03.05.1978
Efri deild: 98. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4431 í B-deild Alþingistíðinda. (3768)

240. mál, heilbrigðisþjónusta

Frsm, (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Heilbr.- og trn. hefur fjallað um frv. til l. um heilbrigðisþjónustu. N. hefur gefið út svofellt álit:

N. hefur rætt frv. Hún fékk Pál Sigurðsson ráðuneytisstjóra á sinn fund og veitti hann nm. veigamiklar skýringar og upplýsingar um frv.

N. leggur til að frv. verði samþ. með þeim breytingum sem hún flytur till. um á sérstöku þskj.

Þrír nefndarmanna, þeir Halldór Ásgrímsson, Ásgeir Bjarnason og Helgi F. Seljan, skrifa undir nál. með fyrirvara.

Þetta er viðamikið frv. eins og gefur að skilja, og enda þótt það hafi verið til umfjöllunar í Nd., þá sáum við okkur ekki fært annað en gera vissar till. til breytinga á því. Við höfðum hins vegar lítinn tíma til stefnu, gerðum okkur ljóst að tími hefði þurft að vera lengri, því að margt orkar tvímælis í þessu, enda þótt segja megi að frv. sé til mikilla bóta frá þeim lögum sem nú gilda. En ýmislegt, sem við höfðum viljað koma að, vannst ekki tími til að vinna til fullnustu og verður að bíða betri tíma og endurnýjaðrar endurskoðunar á lögum um heilbrigðisþjónustu.

Við flytjum nokkrar brtt. við frv., og er sú fyrsta við II. kafla frv. og við 6. gr., að í stað Arnessýslu komi: Árnessýslu og Selfosskaupstað. — Þetta er eðlileg afleiðing af því að svo stutt er síðan Selfosshreppur gerðist kaupstaður, að frv. mun hafa verið komið í prentun áður en svo varð.

Við 14. gr. frv. gerum við í fyrsta lagi brtt. við 14. 6. 4. Þórshafnarumdæmi. Leggjum við til að liðurinn hljóði svo: Þórshöfn H 1. starfssvæði Svalbarðshreppur, Þórshafnarhreppur og Sauðaneshreppur.

Og nýr liður komi þar: Raufarhöfn H 1, starfssvæði Raufarhafnarhreppur.

Þessi breyting stafar af því, að sú breyting hefur verið gerð frá upphaflegu lögunum, að Vopnafjarðarhérað hefur verið sett undir Egilsstaði í Austfjarðakjördæmi og heilbrigðisumdæmi, þannig að Þórshöfn er nú orðin á austurendanum í Norðurlandskjördæmi eystra. Er þá í raun og veru fallinn burt grundvöllurinn fyrir því, að Þórshöfn verði eins konar miðsvæði þarna, en það var áður svo, að Þórshöfn átti að vera höfuðstöð fyrir Vopnafjörð og Raufarhöfn og jafnvel Kópasker líka. Nú hefur þessu verið breytt þannig, að Vopnafjörður, Þórshöfn, Raufarhöfn og Kópasker verða öll H 1 stöðvar þar sem verður starfandi læknir og e. t. v. hjúkrunarfræðingur. Er talið að þetta falli miklu betur að þeim aðstæðum, sem þarna eru, einkum vegna þess hve tíðarfar er þarna erfitt á vetrum og umferð öll erfið. Er því ekki talið forsvaranlegt annað en að læknir sitji jafnan á hverjum þessum stað og þeir séu sjálfstæðar einingar.

Enn fremur gerum við brtt. við 14.7.1 á þá leið, að þar verði Vopnafjörður H 1. starfssvæði Vopnafjarðarhreppur. Í öðru lagi, sem 5. liður: Bakkafjörður H, starfssvæði Skeggjastaðahreppur.

Bakkafjörður er nú mjög illa settur varðandi heilbrigðisþjónustu. Hann heyrir í rauninni undir Vopnafjörð, en er með bráðabirgðaákvæði settur undir Þórshöfn og þjónað þaðan nú að nokkru leyti a. m. k. Þótt þetta sé fámennur hreppur, þá er talið nauðsynlegt að hann fái aðstöðu til betri heilbrigðisþjónustu en nú er hægt að veita. Því er lagt til, að þar komi aðstaða til lækninga og þar geti verið starfandi hjúkrunarfræðingur.

Þá gerum við brtt. við 19. gr., og er hún aðeins á þá leið, að í stað orðsins „sjúkdómsleit“ komi: sjúkdómaleit.

Fleiri eru þær brtt. ekki sem við gerum. Okkur er ljóst að æskilegt hefði verið að koma til móts við sumar af þeim heilbrigðisstéttum, sem við okkur hafa talað og telja að þurfi að kveða nánar um starfssvið þeirra í þessu frv. En ég sé hins vegar ekki að við getum annað gert en að leggja til að nú þegar verði hafin athugun á samvinnu og valdaaðstöðu hinna ýmsu heilbrigðisstétta og að það bíði næstu endurnýjaðrar athugunar á heilbrigðislögunum hvað gera skuli í þeim málum og hvernig skuli kveða á um slík atriði.

Varðandi sérstakar brtt. sem Helgi Seljan flytur, þá verð ég að segja, að margt af því hefur verið til umfjöllunar og athugunar hjá okkur, en við höfum af ástæðum, sem ég áður hef greint nokkuð, ekki séð okkur fært að taka þau atriði inn í frv. núna. Þess vegna get ég ekki lagt til að þessar till. verð samþ. Annað mál er það, að án efa verður fljótlega að kveða nokkuð nánar á um hlut hjúkrunarfræðinga í heilsugæslunni og þeim nýju héruðum, sem nú myndast, og hef ég trú á því, að bæði ráðh. og landlæknir hafi áhuga á að þau mál verði leyst hið allra fyrsta.