05.05.1978
Sameinað þing: 74. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4444 í B-deild Alþingistíðinda. (3798)

296. mál, notkun raforku í atvinnufyrirtækjum

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Með till. þessari er hreyft við allmerkilegu máli að mínum dómi, því að vissulega væri það þýðingarmikið ef hægt væri að auka notkun á raforku verulega frá því sem nú er í sambandi við rekstur ýmiss konar verksmiðja sem við rekum nú í dag og þar sem notuð er svo að segja eingöngu olía í sambandi við reksturinn. En ég held að þegar á þetta mál er minnst verði ekki hjá því komist að vekja athygli á því ástandi sem er í dag í þessum efnum. Nú er það ekki aðeins að ýmiss konar stærri iðnfyrirtæki og ýmsar verksmiðjur kaupi talsvert af raforku sem þeim er í rauninni alveg óhjákvæmileg í sambandi við sinn rekstur til þess að knýja alls konar smærri vélar, þó að meginaflið sé fengið úr olíukyndingu. En raforkuverðið er svo óhagstætt, að mér er kunnugt um að margir þeir aðilar, sem hér eiga hlut að máli, hafa verið að sækja um leyfi til þess að fá að setja upp eigin aflstöðvar, dísilstöðvar, alveg sérstaklega í sambandi við rekstur síldarverksmiðja og loðnuverksmiðja og stærri frystihúsa, til þess að losna undan þeim gífurlega óhagstæðu verðtöxtum sem þeir búa við í dag. Forstöðumaður eins slíks fyrirtækis sagði mér nú nýlega, — þar er að vísu um nokkuð stórt fyrirtæki að ræða, — að hann hefði þurft á s. l. ári að greiða fyrir raforku 20 millj. kr. hærri fjárhæð en hann hefði þurft að greiða fyrir raforkuna ef fyrirtæki hans hefði verið hér í Reykjavík. Þetta er aðeins dæmi um það, hvernig þessir rafmagnstaxtar eru frá þessari stóru og miklu stofnun, Rafmagnsveitum ríkisins, sem þjónar landsbyggðinni að langmestu leyti. Það er auðvitað alveg tómt mál að tala um það að ætla að taka upp enn þá frekari raforkunotkun í stað olíunotkunar í sambandi við rekstur stærri verksmiðja ef þeirri stefnu á að halda áfram sem nú er í verðlagningu á raforku.

Í beinu framhaldi af þessu vil ég nota tækifærið, sumpart til þess að spara hér tíma og af því að mér finnst að það sé beinlínis tengt við það mál sem hér er á dagskrá, þá vil ég leyfa mér að leggja hér fyrir hæstv. forsrh. nokkrar fsp. í beinu framhaldi af því sem um hefur verið rætt hér á Alþ. áður um þessi sömu mál, af því að hér er að sjálfsögðu komið að rafmagnssölumálunum í landinu. En ég veit að þingtíminn er orðinn knappur og ég skal því ekki taka hér upp mjög almennar umr. um þessi mál, þó að fyllilega hefði verið ástæða til þess í framhaldi af þeim umr. sem hér hafa orðið, en vil halda mér fyrst og fremst við tilteknar fsp. sem hægt ætti að vera að svara hér í stuttu máli, en skipta þetta mál. Fyrsta spurning mín er þá til hæstv. forsrh. á þessa leið: Hefur ríkisstj. breytt fyrri ákvörðun sinni um hækkun á húsahitunartaxta Rafmagnsveitna ríkisins? Hér voru gefnar upplýsingar um það, að ríkisstj. hefði til þess að reyna að ráða bót á fjárhagsvanda þess fyrirtækis gripið til þess ráðs að hækka verulega húshitunartaxtann hjá fyrirtækinu. Síðar kom í ljós einnig hér í umr. að þetta væri mjög hæpin ákvörðun sem væri komin á nýjan leik til ríkisstj. til endurskoðunar. Ég spyr því: Hefur þessari ákvörðun ríkisstj. um hækkun á húsahitunartaxtanum verið breytt, og hafi honum verið breytt, hvernig var honum þá breytt með ákvörðun ríkisstj.?

Ég spyr í öðru lagi: Hefur ríkisstj. gert ráðstafanir til þess að leysa úr fjárhagsvandamálum Rafmagnsveitna ríkisins? Hér hafði verið mikið rætt um það mál. Ég skal ekki fara að hefja hér upp almennar umr. um það, en ég vil fá svar við því nú áður en þingi er slitið: Hefur ríkisstj. gert tilteknar ráðstafanir til þess að leysa úr fjárhagsvandamálum Rafmagnsveitna ríkisins, og hvaða ráðstafanir hefur hún gert? Þá vil ég einnig bæta þeirri fsp. við, sem er í beinu framhaldi af þessu og varðar alveg sérstaklega okkur á Austurlandi: Hefur ríkisstj. tekið ákvörðun um byggingarframkvæmdir við Bessastaðaárvirkjun á Austurlandi? Það hefur verið upplýst áður, að þetta mál var lagt fyrir ríkisstj. strax í desembermánuði og nú er komið fram í maímánuð, og það er auðvitað aðkallandi að ákvörðun sé tekin í málinu. Það er algerlega út í hött að afgreiða þetta mál með því, að enn þá sé verið að hanna þessar framkvæmdir. Það er fyrir löngu komið fram yfir það stig sem almennt er miðað við þegar ákvarðanir er teknar um virkjanir. Hér stendur því á ákvörðun.

Þessar fsp. mínar standa í beinu sambandi við þá till., sem hér er um að ræða, þ. e. a. s. að gera athugun á því, hvaða möguleikar séu á því að selja meiri raforku en nú er gert til atvinnurekstrar. Það er auðvitað algerlega tómt mál að tala um þetta víða á landinu eins og ástatt er í raforkumálum og með bakhjarlinn eins og hann er hjá Rafmagnsveitum ríkisins — algerlega tómt mál að tala um að auka við raforkusölu nema til allra brýnustu þarfa, ef ekki er tekið á þessum vandamálum, sem eru fjárhagsvandamál Rafmagnsveitna ríkisins og möguleikar þess fyrirtækis til þess að selja einhverja raforku. Því hef ég nú leyft mér að koma fram með þessar fsp. Ég hafði hugsað mér að leita eftir svari við þessum fsp. áður en þingi lyki, og mér finnst það vera fullkomlega eðlilegt að gera það í sambandi við þessa tillögu.

Að öðru leyti vil ég segja það um till., að ég er henni samþykkur út af fyrir sig. Ég tel að hér sé verkefni sem eigi að athuga. En hitt er vitanlega alveg út í hött, að ætla að fara að gefa út enn eina viðbótarskýrsluna í þykkri bók, eins og við erum alltaf að fá um alls konar athuganir, þegar athuganirnar eru á þeim grundvelli að það er útilokað með öllu að þær geri nokkurt einasta gagn, nema þá það litla gagn að hægt er að fela einhverjum tilteknum mönnum að setjast niður og fá nokkurra mánaða laun eða árslaun, eins og mörg dæmi eru til um, til þess að athuga eitthvað og senda þm. bók um málið. Ástandið í raforkumálunum er svo alvarlegt, einkum og sérstaklega hjá landsbyggðinni og í verðlagningarmálunum, að það þarf að taka á þessum málum ef nokkuð á frekar að gera á þessum vettvangi.

Ég vil vænta þess, að hæstv. forsrh, telji sér fært að svara þessum beinu fsp. mínum og það sé þannig hægt að afgreiða þennan hluta málsins án þess að í það þurfi að fara allt of langar umr. Ég geri mér auðvitað ljóst, að hér er um slíkt stórmál að ræða að það væri svo sem ekkert óeðlilegt að það yrðu um þetta mál nokkrar umr.