05.05.1978
Sameinað þing: 74. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4456 í B-deild Alþingistíðinda. (3822)

295. mál, skipan nefndar til að gera tillögur um breytingar á stjórnarskrá

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Síðast þegar þetta

mál var hér á dagskrá urðu um það nokkrar umr. M. a. töluðu hér bæði hæstv. forsrh. og hæstv. dómsmrh. Ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs, var sú, að þeir allshn.-menn, sem að þessari till. standa, töluðu hér í þeim dúr, að á engan hátt væri hér verið að veitast að stjórnarskrárnefnd núverandi eða formanni hennar, og sömuleiðis kom fram í máli hæstv. forsrh., sem talaði hér fyrr við þessa umr., að það hefði ekki komið fram áhugi af hálfu stjórnarandstöðuflokkanna hér á Alþ. um að neitt yrði gert í þessu máli á þessu þingi.

Ég vil aðeins vekja athygli hv. þm. á því, að í grg. með þessari till. allshn. stendur orðrétt, með leyfi forseta: „Í upphafi þings lýsti ríkisstj. yfir þeim vilja sínum að efna til viðræðna þingflokka um ofangreind mál. Einhverjar viðræður munu hafa farið fram, en þær hafa engan árangur borið, m. a. vegna þess að stjórnarskrárnefnd hefur engum tillögum skilað og virðist að mestu leyti óstarfhæf.“

Það eina, sem er tilgreint hér að ástæðu til fyrir því, að ekkert hefur orðið úr þessu máli á þessu þingi, er það, að stjskrn. hafi engum till. skilað. Nú muna hv. þm. það, að á fyrstu dögum þings í haust urðu hér nokkrar umr. og í þeim umr. var einmitt gerður að umtalsefni sjónvarpsþáttur sem þá hafði farið fram, þar sem formenn flokkanna skeggræddu þessi mál m. a., og í þessum umr. virtist ekki annað koma fram í orðum þeirra en eindreginn vilji væri fyrir því að á þessu þingi yrði gerð breyting á kosningalögum. Nú fór það svo um þennan blessaða þátt, að sú spóla, sem hann var á, mun hafa týnst inni í sjónvarpi, og mér er ekki um það kunnugt, en þó getur það verið þrátt fyrir það, að hún hafi fundist enn. Einhver hv. þm. mun hafa tekið þetta beint upp og hefur því verið svo forsjáll, að hægt er að fá um það upplýsingar, hvaða afstöðu þessir einstaklingar, formenn flokkanna, höfðu í þessum þætti. En það var alveg augljóst af ummælum þeirra, að þeir töldu ástæðu til þess að breyta kosningalögum og það yrði gert á þessu þingi. Og eins og hér hefur verið vitnað til áður lýsti hæstv. forsrh. því yfir í upphafi þings í haust, að það mundi verða óskað eftir því, að þingflokkar tilnefndu menn til umr. um þetta mál. Og hæstv. forsrh. upplýsti það fyrr við þessa umr., að fulltrúar af hálfu stjórnarflokkanna hefðu verið tilnefndir, og ekki dreg ég það í efa. En fundur til þess að ræða þessi mál var fyrst boðaður mér vitanlega í aprílmánuði. Ég man ekki nákvæmlega dagsetningu, en líklega mun það hafa verið fyrri hluta aprílmánaðar, þ. e. a. s. þegar komið var fram í þann mánuð sem gert var ráð fyrir að þingslit ættu sér stað og það var alveg augljóst að ekkert yrði gert í málinu. En það væri gaman að forvitnast um það, fá um það vitneskju hjá hæstv. forsrh., hvenær t. d. Sjálfstfl., þingflokkur Sjálfstfl., hafi kosið sinn fulltrúa, sem þá hefði átt að hafa frumkvæði að því að kalla slíka n. saman og reyndar gerði það þegar það var gert.

Mér heyrðist á ræðu hæstv. forsrh. að hann vildi í og með skella þeirri skuld á stjórnarandstöðuflokkana hér á Alþ., að ekkert hefði gerst í þessu máli, þeir hefðu ekki sýnt áhuga á því að ýta á eftir málinu hér á þingi. Ég held að þetta sé rangt hjá hæstv. ráðh. Það var augljóst mál og gefið loforð af hans hálfu strax í upphafi þings, að ríkisstj. mundi beita sér fyrir því, að slík n. yrði skipuð eða tilnefnd af þingflokkum og hún mundi hafa frumkvæði að því, að málið yrði tekið til umr. Það er því við stjórnarflokkana hér á Alþ. fyrst og fremst að sakast, að ekkert hefur gerst í þessu máli. Og mér finnst ástæðulaust af þeim allshn.-mönnum, eins og fram kemur í grg. með þessari þáltill., að fyrst og fremst og sú eina ástæða, sem þeir telja fyrir því að ekkert hefur gerst á þessu þingi, sé sú, að stjskrn. hafi engum till. skilað og hún sé óstarfhæf. Ég held, eins og ég hef raunar áður tekið fram, að það sé ekki við þá n. að sakast um það, að ekkert hefur gerst á þessu þingi varðandi breytingar á kosningalögunum, heldur er þar fyrst og fremst um að ræða áhugaleysi stjórnarflokkanna og forustumanna þeirra, þrátt fyrir þær yfirlýsingar sem voru gefnar strax í þingbyrjun í haust.

Ég vil sem sagt láta það koma fram, hef raunar gert það áður, að mér finnst að allshn. hafi með því, sem hún hefur látið frá sér fara í grg. með þessari þáltill., verið að átelja eða sakfella stjskrn. fyrir það, að engar breytingar hafi komið til umr. á þessu þingi varðandi breytingu á kosningalögum. Ég er annarrar skoðunar. Ég tel að þar sé ekki við stjskrn. að sakast. Þessar breytingar á kosningalögum hefði verið hægt að gera hér á Alþ. hefði verið vilji eða áhugi fyrir því, burt séð frá því, hvað starfi stjskrn. leið. Ég vil því vísa á bug aðdróttunum um það, að stjskrn. sé fyrst og fremst sá þrándur í götu og sökudólgur fyrir því að ekkert hafi gerst í breytingum varðandi þessi mál nú á þessu þingi. Og sérstaklega vil ég þó vísa á bug þeim áróðri, sem mikið hefur verið uppi hafður, og sakfellingu á formann stjskrn., sem ég tel að hafi verið að ástæðulausu sakfelldur um vanrækslu í störfum til þess að fara að tala um það hér sérstaklega nú, þegar menn eru að tala um að vera röskir í störfum, þá höfum við því miður mörg dæmi hér innanþings um það, að nefndarformenn margir hverjir hafa ekki sýnt af sér þá hreysti eða þann dugnað að þeim sé í raun og veru fært að kasta steini að öðrum í þeim efnum. Mörg dæmi þess, að nefndarformenn hér á Alþ. hafi ekki staðið vel í stöðu sinni, eru finnanleg og hægt að benda á þau, en ástæðulaust að gera það á þessu stigi. En ég vildi sem sagt að þetta kæmi fram við umr., en skal ekki hafa þessi orð fleiri að sinni.