má ekki spara fé né tíma til að draga úr slysum hér á landi, og það er einnig rétt, að hætta er á því að slysum fari fjölgandi vegna aukinnar bílaumferðar. Ég segi: það er einnig hætta á því, en þarf það að vera svo? Ég er einn af þeim sem hafa undrast það undanfarið, að það skuli engin stofnun í landinu, svo margar sem þær eru, telja sér skylt að taka þessi mál sérstaklega fyrir. Ef það er eingöngu afsökun að það vanti fé, þá trúi ég því varla, vegna þess að bæði Ríkisútvarp og Sjónvarp eru ríkisreknar stofnanir og það má hafa fastan þátt um slysavarnir í þessum stofnunum eins og hverja aðra þætti. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að þessir þættir hefðu verið teknir upp fyrir löngu. Það hafa stundum verið og ég tel með mjög góðum árangri mjög góðir fræðsluþættir í sjónvarpinu, og þeir, sem að þeim fræðsluþáttum hafa staðið, eiga skyldar miklar þakkir. Þar hafa verið sýndar glöggar myndir, stuttar myndir, 5 mínútna þættir, og þetta þyrfti að vera annan hvern dag. Ef einhverjir verða leiðir á því, þá verða þeir að vera leiðir á því. Þessir þættir hafa það mikið gildi að mínu mati að þeir eru ómissandi. Þegar við horfum fram á þá staðreynd, að hér eru dauðsföll í umferð svo nemur mörgum tugum manna og einnig önnur slys er — nema hundruðum, þá er það óþolandi að þessir ríkisreknu fjölmiðlar skuli ekki hafa fasta þætti til þess að sporna við þessum vágesti.

Ég held ég fari rétt með það, að aðeins fótbrot kosti að meðaltali nálægt því milljón króna nú á þessu herrans ári. Við sjáum hvað þarna eru óhugnanlega stórar tölur. Því má segja að það, sem frv. gerir ráð fyrir, að afla tekna sem geta numið 19–20 millj. kr., sé ekki stórt — séu ekki stórar tölur, og að því leyti ættum við að geta samþ. það þegar á stað. En ég tel að það sé ekki einhlítt að fá alltaf meiri og meiri peninga. Við verðum að nota þau tæki sem fyrir eru.

Hæstv. ráðh. drap á það og undirstrikaði gildi þess, að frjáls félagsstarfsemi í landinu er mjög mikilvæg til þess að koma í veg fyrir hin tíðu og óhugnanlegu slys. Ég fæ því ekki skilið hvað hefur orsakað það að ekki skuli vera meiri áróður gegn slysunum. Ég fæ ekki heldur skilið að féleysi skuli kennt um og er ekki sammála.

Ég vænti þess að Alþ. beri gæfu til að taka þessi mál þeim tökum að lausn fáist á þeim, bæði með aukinni fjárveitingu og einnig þrýstingi á þann veg, að stöðugur áróður verði hafður uppi í þessum fjölmiðlum. Blöðin segja oft mjög ítarlega frá slysum. Sumir hafa kvartað undan því, að það væri óhugnanlegt að horfa á myndir af ökutækjum þegar dauðsföll hafa átt sér stað. Það kann vel að vera að það snerti ættingja þeirra, er hafa lent í slíku, mjög sárt og það sé þess vegna viðkvæmt mál. En aðvörun um að fara gætilega verður að eiga sér stað jafnt og þétt.

Þetta kostar þjóðarbúið svo gífurlegar upphæðir, að það er ekki hægt að afsaka það með peningaleysi upp á örfáar millj. kr. Ég er hlynntur því, að við finnum lausn á þessu máli, og þakka hæstv. ráðh. fyrir að koma með þetta mál hér enn einu sinni. Eins og hann sagði um frv. í upphafi, þá er þetta gamall kunningi og við höfum verið að deila um aðferðirnar til að tryggja fjármagnið. Við ættum ekki að gera það endalaust. Við ættum heldur að snúa okkur að því að finna betri úrræði til þess að koma í veg fyrir þessi óhugnanlegu slys. Hvort þetta er heppilegasta leiðin skal ég ekki segja um á þessu stigi. En ég fæ ekki séð að það sé auraleysi sem hafi háð því að hafa uppi sterkan áróður gegn aukinni slysatíðni, vegna þess að við rekum þessa fjölmiðla, ríkissjóður rekur þá, og það má vel hafa stöðuga og fasta þætti bæði í útvarpi og sjónvarpi, eins og ég gat um í upphafi ræðu minnar, og ákveðnar og vel undirbúnar áminningar til almennings að gæta hófs í umferðinni, flýta sér ekki um of, sýna kurteisi og tillitssemi sem mjög skortir á.

Ég mun ekki verða mótfallinn þessu frv. þegar það kemur úr n. Ég vildi aðeins nota þetta tækifæri, af því að ég á ekki sæti í þeirri n. sem fjallar um málið, til að lýsa afstöðu minni. Ég ítreka þakkir mínar til hæstv. ráðh. fyrir að vekja enn einu sinni máls á þessu mikla máli. En ég vil ekki hafa það sem afsökun að fé hafi skort. Það hefur eitthvað annað skort. Jafnvel er einhver togstreita á milli þeirra mörgu frjálsu félaga sem öll vilja þó vinna að slysavarnarmálum.