17.10.1977
Sameinað þing: 4. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 44 í B-deild Alþingistíðinda. (38)

Umræður utan dagskrár

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Út af því., sem hv. 5. þm. Norðurl. v. gat um áðan að væri eitt það mál sem hefði verið hvað erfiðast í þessum samningum og mest strandaði á, og þeim útskýringum, sem hann var hér með í sambandi við þá löggjöf sem sett var langar mig til þess að lesa hér upp úr blaðinu Ásgarði, sem er blað Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, 1. tbl., í apríl 1976, þar sem vikið er að þeim samningum, sem fram höfðu farið á milli BSRB og ríkisins, og málalyktum sem þar urðu, með leyfi forseta:

„Vilji kom fram hjá fulltrúum ríkisins að endurskoða mætti launaliði samningsins tvisvar á samningstímabili, eftir að forsendur lægju fyrir að launþegar á frjálsum vinnumarkaði fengju launahækkun. Verkfallsréttur gilti ekki við slíka endurskoðun á samningstímabili, heldur skyldi gerðardómur skera úr ágreiningi. Miklar viðræður höfðu farið fram á milli fulltrúa BSRB og ríkisins um þessi þýðingarmiklu atriði í væntanlegri löggjöf, og var því nú lýst yfir, að sú afstaða ríkisins, er að framan greinir, væri ófrávíkjanleg. Ef verkfallsréttarmálið átti að nást fram með samningum varð því að finna lausn á þessu stóra ágreiningsatriði. Eftir miklar umræður á sameiginlegum fundi stjórnar samninganefndar og verkfallsnefndar BSRB var svofelld till. samþ. með 44 shlj. atkv.: Fundurinn samþykkir með hliðsjón af aðstæðum í samningaviðræðum að ganga inn á tveggja ára samningstímabil með uppsagnarrétti miðað við 1. júlí 1977 með verkfallsrétti þá.“

Hér er alveg skýrt tekið fram, hvernig þessi mál gengu fyrir sig. Það var gert ráð fyrir því, að um væri að ræða verkfallsrétt við gerð aðalkjarasamnings og ekki annað. Hins vegar hefur ekki af hálfu samninganefndar ríkisins verið talið eðlilegt að gera annað en að í þennan samning kæmi bókun eða ákvæði í sambandi við breytingar á vísitölu, ef til kæmu, og í þessu tilboði ríkisstj. eða samninganefndar ríkisins var eftirfarandi ákvæði, með leyfi forseta:

„Verði gerðar breytingar á vísitölureglum almennra kjarasamninga í landinu á gildistíma þessa samnings með lögum, skulu samningsaðilar taka upp viðræður í því skyni að tryggja þann tilgang ákvæða samningsins um verðbætur á lið 1.3.3., að þær verði eigi lakari en hjá öðrum fjölmennum launþegasamtökum í landinu.“

Ég get ekki séð annað en með þessu ákvæði sé eins skýrt komið til móts við þá aðila, sem við erum að semja við, og mögulegt er. Og við skulum vona að það náist samkomulag og þar verði þessum aðilum tryggt það sem hér er um að ræða. Ég vildi leyfa hv. þm. að heyra úr málgagni Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, hvernig þeir litu á þessi mál þegar samningar voru gerðir.