05.05.1978
Sameinað þing: 74. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4457 í B-deild Alþingistíðinda. (3823)

295. mál, skipan nefndar til að gera tillögur um breytingar á stjórnarskrá

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að ítreka það sem ég sagði fyrr í umr. um þessa till. eða rifja upp deilur, hverjum sé að kenna að breytingar á kosningalögunum hafa ekki verið gerðar á þessu þingi eða till. hafa ekki komið fram frá stjskrn. um breytingar á tilhögun kosninga til Alþingis. Mér finnst meira máli skipta, úr því sem komið er, að við náum samstöðu um það, hvernig haga skuli vinnubrögðum framvegis, svo að úr þessu megi verða bætt sem við erum sammála um að nauðsyn sé á.

Eins og getið var um í þessum umr. fyrir nokkrum dögum var haft samráð milli formanna stjórnmálaflokka, sem fulltrúa eiga á Alþ., og formanna þingflokka á Alþ. um hvernig réttast væri að afgreiða till. þá frá allshn. sem um getur á þskj. 641. Hefur niðurstaðan orðið sú, að formenn stjórnmálaflokkanna í samráði við formenn þingflokkanna og formann allshn. hafa borið fram brtt. á þskj. 892 sem ég treysti að allir þm. hafi í höndum. Þar eru þær breytingar gerðar á till. allshn., að gerð er grein fyrir því, hver ástæða sé til þess að á ný sé tilnefnt í stjskrn. Enn fremur er gert ráð fyrir því, að tilnefning í stjskrn. fari ekki fram fyrr en að loknum kosningum til Alþingis. Þá er og gert ráð fyrir því, að tala fulltrúa stjórnmálaflokka í stjskrn. verði í hlutfalli við þingmannatölu þeirra. Í sambandi við það skal ég láta koma fram, að það er skoðun flm., að æskilegt sé að allir flokkar, sem fulltrúa eiga á þingi að loknum kosningum, hafi aðild að starfi stjskrn., og leitast mun verða við að ná samkomulagi um það. Það ætti einnig að auka líkurnar á því, að í stjskrn. er fjölgað um 2, úr 7 mönnum í 9 menn, samkv. þessari brtt. Að vísu eru menn nú e. t. v. ekki á eitt sáttir um hvort það auki líkurnar á fljótri afgreiðslu frá n. að fjölga í henni, en æskilegt er þó að í slíkri n. komi fram sem flest sjónarmið.

Þá er og talinn of skammur tími að ætla stjskrn. að skila till. sínum svo fljótt að unnt sé að leggja þær fyrir næsta þing. Hins vegar sett að hámarki til tveggja ára starfstími n., eins og greinir frá í brtt. Ég vonast til að það samkomulag, sem brtt. byggist á, verði staðfest af hv. þm.