03.05.1978
Efri deild: 98. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4432 í B-deild Alþingistíðinda. (3769)

240. mál, heilbrigðisþjónusta

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég hlýt að harma hve stuttur tími hefur gefist til þess að athuga mál þetta. Stjórnarsinnar gera sér að sjálfsögðu einnig ljóst að hér hefur verið allt of takmarkaður tími til að fjalla um jafnveigamikið mál. Reyndar hafa ekki komið fram fullnægjandi röksemdir fyrir því, að slík allsherjaruppstokkun, eins og í sumu hér er þó farið inn á, hefði þurft að koma til. Það hefur verið bent á það af hálfu þeirra, sem þetta mál flytja af mestu kappi, að nauðsynlegt hefði verið að gera ákveðnar breytingar, sérstaklega varðandi Suðurland, og það hefur verið sjálfsagt og ekki staðið á okkur að standa að þeim breytingum á lögum um heilbrigðisþjónustu sem þar hefðu verið nauðsynlegar. En fyrir nauðsyn allsherjaruppstokkunar á þessu, eins og þarna er í sumum greinum, þó ekki nægilega í öllum, höfum við ekki fengið neinar röksemdir. Og það kemur líka glögglega í ljós, eins og síðast núna hjá hv. frsm. n. okkar, að hann telur að í ýmsum greinum þurfi fljótlega að endurskoða þessa endurskoðun sem nú hefur farið fram. Og það er alveg rétt. Það er alveg ljóst. Þar af leiðandi er hér að miklu leyti um handahófskennt verk að ræða. Ég bendi m. a. á það, að í Nd. var fellt út eitt ákvæðanna um verkefni heilbrigðismálaráðs, og það var fellt út af einum nm. í þeirri nefnd, sem stóð að þessari endurskoðun og átti þó gerst að vita hvað væri nauðsynlegt að hafa á verkefnalista þessa heilbrigðismálaráðs og hvað ekki. En þegar þessi hv. þm. fer að starfa í þn., leggur hann til að þetta sé fellt brott! Þetta er dæmi um vinnubrögðin.

Ég skal ekki hafa um málið mörg orð, því að þær breytingar, sem hér er um að ræða, eru til bóta. Þær hafa náðst fram þó í gegnum það starf sem þarna hefur verið unnið. Og ég ásaka ekki formann n., hann er undir stífri pressu frá hæstv. ráðh. um að koma þessu í gegn hið fyrsta og ég skil vel hans starfsaðstöðu. Ég þakka sérstaklega fyrir hönd okkar Austfirðinga þann skilning sem kom fram hjá honum og reyndar ráðuneytisstjóra einnig varðandi þá uppástungu sem kom fram í n. um aðstöðu fyrir lækni á Bakkafirði. En ég held að það hafi ekki heldur verið færð nein rök gegn þeirri till. sem við flytjum hér, hv. þm. Halldór Ásgrímsson, um að Eskifjörður yrði H 2 stöð. Það hafa engin rök komið fram gegn henni, sem ég tel haldbær. Við munum að sjálfsögðu standa áfram við þá till. okkar og láta hana koma til atkv.

Brtt. frá okkur hv. þm. Stefáni Jónssyni er um að heimildin í 42. gr. verði betur tryggð með því, að heilbrmrn. sé skylt að gera áætlun um það árlega, á hvern hátt megi best nýta hana og dreifa sérfræðiþjónustunni sem mest um landið allt. Við þessu fengust ekki svör á nefndarfundi í dag hjá ráðuneytisstjóra, einfaldlega vegna tímaskorts. Það féll niður að fá svör hjá honum við því, hversu mikið þessar sérfræðiheimildir hefðu verið notaðar. Tíminn hefur sem sagt ekki verið rýmri en það, að jafnvel einföldum spurningum eins og þessari hefur ekki fengist svarað.

Ekki komu heldur fram í n. hjá okkur nein teljandi mótrök, sem ég get fallist á, gegn þeirri brtt. sem ég hef flutt hér sérstaklega og voru fluttar áður í Nd. af hv. þm. Vilborgu Harðardóttur varðandi héraðshjúkrunarfræðingana. Ég hef ekki enn þá, hvað sem menn segja um vissan stéttaríg, sem er nú nægur hjá þessum heilbrigðisstéttum að vísu, séð neitt sem mælir í móti því að fara eftir óskum Hjúkrunarfélags Íslands um þær breytingar sem það hefur farið fram á núna upp á síðkastið alveg sérstaklega, og eru aðeins orðnar þrjár. Félagið bar upp miklu fleiri breytingar, en hefur dregið þær saman og beðið um að við tækjum aðeins tillit til þriggja þeirra. Það er engin ástæða til þess að taka þetta jafnréttismál, eins og ég tel þetta mál, neitt út úr.Því hef ég leyft mér að flytja þessa till., sem er í þrem liðum og snertir í raun og veru allt það sama, að ráðh. skipi einn af starfandi heilsugæsluhjúkrunarfræðingum — svo gáfulegt orð sem það er nú orðið, en það er ekki mér að kenna, það er þeim að kenna sem semja þessi vísu frv. — sem héraðshjúkrunarfræðing til fjögurra ára í senn. Og síðan sé þetta eins í sambandi við 8. gr., þar sem sagt er að ráðh. setji héraðslæknum erindisbréf að fengnum till. landlæknis, þar setji ráðh. héraðshjúkrunarfræðingum erindisbréf að fengnum till. Hjúkrunarfélags Íslands. Hið sama gildir svo aftur varðandi 10. gr., þar sem talað er um laun heilsugæslulækna sem jafnframt eru héraðslæknar, þau fari eftir launasamningum fjmrn. og Læknafélags Íslands á hverjum tíma, þá fari um laun hjúkrunarfræðinga á heilsugæslustöðvum, sem jafnframt eru héraðshjúkrunarfræðingar, eftir launasamningi fjmrh. og Hjúkrunarfélags Íslands á hverjum tíma.

Ég neita því ekki, að vafalaust er einhver stéttarmetnaður hér á bak við. Vafalaust mætti fara lengra niður í sambandi við heilbrigðisstéttirnar til þess að veita þeim aukinn rétt og aukna aðild, þannig að læknaeinveldið, sem hefur ríkt í heilbrigðismálum okkar, væri nokkuð skert, því að það hygg ég að mætti gera alveg að skaðlausu. En brtt. þessar eru það meinlausar, að ég held að meira að segja læknar ættu að geta samþykkt þær.