05.05.1978
Neðri deild: 97. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4483 í B-deild Alþingistíðinda. (3863)

38. mál, iðnaðarlög

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Núgildandi iðnaðarlöggjöf er að meginstofni til frá árinu 1927.

Oft hefur komið til orða að endurskoða þá löggjöf, og á Alþ. 1975 flutti hv. þm. Gunnar J. Friðriksson till. þar sem lagt var til að fela ríkisstj. að láta endurskoða lög um iðju og iðnað frá 1971, sem eru, eins og ég gat um., að stofni til frá 1927, og leggja frv. til nýrra iðnaðarlaga fyrir Alþ. Þessi till. var samþ. og var í framhaldi af því skipuð n. til þess að endurskoða lög um iðju og iðnað. Formaður þeirrar n. var Þorvarður Alfonsson, en auk hans voru í n. Björgvin Frederiksen framkvstj., Páll S. Pálsson hrl., Sigurður Kristinsson, Axel Gíslason, Guðmundur Þ. Jónsson, Sigurður Guðgeirsson, og voru flestir þeirra samkv. tilnefningu ákveðinna samtaka, eins og gert hafði verið ráð fyrir í ályktun Alþingis. Þessi n. vann vel sín störf og skilaði samróma áliti, og er það það frv.sem hér liggur fyrir.

Frv. var lagt fyrir hv. Ed. á s.l. hausti og hefur nú verið afgreitt þaðan. Það er eindregin ósk að frv. nái lögfestingu á þessu þingi. Hv. iðnn. þessarar d. hefur þegar fjallað um málið, þó að málinu hafi verið formlega vísað til hennar, og vil ég leggja til að málinu verði vísað til 2. umr. og að það fái afgreiðslu nú.