05.05.1978
Neðri deild: 98. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4494 í B-deild Alþingistíðinda. (3884)

181. mál, bann við fjárhagslegum stuðningi erlendra aðila við íslenska stjórnmálaflokka

Frsm. meiri hl. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég get ekki tekið á mig neina sök í sambandi við boðun fundarins í allshn., og ég verð að segja það eins og er, að ég saknaði þess mjög að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson var ekki á þessum fundi, því að vissulega var ástæða til þess að fullmætt væri á fundi sem þessum. (SighB: Ég fékk aldrei fundarboð). Já, mér er algerlega ókunnugt um það. En hitt veit ég, að formaður allshn. boðaði mig aftur á fund eftir þetta og sagði að það væri að gefnu tilefni hv. þm. Sighvats Björgvinssonar, og þótti mér þá auðvitað eðlilegt að mæta á slíkum fundi og ræða þetta mál. Mætti ég síðan á fundarstað, en þá kom í ljós að fundurinn hafði verið afboðaður og boðin höfðu ekki borist mér, enda var erfitt að ná í mig á þeim tíma. Hins vegar var ég við því búinn að mæta til þess að fullræða þetta mál kl. 2 í gær og kom eins og til stóð, en þá hafði fundurinn verið afboðaður. En eins og ég segi, það var erfitt að ná í mig á þeim tíma þó að formaður reyndi að gera viðvart um það. Þetta er út af fyrir sig galli.

Í sambandi við það, sem fram hefur komið hér hjá hv. frsm. minni hl., þá er náttúrlega margt við það að athuga, ýmis atriði sem mér þykir ástæða til að gera aths. við. Ég held t. d. að það sé ekki annað en sýndarmennska þegar hann er að bera þetta mál við það þegar verslunarmenn og kaupsýslumenn setja hér upp bílasýningu til að auglýsa vörur sínar. Ég held að það sé alls ekki sambærilegt við það þegar erlent fjármagn er látið ganga beint til stjórnmálastarfseminnar. Ég geri á þessu stóran mun, og ég held að í lokin hafi hv. frsm. minni hl. gert sér grein fyrir því að þetta tvennt er ósambærilegt. Eins hefur hann áhyggjur af því, hvernig framfylgja skuli banni við erlendum fjárframlögum til stjórnmálastarfsemi. Ég held að það sé engin sérstök ástæða til þess að hafa áhyggjur af því, að ekki sé hægt að framfylgja slíku banni. Ég held að það sé varla erfiðara heldur en að halda uppi ýmiss konar annarri löggæslu í landinu og öðru fjármálaeftirliti, þannig að þessi viðbára er ekki mjög mikilvæg.

Svo kom hann líka að því, að það stæði í frv. að bann væri við því að leggja stjórnmálaflokkum erlent fé. Ég held líka að þessi viðbára sé ekki mikilvæg þegar allt kemur til alls, þó að hitt sé rétt að það hefði kannske verið ástæða til þess að orða þetta skýrar. Sannleikurinn er sá að það er ekki til nein lögákveðin skilgreining á því, hvað sé stjórnmálaflokkur hér á landi, og ég er ekki í nokkrum vafa um að það ber að skýra orðið stjórnmálaflokk í þessu frv. mjög víðtækt. Ég hygg að orðið stjórnmálaflokkur þarna hafi mjög víðtæka merkingu, og ég er ekki í nokkrum vafa um að það nær til stjórnmálasamtaka almennt.

Hv. frsm. minntist t. d. á það, að Alþb. svonefnda hefði á sínum tíma ekki talið sig stjórnmálaflokk. Það má vel vera að Alþb. hafi ekki talið sig stjórnmálaflokk. En ég held að það hafi verið hreinlega pólitískar ástæður, þeir hafi verið að beita einhverju pólitísku orðalagi þegar þeir tóku svo til orða, því að ég hygg að hver einasti maður í landinu hafi skoðað Alþb. sem stjórnmálaflokk á þeim tíma, hvað svo sem þeim Alþb.-mönnum sjálfum hefur þótt eðlilegt að nefna samtök sín. Vissulega var Alþb. stjórnmálaflokkur á þeim tíma sem henta þótti pólitískt séð að kalla þetta kosningabandalag. Og ég skil þetta frv. svo og ég skil orðið stjórnmálaflokkur í þessu frv. svo, að það nái til allrar stjórnmálastarfsemi.

En nú hefur hv. frsm. minni hl. flutt hér nokkrar brtt., og ég verð að segja um þessar brtt., að það var mjög slæmt að þær skyldu ekki vera komnar fram fyrr. Og þess vegna er það saknaðarefni hjá mér, að sá fundur, sem ég ætlaði að sækja í gær, en hafði verið afboðaður, eftir því sem formaður sagði mér, í fullu samráði við hv. frsm. minni hl., — þá þykir mér illt að sá fundur skyldi ekki hafa verið haldinn, vegna þess að í þessum till. eru ýmis efnisatriði sem ég get fyllilega tekið undir. Ég held að allar þessar þrjár brtt., sem hér koma fram, séu þess eðlis, að ég mundi samþykkja þær. Ég tala að vísu hér eingöngu fyrir mína hönd og lýsi hér minni skoðun. Ég hef ekki haft aðstöðu til þess að bera mig saman við samnefndarmenn mína og þá sem standa að meirihlutaálitinu, en persónulega er ég þeirrar skoðunar að þetta geti vel staðist. Hins vegar held ég þó að þessar till. geti beðið næsta þings, og ég held að það væri mjög mikilvægt fyrir okkur að geta samþykkt frv. í því formi sem það liggur nú fyrir án brtt. sem liggja nú fyrir á þskj. 911. Það er jafnframt mín skoðun. En sem sagt, ég held að það sé mjög óheppilegt ef við reynum að tefja þetta mál nú á síðustu mínútum þingsins. Við vitum, að þinginu er að ljúka. Nd.-fundum mun ætlað að ljúka í dag, þannig að ég tel illa farið ef hv. Nd. treystir sér ekki til þess að samþykkja frv. í því formi sem það er, jafnvel þó að hægt sé að hugsa sér að taka þessar till., sem nú hafa komið fram á þskj. 911. síðar til greina og flytja þær sem brtt. á næsta þingi.

Ég tel mjög mikilvægt að þetta mál nái fram að ganga. Ég tel það mjög mikilvægt að Alþ. sýni vilja sinn og lýsi yfir vilja sínum í því að banna erlendum aðilum að leggja fram fé til stjórnmálastarfsemi í landinu. Það er fullkomlega óeðlilegt að svo sé gert. Það er í andstöðu við, að ég hygg almenningsálit hér á landi og getur beinlínis verið þjóðhagslega hættulegt þegar þannig er að staðið.

Eins og ég sagði í fyrri ræðu minni, þá lít ég ekki svo á að það sé verið beinlínis að beina þessu frv. gegn neinum ákveðnum aðila, jafnvel þó að ástæðan til flutnings þess sé sú, að það vitnaðist að tiltekinn stjórnmálaflokkur hafði þegið erlent fé. E. t. v. eru fleiri stjórnmálaflokkar sem þiggja erlent fé og hafa þegið það, en um það er mér engan veginn kunnugt og það hefur a. m. k. ekki vitnast til þessa svo að mér sé vitanlegt, en ég held að það sé mjög nauðsynlegt að Alþ. geri upp hug sinn í þessu efni og ákveði það einu sinni fyrir allt, að það skuli bannað að erlendir aðilar leggi fram fé til stjórnmálastarfsemi hér á landi. Ég held að við þurfum að gæta okkar mjög á erlendum áhrifum, ekki síst á erlendum fjármálaáhrifum. Og ef þessi leið er svona opin, að það er mögulegt fyrir stjórnmálaflokka að þiggja erlent fé, þá sjáum við í hendi okkar að það er möguleiki á því, að erlendir aðilar hafi bein áhrif á stjórnmálastefnu og á afstöðu flokka til einstakra mála, þannig að mig undrar það ef til eru menn hér í þessari hv. þd. sem eru andvígir því að reynt sé að sporna við því, að erlent fjármagn renni til stjórnmálaflokka hér á landi. Mig satt að segja furðar á því, að slíkir menn skuli vera til. Hitt er auðvitað alveg rétt, að það er hægt að orða hlutina sífellt betur og betur og það er hægt að fylla frv. og löggjöf með nýjum og nýjum ákvæðum og að því leyti til get ég vel fallist á það, að æskilegt hefði verið að þessar brtt. frá tveimur hv. þm. hefðu fengið hér fullan stuðning og stuðning nefndar. Hins vegar tel ég ekki að það sé neitt aðalatriði á þessari stundu, að þessar till. verði samþykktar nú. Ég tel hitt miklu mikilvægara, að þetta mál verði ekki látið tefjast vegna þessara till., vegna þess að þær þurfi umfjöllun í n. og vegna þess að við vitum að það líður mjög á þingið, það líður á starfstíma þessarar hv. d., og ég tel miklu mikilvægara að við fáum þá yfirlýsingu, sem mér finnst að felist í frv. eins og það liggur fyrir. Það má þá endurbæta það síðar ef mönnum sýnist svo.