05.05.1978
Sameinað þing: 74. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4451 í B-deild Alþingistíðinda. (3809)

68. mál, öryggisbúnaður smábáta

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs við umr. um þessa till. hv. þm. Pálma Jónssonar á sínum tíma og lét í ljós þá skoðun mína, að hér væri um nauðsynjamál að ræða. Ég er enn þá þeirrar skoðunar. Ég sætti mig alls ekki fremur en hann við afgreiðslu n. á þessu máli. Ég er persónulega þeirrar skoðunar, að algerlega hafi verið óþarft að hlíta í þessu tilfelli áliti Siglingamálastofnunarinnar. Hér hef ég grun um að sú ágæta stofnun seilist til máls sem raunar eigi ekki undir hana að heyra. Svo vill gjarnan fara um stofnanir lýðveldisins ýmsar, að það er eins og séra Parkinson heitinn gerist þar að meira eða minna leyti yfirstjórnandi.

Ég veit að þeir slysavarnamenn studdu þessa till. eindregið. Ég veit einnig að þeir menn, sem gerst þekkja til þeirra slysa sem orðið hafa á smábátum hjá okkur hin síðari árin og þá aðallega á fjallavötnunum okkar, eru þeirrar skoðunar, að með tiltölulega litlum kostnaði sé hægt að draga stórlega úr slysahættunni og að til þess þurfi raunar ekki lagasetningu.

Ég vil alls ekki segja neitt niðrandi um starf siglingamálastjóra eða málefni stofnunar hans. En í þessu tilfelli hefði ég talið betur að þeir sættu sig við um sinn að fjalla um þá farkosti sem notaðir eru utan hinna innri marka landhelginnar okkar, en að við fengjum að neyta ágætra starfskrafta þeirra slysavarnamanna í því sem lýtur að öryggi á vatnabátunum okkar.

Það er rétt sem hv. þm. Pálmi Jónsson sagði: Þessi afgreiðsla málsins hér á hv. Alþ. mundi leiða til þess að það drægist a. m. k. í ár að eitthvað yrði gert í málinu. Ég fæ með engu móti séð með hvaða hætti neitt illt gæti af því stafað, að við samþykktum þessa till. óbreytta. Ég sé ekki með hvaða hætti sú afgreiðsla gæti orðið til tjóns. Aftur á móti kynni það samkv. meðaltalinu, sem hv. þm. Pálmi Jónsson nefndi áðan og ég veit að er rétt, að eiga nokkra sök á fjórum banaslysum til viðbótar af þessu tagi ef málið yrði dregið.

Ég hef ekki heyrt nein marktæk andmæli gegn þessari till. Ég veit að hv. flm. grundaði þessa till. á álitri margra mætra manna sem kunnugir eru einmitt slysum sem hér hafa orðið með þessum hætti á þessum litlu fleytum, sem sumar hverjar hafa reynst manndrápsbollar. Ég veit að hann grundaði þessa till. á áliti margra mætra manna sem þessum málum eru mjög kunnugir. Ég hef ekki heyrt nein rökstudd andmæli gegn þessari till. Ég hef ekki heyrt eina einustu vísbendingu um það, að þessum málum væri verr komið með því að samþykkja till. Ég veit og ég hygg að þeim hv. þm., sem hafa kynnt sér þessa till. og hugleitt þetta mál, er það ljóst, að að flestu leyti, þrátt fyrir skort á lagaákvæðum, væri málunum betur komið með því að við samþykktum þessa till, óbreytta, og ég legg eindregið til að till. verði samþykkt.