05.05.1978
Sameinað þing: 74. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4460 í B-deild Alþingistíðinda. (3827)

180. mál, atvinnuleg og félagsleg afstaða byggðarlaganna í nágrenni Keflavíkurflugvallar

Karl G. Sigurbergsson:

Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða, þó að lítill tími virðist vera orðinn hér til að ljúka málum, að taka aðeins til máls varðandi þá þáltill. sem hér er flutt.

Í grg. með þessari till. kemur fram, að flm., hv. 2. þm. Reykn., lítur svo á, að hugsanlegt sé að nálægð Keflavíkurflugvallar hafi jafnvel haft neikvæð áhrif á atvinnulíf á Suðurnesjum og á þann veg, að ekki hafi verið vegna tilvistar flugvallarins brugðist við sem skyldi þegar aðsteðjandi og tímabundna erfiðleika væri við að etja í atvinnumálum byggðarlaganna þar um slóðir. Ég vil nú, eins og ég segi, nota tækifærið og ekki einungis taka undir þetta sjónarmið sem fram kemur í grg. frá hv. flm., heldur leggja áherslu á að tilvist hersins og herstöðvarinnar með tilheyrandi umsvifum hefur í ríkum mæli haft ill áhrif á félagslega þætti og allt atvinnulíf byggðarlaganna á Suðurnesjum og mun koma til með að hafa það áfram meðan herinn dvelur á heiðinni.

Um þetta mál væri hægt að hafa mörg orð og ræða á margvíslegan hátt, en ég skal ekki eyða tíma þingsins í það. Það væri hægt að vísa til ummæla margra þekktra og merkra manna, bæði í atvinnulífi og á öðrum sviðum suður á Reykjanesi og hingað og þangað um landið, sem hafa viljað kynna sér þessi mál

Það liggur alveg ljóst fyrir meginþorra þeirra sem búa í nálægð flugvallarins, hvað hefur verið á ferðinni. Það hefur legið ljóst fyrir öllum Alþb.-mönnum frá því að herinn kom til landsins, hvílík aðstaða manna er að búa við það ástand sem í kringum völlinn er á öllum sviðum. Það væri hægt, eins og ég segi, að styðja það með mörgum rökum, en ég skal ekki fara út í það.

Atvinnuástandið, eins og því er nú háttað á Suðurnesjum, er á þann veg, að því er vart lýsandi í fáum orðum, nema þá helst þannig, að nú standa ráðamenn, sem raunverulega ættu að koma þarna og hlaupa undir bagga og gera einhverjar úrbætur, eins og gaurar í grýtu og þykjast ekkert skilja hvernig á þessu standi, halda að það sé eingöngu um aflabrest að ræða. Það hefur gerst fyrr á Íslandi að aflabrestur yrði í einstökum byggðarlögum. Við því hefur verið brugðist á mannlegan og eðlilegan hátt venjulegast. En þarna á Suðurnesjum, verð ég að segja, hefur það ekki verið gert, vegna þess að menn hafa haldið að sér höndum, eins og kom fram í framsöguræðu hv. flm., í þeirri von að Völlurinn og sú starfsemi, sem þar er, bjargaði öllu við.

Ég vil nota tækifærið og lýsa yfir því, að ég get fyrir mitt leyti stutt þessa till., þó að ég sé hins vegar alveg fullviss um það, að hún er algerlega óþörf. Hún er óþörf í því tilliti, að það blasir við hverjum manni, að það þarf ekki að gera þarna neina könnun, ástandið er svo augljóst. En ef hv. flm. og aðrir fleiri efast um það enn, að ástandið sé alvarlegt, þá skal ég fyrir mitt leyti fallast á, að þessi till. verði samþ. og nái fram að ganga, ef það mætti verða til þess að opna augu fleiri manna fyrir því ófremdarástandi sem ríkir í þessum efnum, sérstaklega í nágrenni flugvallarins og vegna veru hersins þarna suður á nesjum. Þó er ég ekki í nokkrum vafa um að þetta hefur áhrif víðar en í næstu byggðarlögum.

Ég skal ekki hafa mörg fleiri orð hér um. Mig langar aðeins til að varpa fram einni spurningu til hv. flm. Ef þannig færi nú, að þingheimur samþykkti þessa till. og hæstv. ríkisstj. fæli Framkvæmdastofnuninni eða einhverri stofnun að gera þá könnun sem þarna er talað um og ef niðurstaðan yrði á þann veg sem ég efast ekkert um að hún verði, hún verði á þann veg að það sé mjög neikvætt og í alla staði neikvætt að hafa herinn þarna staðsettan, vill þá hv. flm. fyrir sitt leyti binda það fastmælum, að hann muni þá beita sér fyrir því, að herinn verði látinn fara, eftir því sem honum verði mögulegt?