05.05.1978
Sameinað þing: 74. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4462 í B-deild Alþingistíðinda. (3829)

180. mál, atvinnuleg og félagsleg afstaða byggðarlaganna í nágrenni Keflavíkurflugvallar

Flm. (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Ég vil þakka góðar undirtektir þeirra, sem talað hafa, við umr. um till. mína.

En varðandi beina fsp. hv. 3. þm. Reykn., þá vil ég nú svara því, að ekki treysti ég mér til þess að gefa honum vonir um það, að ég muni styðja hann í því að herstöðinni á Keflavíkurflugvelli verði lokað. Hins vegar geri ég mér grein fyrir því, að félagslegir örðugleikar geta skapast við búsetu í nálægð herstöðvar, og þá er að leita eftir leiðum til að lagfæra það ástand, og það held ég að sé mögulegt. En mér finnst, enda þótt við höfum um þetta bæði reynslu og rannsóknir, að það vanti enn þá heildarúttekt á aðstöðu þessara byggðarlaga þarna, bæði á þessu sviði og ýmsum öðrum, og því sé ástæða til að þetta sé athugað frekar og heildarúttekt fari fram.