05.05.1978
Neðri deild: 98. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4496 í B-deild Alþingistíðinda. (3885)

181. mál, bann við fjárhagslegum stuðningi erlendra aðila við íslenska stjórnmálaflokka

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs vegna þess að í nál. meiri hl. kemur fram og er sagt að ég hafi ekki tekið afstöðu til málsins. Sannleikurinn er sá, að ég var ekki viðstaddur þegar afgreiðsla málsins fór fram, en formaður n. hringdi til mín og spurði hvaða afstöðu ég hefði til málsins. Ég sagði að mér fyndist þetta frv. ekki nógu víðtækt til þess að það gæti náð tilgangi sínum og þetta mál þyrfti að athuga miklu betur. Mér finnst það ekkert tiltökumál þó að það sé þannig nú í þinglokin að nefndarfundir séu boðaðir með litlum fyrirvara og erfitt að ná fullskipuðum nefndarfundum saman. Það er ekkert tiltökumál. Það hefur alltaf verið svo í þinglokin. En ég get tekið undir með einum nm. sem talaði hér áðan, að ég fékk ekki boð á þennan fund. En ég vil gera grein fyrir afstöðu minni til þessa máls sem er á dagskrá.

Ég er vitanlega alveg á móti því, að stjórnmálaflokkar séu styrktir með erlendu fé, hvort sem er til blaðaútgáfu eða annars. Þess vegna vil ég vanda undirbúninginn að þessu máli og þeirri löggjöf sem sett verður að hún geti orðið til nokkurs gagns. Ég skil ekki þann mikla flýti sem nú er á þessu máli, að það liggi svona mikið á.

Hv. alþm., sem flytja þetta frv., segja í grg. með frv., með leyfi hæstv. forseta:

„Að dómi flm. er æskilegt að sett verði sérstök lög um starfsemi stjórnmálaflokka á landi hér, þar sem m. a. verði kveðið á um skyldur þeirra til opinberra reikningsskila. og verði þar að sjálfsögðu reistar skorður við því, að erlendir aðilar geti náð á þeim fjárhagslegum tökum. Sérstök þn. skipuð fulltrúum allra flokka vinnur nú að undirbúningi þessa máls sem er allmikið og vandasamt verk.“

Þeir viðurkenna einnig í grg. að frv, sé aðeins einn þáttur af því sem þurfi að setja í þessa löggjöf, en að Alþfl. hafi leitað eftir erlendu fé sér til stuðnings og þess vegna sé þetta frv. flutt. Synd Alþfl. er víst stór eftir því sem hv. 1. þm. Norðurl. e. vildi segja áðan. Ef maður hefði tekið orð hans alveg bókstaflega, þá væri synd Alþfl. stór. Ég veit ekki um það, hvort Alþfl. hefur fengið erlent fé til styrktar blaði sínu. Ég veit ekki einu sinni hvort hann á kost á því, og ég tel harla ólíklegt að hann leiti eftir því eftir þær umr., sem farið hafa fram í báðum deildum, og eftir því viðhorfi sem virðist vera hjá miklum meiri hl. Alþ. til þessa máls. Þess vegna held ég að það þurfi ekki að flýta sér mjög í þessu máli, það sé miklu betra að vanda lagasetninguna þannig að hún komi að fullu gagni.

Hér hefur verið útbýtt þremur brtt. við frv., en þótt þær verði samþykktar er það alls ekki tæmandi. Frv. yrði þó betra með því að þessar brtt. væru samþ., það yrði víðtækara. En það nær alls ekki út yfir það sem það þarf að ná til þess að löggjöfin geti náð þeim tilgangi sem meginþorri allra alþm. virðist ætlast til. Ég fyrir mitt leyti er reiðubúinn til þess að samþykkja þessar till. því að þær bæta frv. En frv. verður ekki nægilega víðtækt enda þótt þær verði tengdar þarna við. Ég tel þess vegna að það sé miklu betra að vísa þessu frv. nú til hæstv. ríkisstj. með viðeigandi rökstuðningi, með því að leggja áherslu á það, að nauðsynlegt sé að setja lög um þetta mál og að ríkisstj. viti að Alþ. ætlast til að þeirri löggjöf, sem er í undirbúningi í starfandi n., verði hraðað. Þetta er viðhorf mitt til málsins, og það er þess vegna sem ég skrifaði ekki undir þetta nál. Mér fannst ekki taka því.

Hv. 1. þm. Norðurl. e. hefur flutt hér tvær ræður við þessa umr. og hefur lagt mikla áherslu á að frv. verði samþykkt nú á þessu þingi — mjög mikla áherslu, alveg eins og það bjargi sóma þingsins að það yrði gert og að vansæmd þingsins verði mikil ef það verður ekki gert. Og hv. þm. talaði um að hann skildi ekki þá menn sem hlypu ekki til að samþykkja þetta frv. með glöðu geði. En nú er það svo, að hv. 1. þm. Norðurl. e. og ég höfum í aðalatriðum alveg nákvæmlega sömu skoðun á þessu máli. Við viljum báðir koma í veg fyrir að erlent fjármagn sé notað til stuðnings íslenskum stjórnmálaflokkum eða blaðaútgáfu. En þá eigum við einnig að vera sammála um að búa þannig um hnútana með þeirri löggjöf sem við setjum, að það nái þeim tilgangi sem ætlast er til.

Þetta frv., þótt það verði lögfest, kemur ekki að gagni. Þess vegna var það að ég skrifaði ekki undir nál. meiri hl., og þess vegna er það, að ég greiði því atkv., að frv. verði vísað til hæstv. ríkisstj., til þess að leggja áherslu á, að það þurfi að hraða löggjöf sem þannig verði gerð að hún nái þeim tilgangi sem til er ætlast.