05.05.1978
Sameinað þing: 74. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4449 í B-deild Alþingistíðinda. (3805)

296. mál, notkun raforku í atvinnufyrirtækjum

Flm. (Ólafur B. Óskarsson):

Herra forseti. Þetta er aðeins örstutt út af því sem fram hefur komið hér í umr. Sérstaklega var það hv. 2. þm. Austurl. sem gerði sér tíðrætt um málið og fór út í nokkuð aðra sálma í tilefni af þessu. Nú fannst mér málflutningur hans nokkuð reikull, þar sem hann nefndi í öðru orðinu að raforkusalan væri svo óhagstæð núna, að það væri tómt mál að tala um að auka hana, í hinu orðinu heimtaði hann afdráttarlaust virkjun á Austurlandi sem væntanlega eftir þessum kokkabókum getur enga raforku selt, ef ekki er markaður fyrir hana.

En ég verð að segja það, að ekki er sama hvernig raforkuver og dreifikerfi eru nýtt, og það hefur áhrif á raforkuverðið. Sú athugun, sem ég geri hér ráð fyrir, stefnir að því að samræma alla þá þætti sem gætu orðið til lækkunar orkuverðs: aukna nýtingu beinnar orku, aukna nýtingu afgangsorku og í þriðja lagi hagkvæma staðsetningu fyrirtækja. Og ég leyfi mér að staðhæfa að það séu möguleikar á því með góðri nýtingu að lækka raforkuverð frá því sem nú er, og að því ber að vinna. Það breyti engu þar um, þó að hv. 2. þm. Austurl. komi hér upp og snúist hringinn í kringum sjálfan sig í sambandi við málið. Mér þykir náttúrlega slæmt þegar menn eldast illa, en við því verður ekki gert.