05.05.1978
Neðri deild: 98. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4502 í B-deild Alþingistíðinda. (3888)

181. mál, bann við fjárhagslegum stuðningi erlendra aðila við íslenska stjórnmálaflokka

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í þessar umr. að marki, en vegna þess að ég er varaformaður þeirrar n., sem stendur að nál. í málinu, kemst ég ekki hjá því að segja hér nokkur orð.

Ég held að þetta sé merkilegt frv. og það sé skynsamlegt að setja reglur í þá veru sem lagt er til að gert sé í þessu frv. um afskipti útlendinga af stjórnmálastarfsemi á Íslandi, því að vafalaust gæti svo farið einhvern tíma, ef þetta yrði að venju, að einhverjir þættust eiga hönk upp í bakið á skjólstæðingum sínum. Ég er ekki viss um að það sé neinum greiði gerður með því að koma þeirri venju á, að útlendingar leggi peninga í stjórnmálastarfsemi hér. Mér þykir vænt um þær upplýsingar sem komu fram hjá hv. þm. Sighvati Björgvinssyni um að Alþýðublaðið hafði í hans tíð manndóm til þess að afþakka góð boð frá erlendum fréttamanni. Það er sannarlega til fyrirmyndar. Ég held að þetta sé góð ábending um starfsreglur í pólitík og ennfremur góð ábending til þeirra útlendinga sem e. t. v. hafa áhrif og áhuga á því að hafa áhrif á skoðanamyndun hér á landi.

Formaður n. er farinn af landi brott, og hér hefur komið til umr. lítils háttar boðun þess nefndarfundar þar sem málið var afgreitt. Þessi fundur var boðaður í lok þingfundar á miðvikudaginn var. Ég harma það ef hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hefur verið horfinn af fundi áður en fundi lauk og hefur ekki verið hér að gegna þingskyldum sínum. Ég treysti því að hann hafi verið alveg rétt nýsloppinn út úr dyrunum þegar þetta bar til, en því miður sat hann ekki þennan fund. Hins vegar held ég að það sé ástæðulaust að halda fund í n. út af brtt. sem hér hafa komið fram. Einn nm., hv. 1. þm. Suðurl., hefur nú lýst því yfir, að jafnvel þó að honum líki ekki vel þetta frv., þá skáni það við að fá þessar brtt. samþ. Ég hef átt tal við 4 nm. hér í d. og þeir sjá ekkert því til fyrirstöðu að standa að samþykkt þeirra. Ég hef aflað mér upplýsinga um það, að í raun og veru eru sumar þessar brtt. óþarfar og rekast á við lög og reyndar innifaldar að ýmsu leyti í frv. sem hér liggur fyrir til afgreiðslu, en ég leyfi mér að vitna til 41. gr. laga nr. 16 frá 1971. Vínarsamnings um stjórnmálasamband. Þar segir — með leyfi forseta — í 1. mgr. 41. gr.:

„Það er skylda allra þeirra, sem njóta forréttinda og friðhelgi, að virða lög og reglur móttökuríkis, en þó þannig að forréttindi þeirra eða friðhelgi skerðist eigi. Á þeim hvílir einnig sú skylda að skipta sér ekki af innanlandsmálum þess ríkis.“

Þar með er náttúrlega nokkur broddur farinn úr þessum brtt. En við sjáum ekkert á móti því að samþykkja þær, ef einhverjum mönnum hér í deildinni þykir frv. batna við þetta.

Ég vil undirstrika þá skoðun mína, að ég held að þessu máli sé ekki stefnt gegn Alþfl. sérstaklega þó að hann hafi verið hafður nokkuð á orði. Ég held að Alþfl. stæði ekkert hallari jafnvel þó að Alþýðublaðið hætti að koma út. Mér finnst það ekki máttugur málsvari þess flokks. Það er ekki reglulega vel skrifað blað, og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson er hættur að vera þar ritstjóri. Það var miklu betra í hans tíð, það vil ég leyfa mér að segja.

En Alþfl.-menn hafa átt greiðan aðgang í aðra fjölmiðla, m. a. í Dagblaðið hér í Reykjavík. Tengsl hafa legið milli Alþýðublaðs og útgáfufélags Vísis. Auk þess hafa sumir Alþfl.-menn haft prýðilega aðstöðu í ríkisfjölmiðlunum til þess að koma skoðunum sínum á framfæri, og þeir eru nú sennilega helsti vaxtarbroddur þess flokks á hinum pólitíska vettvangi. Þetta er ekki stór flokkur, Alþfl., en það eru til enn minni flokkar hér á landi. Það eru Samtök frjálslyndra og vinstri manna. Þau gefa út lítið blað sem ég held að sé ekkert máttlausara sem pólitískt málgagn heldur en það Alþýðublað sem hér hefur verið rætt um. Og a. m. k. var Frjáls þjóð, sem var fyrirrennari Nýrra þjóðmála, áreiðanlega máttugra pólitískt málgagn þegar það naut leiðsagnar manna eins og hv. þm. Ragnars Arnalds og fleiri ágætra stjórnmálamanna á þeim tímum.