05.05.1978
Sameinað þing: 74. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4452 í B-deild Alþingistíðinda. (3811)

68. mál, öryggisbúnaður smábáta

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég fagna þeirri yfirlýsingu sem hæstv. ráðh. hefur gefið út af þessu máli, sem mér finnst nú að hafi verið kannske að einhverju leyti misskilið af hálfu okkar sem að þessari afgreiðslu höfum staðið frá hv. allshn. Það var einmitt þetta, sem hæstv. ráðh. sagði hér núna, sem lá fyrir n., að það væri svo til tilbúin í rn. reglugerð um þessi atriði, og þess vegna töldum við óþarft að Alþ. væri að álykta um það atriði sérstaklega. Þó hefði það að sjálfsögðu getað verið í tillgr., ég skal játa það. En við litum svo á, að n. væri með þessari afgreiðslu að taka undir það líka að sjálfsögðu, að reglugerðin yrði samin. En með því að breyta þessu þannig vildum við leggja áherslu á að eitt skorti til þess að framfylgja reglugerðinni. Það var t. d. hér á árum áður, þegar tilkynningarskyldunni var komið á, að þá var henni komið á með reglugerð sem ekki átti stoð í lögum, og ef menn kusu að hundsa þessa reglugerð, þá var ekkert hægt við því að segja. Hún studdist ekki við lög. Og við í hv. allshn. erum með þessari brtt. okkar að benda á að það þurfi að setja löggjöf til þess að styðja þessa reglugerð í framkvæmd og erum jafnframt að benda á hversu mikið nauðsynjamál þetta sé í heild sinni.

Ég hygg að það hafi komið skýrt fram hjá hæstv. ráðh., að þessi reglugerð verði sett og þessi afgreiðsla n. tefji ekki á neinn hátt setningu reglugerðarinnar, enda alls ekki meining n. En aftur á móti mundi samþykkt þessarar till. þýða það, að löggjöf til þess að þessi reglugerð hvíldi á lagaheimild yrði flýtt.