05.05.1978
Sameinað þing: 74. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4450 í B-deild Alþingistíðinda. (3808)

68. mál, öryggisbúnaður smábáta

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Ég vil segja það um afgreiðslu hv. allshn., að hún hefur valdið mér nokkrum vonbrigðum að því leyti, að sú breyting, sem n. gerir ráð fyrir, mun að öllu óbreyttu tefja málið a. m. k. um eitt ár. Það er rétt, að lagaheimildir skortir til þess að gera báta undir 6 metrum skoðunarskylda og fella þá undir starfsemi Siglingamálastofnunar ríkisins. En það var alls ekki meining mín með þessari till., að það yrði gert, heldur hitt, að settar væru einfaldar reglur, staðfestar af hæstv. ráðh., sem gæfu möguleika Slysavarnafélagi Íslands og öðrum þeim aðilum sem vilja vinna að eftirliti með þessum bátum og freista þess að koma í veg fyrir slysatilvik, sem mörg hafa orðið orðið á undanförnum árum, með ódýrum hætti og á þann veg að reyna að laða saman samstarf margra aðila til þess að vinna að slíku eftirliti og koma í framkvæmd slíku eftirliti án þess að það hefði óhóflegan kostnað í för með sér. Sé þetta gert af tilekinni opinberri stofnun þykir mér ákaflega mikil hætta á því að af því mundi leiða kostnað sem gerði allt slíkt eftirlit óvirkt. Ég tel þess vegna að afgreiðsla hv. n. sé síst til bóta.

Síðan afgreiðsla n. varð kunn hefur Slysavarnaþing fjallað um málið og sent til formanns hv. allshn. bréf þess efnis, að óska eftir því, að till. verði samþykkt óbreytt. Því miður hef ég ekki getað fundið þetta bréf nú, því að það mun verða í fórum hv. formanns n. sem sennilega er ekki á landinu þessa stundina, en undir þetta bréf skrifaði fjöldi þingfulltrúa og málið hafði einróma stuðning alls Slysavarnaþingsins.

Nú skal ég ekki mæla gegn því, að till. verði þó afgreidd í því formi sem n. leggur til, að því tilskildu að hæstv. samgrh., ef hann treystir sér til að gefa um það yfirlýsingu, muni þrátt fyrir þessa afgreiðslu láta kanna og það í skyndi, eins og till. mín gerir ráð fyrir, hvort ekki sé unnt að setja um það reglur, að eftirlit og öryggisbúnaði smábáta verði komið í það horf sem till. gerir ráð fyrir. Ég tel að hér sé ekki um mál að ræða sem hefði átt að þurfa að vefjast fyrir hv. n. eða hv. Alþ. yfirleitt. Hér er um öryggismál að ræða sem er brýnt, og við vitum að það hafa orðið hörmuleg slys á þessum bátum á undanförnum árum, eða um það bil fjögur slys á ári að meðaltali í mörg ár, og fram undan er sú árstíð að vænta má að eitthvað slíkt geti endurtekið sig ef ekki er brugðið við og reynt að bæta úr þeim ágöllum sem hægt er. Þess vegna vil ég ítreka beiðni mína til hæstv. ráðh., að hann kanni það og gefi helst um það yfirlýsingu hér, hvort ekki sé unnt að bregða þegar við og setja reglur um þá litlu báta, sem þessi till. fjallar fyrst og fremst um, og það strax.