05.05.1978
Efri deild: 100. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4476 í B-deild Alþingistíðinda. (3859)

282. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jón G. Sólnes:

Herra forseti. Ég hef ekki í hyggju að lengja mikið umr. um frv. það sem hér er til meðferðar. Í fyrsta lagi er að fá mál, sem koma til afgreiðslu á hinu háa Alþ., hafa fengið jafngagngera skoðun og almennar umr. og það frv. sem við erum að fjalla hér um nú í þessari hv. d. Að baki þessa frv. liggur óhemjuvinna hinna færustu aðila, þannig að mér er til efs að nokkurt mál hafi hlotið betri undirbúningsvinnu og athugun heldur en þetta frv. um tekjuskatt og eignarskatt sem hér liggur fyrir til afgreiðslu. Þetta sjónarmið staðfestist kannske best með því að benda á þá staðreynd, að frv. var afgreitt frá hv. Nd. án mótatkv. Mun slíkt afar sjaldgæft, ef ekki einsdæmi í sambandi við ný skattalög.

Í öðru lagi er sjálfsagt að taka tillit til þess, að nú dregur senn að þinglokum og annir því mjög miklar í þessari hv. d., og skal ég því reyna að vera stuttorður.

Þó að ég sé eindreginn stuðningsmaður þessa frv., þá eru nokkur atriði í því sem ég er ekki alls kostar ánægður með, og skal ég ekki fara að tíunda þau öll hér, en snúa mér að tveimur þeirra ákvæða þessa frv. sem ég er algerlega andvígur og að mínu mati verður að breyta áður en væntanleg lög taka gildi að fullu, en samkv. ákvæðum frv. tekur það ekki gildi fyrr en 1. jan. 1979, svo að ef vilji er fyrir hendi ætti að vera hægt að gera nauðsynlegar breytingar á lögunum innan þess tíma.

Vil ég þá snúa mér að því að benda á þau tvö atriði frv. sem eru mér mestur þyrnir í augum.

Í II. kafla frv. um skattskyldar tekjur eru almenn ákvæði og þar stendur í 7. gr. frv., með leyfi forseta: „til tekna skal telja og skiptir eigi máli hver innir greiðslu þeirra af hendi“, og í staflið C.3 stendur.: „Vexti, verðbætur, afföll og gengishagnað, sbr. 8. gr.“ Og í 8. gr. um skattskylda vexti, afföll og gengishagnað stendur svo með leyfi hæstv. forseta:

„Til tekna sem vextir, afföll og gengishagnaður samkv. 3. tölul. C-liðs 7. gr. teljast: 1. Vextir af innstæðum í innlendum bönkum, sparisjóðum og innlánsdeildum samvinnufélaga“ o. s. frv., og samkv. 5. lið sömu mgr.: „Gengishagnaður af hvers konar eignum í erlendum verðmæli á því ári sem gengisbreyting á sér stað og miðast við kaupgengi hlutaðeigandi erlends gjaldeyris í árslok.“

Það er margyfirlýst af stjórnvöldum, hagfræðingum og öðrum sem best þekkja til, að sparifé almennings sé ódýrasta rekstrarfé þjóðarinnar. Æ ofan í æ hefur það verið yfirlýst stefna fyrrgreindra aðila, að það sé eitt af grundvallaratriðum fyrir nauðsynlegum hagvexti í efnahagskerfi þjóðarinnar, að almennur sparnaður aukist sem mest. Yfir því hefur verið kvartað, að þessi þáttur í efnahagskerfi þjóðarinnar hafi farið mjög úrskeiðis á undanförnum árum, þ.e. að sparifjármyndunin eða vöxtur hennar hafi ekki verið með eðlilegum hætti. Skoðun mín á því, hver sé orsök þess, að sparifjármyndun almennt hafi verið minni undanfarin ár heldur en æskilegt hefur verið talið, er að sjálfsögðu að veigamiklum þætti hin sívaxandi verðbólga. En ég vil þá um leið leggja á það ríka áherslu, að röng skattapólitík og síaukin ásælni skattyfirvalda um upplýsingastreymi frá innlánsstofnunum á verulegan þátt í þeirri öfugþróun sem orðið hefur á vilja almennings til þess að geyma fjármuni í innlánsstofnunum.

Nú er mér það fyllilega ljóst, að þessum aths. mínum verður svarað á þann veg, að sparifé sé skattfrjálst, a. m. k. í vissum mæli. Rétt er það. En ég fullyrði að núgildandi ákvæði um skattfrelsi sparifjár og framkvæmd þar að lútandi eru orðin svo þokukennd og ruglingsleg, að allur almenningur stendur.ráðvilltur og jafnvel ráðþrota um það, hvað sé rétt og sé ekki rétt í þeim efnum. Nægir því máli til sönnunar að benda á þann mismun sem komið hefur fram í auglýsingum æðstu peningastofnunar landsins, Seðlabankans, um framtals- og skattfríðindi svokallaðra spariskírteina ríkissjóðs, en þær hafa sannarlega ekki verið samhljóða í sambandi við hin einstöku útboð umræddra spariskírteina.

Sannleikurinn er sá, að Íslendingum er það í blóð borið að vilja eiga sparifé. Menn vilja eiga laust fé til ráðstöfunar. En það er einnig mjög ríkt í eðlisfari þjóðarinnar, að um slík mál vill hún að sé fullur trúnaður milli fjáreigandans og þess sem falið er að geyma féð á hverjum tíma. Eins og nú er komið málum hjá okkur verður maður í sívaxandi mæli var við áberandi tortryggni hjá almenningi í sambandi við þessi mál. Því finnst mér að ákvæði 94. gr. þessa frv., sem kveða á um upplýsingaskyldu og eftirlitsheimildir, þurfi að taka til rækilegrar endurskoðunar og gera á henni víða miklar efnisbreytingar. Í jafnfámennu þjóðfélagi og við búum í eru slík ákvæði sem tilfærð eru í umræddri frvgr. að mínum dómi mjög hæpin, að meira sé ekki sagt. Það liggur alveg hreint fyrir, að lagaákvæði um þagnarskyldu opinberra aðila eru naumast lengur marktæk í okkar þjóðfélagi. Það má einnig benda á það, að með hliðsjón af þeirri gífurlegu tölvutækni, sem er til umráða, þarf að fara með mikilli gát að því að veita jafnvíðtækar heimildir og tilgreindar eru í umræddri frvgr: Hér má svo bæta við að allt orðalag fyrrgreindrar frvgr. er að mínu mati mikill ljóður á jafngóðu plaggi og frv. er í heild sinni.

Þá langar mig til að fara nokkrum orðum um ákvæði frv. um tekjusköttun gengishagnaðar

Eins og öllum er kunnugt var á s. l. ári stofnað til þeirrar nýbreytni, að heimilt var að opna reikning í erlendum gjaldeyri í tilteknum bönkum landsins. Árangur af þessari nýbreytni hefur ekki látið á sér standa, og hann hefur verið mjög jákvæður. Á þeim stutta tíma, sem liðinn er frá því að þessi nýja tilhögun tók gildi, hafa safnast í hlutaðeigandi stofnunum gjaldeyrisreikningar sem munu nema um 600 millj. kr. Umræddir reikningar bera aðeins 3–5% vexti, svo að engum blandast hugur um það, að hér er um mjög ódýrt rekstrarfé að ræða fyrir þjóðfélagið í heild. Samkv. ákvæðum frv., sem hér liggur fyrir og er gert hér að umtalsefni, á nú að fara að skattleggja sem tekjur hugsanlegan gengishagnað sem kann að falla til í sambandi við slíkar gjaldeyriseignir. Ég held að engum blandist hugur um það, að slík ráðstöfun verði til þess eins, að umræddir reikningar hverfi algerlega úr sögunni. Opnun gjaldeyrisreikninganna var að mínu mati mjög virðingarverð tilraun sem hefði getað leitt til þess að gera leið fjármagns að og frá landinu auðveldari en verið hefur, og ég fullyrði að á fáu er okkur Íslendingum meiri nauðsyn heldur en að koma slíkum ráðstöfunum á sem allra fyrst, því að með þeirri tilhögun mundum við opna leið til þess að fá inn í landið ódýrt rekstrarfé og með þeim hætti skapa möguleika til þess að treysta fjárhagskerfi þjóðarinnar almennt, t.d. með almennri vaxtalækkun, og á þann veg stuðla verulega að lækkun á þeirri óðaverðbólgu sem við sífellt erum að berjast við, því miður með misjöfnum árangri.

Sú vitneskja hefur lengi legið fyrir, að sparandinn, sparifjáreigendurnir, eru þeir einu aðilar að fjármagni á Íslandi sem alltaf hafa tekið á sig áhættuna af verðbólgunni án þess að fá neinar tryggingar eða bætur. Sparifjáreigendur eru í áratugi búnir að taka á sig milljarðatöp algerlega bótalaust. Nú vil ég spyrja: Er ekki kominn tími til þess að þjóðfélagið sjái sér fært að taka þessi mál þeim tökum að veita þessu fólki einhverja umbun fyrir allt það órétti sem sparifjáreigendur hafa orðið að þola bótalaust á liðnum áratugum? Svar mitt er hiklaust játandi. Það er fyrir löngu kominn tími til þess að veita sparifjáreigendum verðskuldaða viðurkenningu. Hið fjárhagslega tjón, sem þessir aðilar hafa orðið að þola, verður því miður ekki bætt. En alþm., nú þegar við erum að setja þjóðinni ný, endurbætt skattalög, höfum við dýrmætt tækifæri til þess að veita sparifjáreigendum verðskuldaða viðurkenningu. Við getum gert það á þann veg að undanþiggja allt sparifé, hverju nafni sem nefnist svo og vöxtum af því, framtalsskyldu og allri skattheimtu. Og við skulum gera meira. Við skulum með nýjum skattalögum algerlega skera á upplýsingaskyldur innlánsstofnana til skattyfirvalda nema í algerum undantekningartilfellum, eins og t. d. opinberum sakamálum og þess háttar misferli. Á þann eina hátt sýnum við sem löggjafar þjóðarinnar vilja okkar í verki til þess að bæta, þó ekki sé nema að litlu leyti, fyrir það mikla tjón sem ráðdeildarsemin hefur orðið að þola á liðnum ártugum. Vilji almennings til sparifjársöfnunar er fjöregg efnahagskerfis þjóðarinnar sem Alþ. á að hlúa að og vernda.

Ég er þess mér fyllilega meðvitandi, hafandi sagt framangreind orð, að ég er borinn þeim sökum, að með þeirri framkvæmd skattalaga, sem ég hef hér verið að mæla fyrir, sé ég að hlífa svokölluðum skuldakóngum. Rétt er það, að óhjákvæmilega munu einhverjir verða þeir sem kæmu til með að hagnast óeðlilega á slíkum reglum umfram aðra. En slíkt mundi að mínu mati vera í flokki algerra undantekninga. Ég þykist geta talað um þessi mál af þó nokkuð mikilli reynslu sem starfsmaður í peningastofnun í hálfa öld. Ég fullyrði að það er alger undantekning, að svokallaðir skuldakóngar eigi peninga á vöxtum í innlánsstofnunum. Slíkir aðilar eru með fjármálaumsvif sín á allt öðrum vettvangi. Hins vegar er ég ekki í neinum minnsta vafa um það, að ef farið yrði að þeirri till. að undanþiggja sparifé framtalsskyldu og skattgreiðslu og loka algerlega fyrir upplýsingastreymi úr innlánsstofnunum, þá mundi almennur sparnaður stóraukast. Þannig mundi aukið fjármagnsstreymi til peningastofnana í hraðvaxandi mæli auka getu þeirra til þess að sinna þeim verkefnum að leysa nauðsynlega rekstrarfjárþörf atvinnuveganna. Líklega mundi fljótlega vera hægt að lækka vexti verulega frá því sem nú er. Og eftir er það sem kannske er langþýðingarmest: Með þeim ráðstöfunum, sem ég hef hér verið að mæla með, mundi með þjóðinni aftur vaxa tiltrúin á gjaldmiðil þjóðarinnar, og það eitt út af fyrir sig réttlætir að þessi mál öll verði tekin til alvarlegrar jákvæðrar athugunar.

Herra forseti. Ég mun ekki nú flytja brtt. við það frv. sem ég hef hér verið að ræða. Framangreindar hugleiðingar eru settar fram til þess að benda á þau atriði sem ég tel að þurfi að taka til athugunar mjög fljótlega. Að öðru leyti er svo margt í frv. þessu sem er til mikilla bóta, að ég mun telja mér skylt að veita því fylgi hér í þessari hv. deild.

Dagur kemur eftir þennan dag, þing kemur eftir þetta þing, og þá gefst væntanlega tækifæri til þess að fjalla nánar um það mál sem ég hér hef gert að umtalsefni.