05.05.1978
Efri deild: 99. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4466 í B-deild Alþingistíðinda. (3842)

124. mál, umferðarlög

Frsm. (Ingi Tryggvason):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir hv. d. til afgreiðslu, er um breytingu á umferðarlögum frá 20. apríl 1968. Allshn. athugaði frv. og hafði samband við dómsmrn. um orðalag þess. Niðurstaðan af þessum athugunum varð sú að leggja til að breyta nokkuð orðalagi. Breytingin er einkum í því fólgin, að gert er ráð fyrir því í till. eins og hún er nú, að dómsmrh. geti veitt leyfi til keppni í ökuhraða, keppni sem felur í sér meiri hraða en almennt er leyfður á vegum úti. Eins og orðalag var áður á greininni varð ekki séð, þó gert væri ráð fyrir að dómsmrh. mætti leyfa hraðári akstur en þann sem lögleyfður er á vegum landsins, að það hefði neina stoð í lögum annars staðar, að hann gæti veitt slíkt leyfi. Með þessu breytta orðalagi á að vera þannig frá gengið, að það sé augljóst að ráðh. hefur heimild til þess að veita slíkt leyfi.

Ég ætla ekki að orðlengja um þetta frekar. Tilgangurinn með þessari breytingu er sá, að svokallaðar akstursíþróttir eða aksturskeppni fari ekki fram án þess að rétt yfirvöld hafi þar eftirlit með og stefnt er að meira aðhaldi með slíkri keppni en verið hefur.