03.05.1978
Efri deild: 97. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4410 í B-deild Alþingistíðinda. (3754)

38. mál, iðnaðarlög

Frsm. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Iðnn. hefur haft til meðferðar frv. til iðnaðarlaga og skilar nál á þskj. 878. N. fékk á sinn fund fulltrúa Landssambands iðnverkafólks og sömuleiðis fulltrúa Iðnsveinaráðs ASÍ. Ástæðan til þess, að þessir menn voru beðnir að mæta á fundi n., er sú, að í þeim 7 umsögnum, sem n. bárust, komu fram skiptar skoðanir einkum um einn þátt þessa frv.

Í 8. gr. segir: Ráða má þó verkafólk til iðnaðarstarfa.“ Ýmsar umsagnir, eins og t. d. frá Iðnnemasambandi Íslands, Sveinafélagi skipasmiða, Múrarafélagi Íslands og Málm- og skipasmiðasambandi Íslands, vara við þessari breytingu á gildandi löggjöf. Í gildandi löggjöf er þessi heimild til þess að ráða verkafólk til iðnaðarstarfa háð samþykki viðkomandi sveinafélags.

Þeir fulltrúar, sem mættu á fundi n., voru báðir þátttakendur í nefnd þeirri, sem samdi umrætt frv., og höfðu kynnt sér þetta atriði vel. Fram kom að þetta ákvæði um samþykki sveinafélaga er mjög sjaldan notað, slíks samþykkis er yfirleitt ekki leitað þegar um einstakar ráðningar er að ræða. Einnig hefur farið í vöxt að verkafólk, sem vinnur iðnaðarstörf, hefur verið tekið inn í viðkomandi félög og þannig nánast orðið aðili að þeim kjarasamningum, sem þessi félög gera fyrir hönd meðlima sinna. Einnig kom fram að þess mun ávallt vera getið í kjarasamningum, að þeir, sem faglærðir eru í viðkomandi iðngrein, skulu ganga fyrir starfi í þessari iðngrein. Loks er í grg. með frv. nánar greint frá þessu atriði. Þar segir: „Ráða má þó verkafólk til iðnaðarstarfa. Eðlilegt er talið að meistari geti ráðið til sín aðstoðarfólk til iðnaðarstarfa. Iðnlært fólk hefur ætíð forgang til iðnaðarstarfa samkv. kjarasamningum.“

Ég vil stytta mál mitt og læt þetta nægja um þetta atriði sem fyrst og fremst var um deilt. Niðurstaða n. var sú, eftir að hafa kynnt sér þessar umsagnir og rætt við þá fulltrúa, sem ég nefndi, og athugað grg. og það annað sem er að finna í frv., að þarna væri ekki um að ræða hættu á óeðlilegri notkun þessarar heimildar. Hins vegar væri í mörgum tilfellum æskilegt að allrúm heimild væri fyrir hendi til þess að ráða verkafólk til iðnaðarstarfa, sérstaklega sem aðstoðarfólk og þar sem iðnlært fólk er ekki fyrir hendi. N. mælir því ekki með breytingu á þessu ákvæði frv.

Frá einum aðila komu fram aths. við 9. og 10. gr. Í 9. gr. segir, með leyfi forseta: „Rétt til að kenna sig í starfsheiti sínu við löggilta iðngrein hafa þeir einir, er hafa sveinsbréf eða meistarabréf í iðngreininni.“

Sú aths. kom fram frá Iðnnemasambandi Íslands, að eðlilegt væri að geta einnig þar um iðnnema í þessari grein, heimila þeim m. ö. o. að kenna sig við þá grein sem þeir nema. N. er þeirrar skoðunar, að iðnnemar hafi raunar ávallt slíka heimild. Bent er á læknanema, verkfræðinema, lögfræðinema o. s. frv. við Háskóla Íslands. Þarna er ekki um að ræða heiti sem veiti viðkomandi aðilum rétt til starfs, heldur auðkennir hann aðeins sem nemanda í viðkomandi grein. N. telur því ekki þörf á því að binda í lögum að nemendur hafi rétt til að kenna sig við það nám sem þeir stunda. Þetta var einnig rætt við fyrrnefnda fulltrúa, sem mættu á fundi n., og voru þeir þessarar sömu skoðunar.

Þá kom einnig fram aths. við 10. gr. Þar segir, með leyfi forseta:

„Hver maður getur leyst meistarabréf, ef hann fullnægir þeim skilyrðum, sem í 3. gr. segir, og hefur lokið sveinsprófi í iðngrein sinni, enda hafi hann unnið að henni síðan undir stjórn meistara ekki skemur en eitt ár og lokið meistaraprófi í iðninni frá meistaraskóla. Meðan eigi er meistaraskóli í iðninni, getur hver maður leyst meistarabréf, hafi hann unnið undir stjórn meistara í iðngreininni eða nátengdri iðngrein að loknu sveinsprófi, eigi skemur en tvö ár.“

Aths. var á þá leið, að þarna ætti að greina á milli iðngreina. Mismunandi tími kynni að vera nauðsynlegur fyrir hinar ýmsu iðngreinar. Þetta er áreiðanlega réttmæt aths. Hins vegar er opið að ákveða slíkt með reglugerð sem gefin yrði út með þessum lögum. Það er ekkert þarna, sem lokar fyrir mismunandi starf í greininni með meisturum. Aðeins er sett lágmark. N. komst því að þeirri niðurstöðu, að ekki væri þörf á því í þessum lögum að skilgreina eða binda nánar í lögunum og ekki æskilegt að binda nánar í lögunum hver sá starfstími skyldi verða og að ýmsu leyti hentugra að gera það í reglugerð, þótt n. taki undir þessa aths.

Á sérstöku þskj., þskj. 879, flytur n. eina brtt.brtt. er við 3. gr. Þar segir, með leyfi forseta: „Hver maður, karl eða kona, getur fengið leyfi til að reka iðnað“ o. s. frv. — N. leggur til, að „karl eða kona“ verði fellt út. Það er í anda jafnréttis, sem nú er tíðkað mjög, að karl og kona eru bæði menn. Við gerum því þessa lítilfjörlegu brtt. við frv.