05.05.1978
Neðri deild: 98. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4503 í B-deild Alþingistíðinda. (3889)

181. mál, bann við fjárhagslegum stuðningi erlendra aðila við íslenska stjórnmálaflokka

Frsm. minni hl. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Ég veiti því athygli, að þó að samnm. mínir í hv. allshn. virðist flestir ef ekki allir hafa fallist á réttmæti þeirra brtt. sem við berum fram sameiginlega, ég og hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson, á þskj. 911, þá virðist mér sem n. ætli ekki að verða við þeim tilmælum mínum, að gert verði smáhlé á þessari umr. þannig að n. geti komið saman. Ég vil aðeins láta það koma fram, að ástæðan fyrir því, að ég óskaði eftir því, var, eins og fram kom hjá hv. þm. Ingólfi Jónssyni, að bæði mér og honum gafst ekki tækifæri til þess að mæta á fundi allshn. þó að við fegnir vildum vegna þess einfaldlega að við fengum ekki fundarboð. Ég veit að það getur oft komið fyrir á síðustu dögum þingsins að ekki náist í alla nm. Hins vegar miðað við hvaða mál hér er um að ræða, þar sem í grg. er sérstaklega vikið að Alþfl. sem ástæðu fyrir því að þetta mál var flutt, þá finnst mér það dálítið vafasöm málsmeðferð að boða til fundar í allshn. Nd., þar sem ég á sæti sem fulltrúi Alþfl., án þess að mér sé gert viðvart og án þess að mér sé gefinn kostur á því að mæta. Ég vil aðeins taka fram til að ítreka þetta enn frekar, að ég vissi ekki betur en fundur þessi, sem var haldinn í allshn. seint á miðvikudaginn, yrði haldinn annaðhvort kl. 10 fyrir hádegi eða kl. 2 eftir hádegi í gær. Formaður n. hafði tjáð mér að fundurinn yrði haldinn á þeim tíma, og ég hefði tekið það sem fundarboð frá formanni n., að ég mundi verða kvaddur til þessa fundar annaðhvort kl. 10 fyrir hádegi eða kl. 2 eftir hádegi í gær. Það er ekki löng leið hér út í úthverfin frá Alþingishúsinu, en á þeim tíma sem ég fór frá Alþingishúsinu og til míns heima uppi í Breiðholti var nefndarfundurinn haldinn. Formaður hringdi í mig þegar ég var kominn heim, tjáði mér að fundinum væri lokið. Mér hafði ekki gefist kostur á að mæta þar, hafði ekki fengið fundarboð. Ég óskaði eftir því, að formlegur fundur yrði haldinn, og það varð að samkomulagi milli mín og formanns allshn., að ég skyldi ekkert gera til þess að tefja gang þessa máls, og því lét ég það gott heita að nál. yrði afgreitt eins og var gert án þess að fundurinn hefði verið löglega boðaður. Ég tek það fram, að ég ætla ekki heldur að gera aths. við þetta nú, mér finnst ekki ástæða til þess. En ég hélt satt að segja, miðað við öll þau mál sem enn bíða á dagskrá Nd., að það væri mætavel unnt að gera örlítið hlé á þessari umr. og annað mál þá væntanlega tekið fyrir á meðan svo að allshn. Nd. hefði a. m. k. möguleika til þess að koma saman til að athuga hvort ekki næðist samstaða um ákveðnar breytingar á þessu frv. En það virðist ekki vera ætlunin að gefa mér þennan kost sem nm. í allshn. og verður þá svo að vera. En mér finnst það ansi hart, þegar tillit er tekið til þess, að allir nm. eða a. m. k. flestir þeirra hafa tjáð sig meðmælta þeim brtt. sem við tveir þm. höfum flutt, og í ræðum manna hefur ekki komið fram annað en þeir gætu verið reiðubúnir til annarrar formbreytingar á frv. sem gerir ekki annað en að bæta það, og kem ég að því hér á eftir.

Eins og ég tók fram áðan, er í 1. gr. fjallað um að íslenskum stjórnmálaflokkum sé óheimilt að taka við gjafafé. Eins og bent hefur verið á er engin skilgreining til í íslenskum lögum um hvað sé stjórnmálaflokkur og hvað ekki. Menn hafa orðið að taka þann pól í hæðina að láta viðkomandi stjórnmálasamtök um það sjálf að segja til um hvort þau séu stjórnmálaflokkar eða ekki. Og það þarf ekki að minna menn á það, í hve miklum erfiðleikum menn hafa oft lent í sambandi við framboð og kosningar, t. d. til Alþingis, í sambandi við útvarps- og sjónvarpskynningar á flokkunum, að ekki er til skilgreining á því, hvað sé flokkur og hvað sé ekki flokkur. Litlir aðilar sem bjóða fram í fáum kjördæmum, fámenn samtök, hafa gert kröfu til þess að vera meðhöndlaðir sem stjórnmálaflokkar vegna þess að þau hafa sagst vera það, og menn hafa orðið að ganga til móts við þeirra sjónarmið.

Hvað þetta frv. sérstaklega varðar býst ég við að það mundi koma upp alveg þveröfugur póll í hæðina, ýmis samtök mundu skírskota til þess, að þau væru ekki stjórnmálaflokkur. Ég tók það sérstaklega fram, að einn af stærri stjórnmálaflokkum þjóðarinnar núverandi, Alþb., starfaði þannig í mörg ár að það taldi sig ekki vera stjórnmálaflokk, heldur aðeins kosningabandalag. Ég veit að hv. þm. Lúðvík Jósepsson telur það talsverð tímamót í sinni ævi þegar sú breyting var gerð á Alþb., að það var lagt niður sem kosningabandalag, en reist upp úr öskustónni sem stjórnmálaflokkur, þannig að ég stórefa að hv. þm. Lúðvík Jósepsson, jafnvel nú, vilji fallast á að frá fyrstu tíð hafi Alþb. verið stjórnmálaflokkur. Sama máli gegnir um fjölmörg önnur stjórnmálasamtök, eins og ég gat um hér áðan, t. d. um Fylkinguna á sínum tíma, t. d. um ýmis brot stjórnmálafélaga ungs fólks sem nú starfa í landinu. Margir þessir aðilar telja sig ekki vera stjórnmálaflokk. Ég held að það hafi líka verið talsverð tímamót í lífi forustumanna KSML, alveg eins og það voru tímamót í lífi Lúðvíks Jósepssonar þegar Alþb. hætti að vera kosningabandalag og varð flokkur sem hann varð síðar formaður fyrir, — þá held ég að það hafi verið talsverð tímamót í lífi ýmissa forustumanna KSML eða Marx-Leninista á Íslandi þegar þeir hættu að vera stjórnmálasamtök eða stjórnmálafélag og stofnuðu stjórnmálaflokk.

Að sjálfsögðu er næsta auðvelt að sjá við þessum vandkvæðum. Það virðist vera að menn, sem hér hafa talað, séu almennt sammála um að það eigi að nota víða skilgreiningu á orðinu stjórnmálaflokkur í þessu tilviki, að með orðinu stjórnmálaflokkur í þessu frv. sé átt við stjórnmálasamtök yfir höfuð, þau félög sem sérstaklega starfa sem stjórnmálafélög. Og það er næsta auðvelt að koma þeirri breytingu á framfæri við afgreiðslu frv. með því að gera þá orðalagsbreytingu á 1. og 2. gr., að þar sem segir að íslenskum stjórnmálaflokkum sé óheimilt að taka við gjafafé o. s. frv., þá verði sagt: íslenskum stjórnmálafélögum. Þetta er að sjálfsögðu aðeins orðalagsbreyting, sem ætti þó að verða til þess, að það, sem allir virðast sammála um, sem hér hafa talað, að sé meiningin með þessu frv. og tilgangurinn með því verði þá enn skýrar frá gengu eftir þá breytingu heldur en áður. Og þetta er breyting sem ég gæti trúað að ætti mjög auðvelt uppdráttar í hv. allshn. En það verður víst svo að vera fyrst hv. forsvarsmönnum allshn. liggur svo reiðinnar ósköp á að afgreiða þetta mál nú á þessari stundu að þeir gefa ekki færi á því að gera einu sinni þær breytingar á málinu sem þeir þó lýsa sig samþykka úr ræðustóli hér í deildinni.

Þá vil ég enn fremur vekja athygli á því, að það er mjög óeðlilegt að setja lög um þessi efni án þess jafnframt að gera íslenskum stjórnmálaflokkum eða stjórnmálafélögum að skyldu að upplýsa fjármál sín, t. d. með því að birta ársreikninga sína. Það væri mjög eðlilegt, að um leið og þau lög eru sett, sem þetta frv. fjallar um, sé stjórnmálaflokkunum gert að skyldu að birta ársreikninga sína. Ýmsir mundu telja eðlilegt að sama ætti að gilda um kosningafjármál stjórnmálaflokkanna, en látum það nú vera. Alla vega ætti að vera nauðsynlegt, fyrst þessi skylda er lögð á herðar stjórnmálaflokkanna, að þá fylgi henni sú kvöð að þeir upplýsi um fjármál sín með birtingu ársreikninga bæði fyrir félagsmenn sína og allan almenning. Ég býst við að það væri mjög auðvelt að ná samkomulagi um slíka breytingu í hv. allshn., þ. e. a. s. að stjórnmálaflokkar væru skyldaðir til þess að birta ársreikninga sína, því að ég á varla von á því, að það mundi sæta mikilli andstöðu í n., heldur væri hægt að afgreiða slíkar breytingar fyrirhafnarlítið. En það virðist ekki eiga að gefa kost á því, eins og ég sagði áðan, eins og að málinu er staðið.

Þá er eitt vandamálið enn í sambandi við þetta frv. Það er að sjálfsögðu það, að stjórnmálaflokkur er ekki aðili að lögum, þannig að það getur verið talsvert erfitt að koma fram sektarákvæðum í 5. gr., eins og það er orðað. Að vísu er búið að fella niður varðhaldsúrskurðinn sem þar er um að ræða, enda setur víst enginn stjórnmálaflokk í fangelsi, jafnvel ekki okkur Alþfl.-menn sem erum ekki fleiri en raun ber vitni og hv. síðasti ræðumaður fjallaði hér mjög um.

Gallinn við þetta frv. er sem sé sá, að í fyrsta lagi er forustu stjórnmálaflokks ekki gert að skyldu að upplýsa félagsmenn flokksins og almenning um fjármál flokksins með birtingu ársreikninga.Í annan stað er verið að leggja refsikvöð á herðar væntanlegra forustumanna flokka sem geta verið alls óvitandi um þær fjárhagslegu ráðstafanir sem gerðar eru. Það er oft þannig í stjórnmálaflokkunum, eins og menn vita, að kannske eru einum eða tveimur fjáraflamönnum falin ákveðin hlutverk, við skulum segja í blaðrekstri, í rekstri ákveðinna stofnana eða fyrirtækja, í félagsheimilabyggingum og öðru slíku. Stjórnmálamennirnir og flokksforingjarnir treysta iðulega þessum mönnum fyrir því hlutverki sem þeir eiga að gegna. Samkv. þessu frv. eiga flokksforingjar að sæta refsiábyrgð fyrir athafnir þessara manna, án þess að frv. kveði um leið á um að þeim aðilum, sem fara með fjármál flokkanna, beri skylda til þess að gefa um þau upplýsingar. Ég býst við að menn mundu fljótt reka sig á að það yrði erfitt að koma þessu refsiákvæði fram.

Einu atriði enn vildi ég vekja athygli á í þessu sambandi, sem ég býst við að hafi einnig vakað fyrir hv. þm. Ingólfi Jónssyni þegar hann talaði hér áðan, öðrum allshn.-manni sem aldrei fékk fundarboðið og gafst ekki kostur á því að koma sjónarmiðum sínum á framfæri í n., en það er að það getur verið nokkuð erfitt að komast að niðurstöðu um hvað sé fjárstuðningur. Ég greindi frá því áðan, að starfsmaður í sendiráði einu hér í borg hefði komið til mín með boð um það, að ef ég vildi birta tiltekið efni sem ritstjóri dagblaðs í borginni skyldi hann greiða fyrir það efni eins og um auglýsingu væri að ræða. Og nú spyr ég: Væri það fjárstuðningur ef slíkt boð hefði verið þegið? Væri það fjárstuðningur eða væri aðeins um það að ræða, að þarna væri verið að greiða fyrir auglýsingu með eðlilegu verði? Búast má við að ýmsum undanbrögðum verði beitt í þessa átt, en það getur verið harla erfitt að segja til um í þessu sambandi hvað er fjárstuðningur og hvað ekki, því að það er vandalítið að koma málum þannig fyrir að fjárstuðningurinn, sem er ekki annað en óbeinn eða beinn stuðningur, sé þannig framkvæmdur að það virðist vera að um borgun sé að ræða fyrir veitta þjónustu, þannig að þarna er einnig atriði, eins og hv. þm. Ingólfur Jónsson raunar tók fram, sem þarf vissulega að hugleiða betur.

Þá er einnig spurningin um það, sem menn þurfa að átta sig á, að í frv. segir t. d. að það nái til hvers konar stuðnings sem metin verður til fjár þ. á m. til greiðslu launa starfsmanna eða gjafa í formi vörusendinga o. s. frv., o. s. frv. Nú eru þegar starfandi hér á Íslandi a. m. k. einn, ef ekki tveir menn, sem eru greidd laun úr sameiginlegum erlendum sjóðum. Ég veit t. d. ekki annað en laun framkvæmdastjóra Varðbergs séu greidd af Atlantshafsbandalaginu. Alþfl.-menn á Norðurlöndum hafa t.d. með sér formleg samtök. Ungir Alþfl.-menn á Norðurlöndum hafa t. d. með sér samtök, sem heita FMSU, þ. e. a. s. Samband ungra jafnaðarmanna á Norðurlöndum. Þessi samtök hafa skrifstofu í Kaupmannahöfn. Þau hafa þar starfsmenn á launum, bæði danska og sænska. Ef þessi skrifstofa væri staðsett hér á Íslandi, en ekki í Danmörku, þá væri sem sé bannað að reka þá starfsemi sem þar er rekin vegna þess að hér er um að ræða starfsmenn fjölþjóðlegra stjórnmálasamtaka sem taka laun úr sameiginlegum sjóði þeirra. Með þessu móti værum við sem sé að leggja bann við því, að t. d. flokkar jafnaðarmanna á Norðurlöndum gætu sett upp norræna skrifstofu hér í Reykjavík eða samtök frjálslyndra flokka á Norðurlöndum, samtök vinstri flokka á Norðurlöndum o. s. frv., o. s. frv., þannig að ég held að það sé rétt hjá hv, þm. Ingólfi Jónssyni, að menn ættu að huga betur að því sem verið er að gera hér, vegna þess að ég held að það sé mesti misskilningur hjá hv. þm. Ingvari Gíslasyni, að í þessari deild eða hinni á hv. Alþ. séu menn sem séu alfarið á móti því að setja skorður við því að íslenskir stjórnmálaflokkar taki á móti gjafafé. Ég hef ekki orðið þess var. Ég hef að vísu ekki hlustað á umr. í Ed., en ég hef ekki orðið þess var, að þau sjónarmið hafi komið fram hér.

Ingvar Gíslason, hv. þm., hefur tvisvar lýst því yfir héðan úr ræðustól með miklum þjósti, að í þessari hv. d. séu menn sem berjist með kjafti og klóm gegn því að þetta frv. nái fram að ganga. Ég er búinn að hlusta á þessar umr. síðan þær hófust hér, og ég hef ekki orðið var við að nokkur þm. kæmi hingað upp í ræðustól til þess að veitast gegn þessu frv. eða beita sér gegn því að það verði samþykkt, þvert á móti, þannig að hv. þm. Ingvar Gíslason hlýtur að eiga við einhverja allt aðra menn heldur en hingað til hafa talað og einhverja allt aðra menn heldur en sitja í þessari deild, því að ég veit ekki til að nokkur þm., sem í þessari deild situr, sé á móti þeirri hugmynd sem í þessu frv. felst. Það eina, sem deilt er um, er einfaldlega það: Á þingið og þ. á m. þessi hv. deild að reyna að gera það sem það best getur til þess að sjá við annmörkum á frv. sem stinga í augu?

Ég hef ekki öllu meira að segja um þetta mál á þessu stigi. Ég hefði óskað eftir því, eins og ég sagði áðan, að allshn. gæfi sér tíma til þess að fjalla aðeins um þetta frv. frekar en hún hefur gert, m. a. í þá veru að gera þær tiltölulega lítilvægu breytingar á frv. sem í ljós hefur komið við umr. að allir, sem talað hafa úr þessum ræðustól, eru sammála um að gera þurfi. En aðeins virðist skorta vilja til þess að setja þær á blað og til að halda fund um þær, og þá verður svo að vera.

Í sambandi við söguna sem hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson sagði áðan um dulinn fjárstuðning erlendis frá við íslenska stjórnmálaflokka, vil ég aðeins geta þess, sem ég býst við að hv. alþm. viti, að fyrir ekki mjög löngu kom út bók sem heitir að mig minnir „Í álögum“, eftir mann sem um margra ára bil var einn af æðstu mönnum kommúnista í Þýskalandi og sá m. a. um flutning á fjármagni frá alþjóðasamtökum kommúnista víðs vegar út um Evrópu. Í þessari bók, sem kom út á vegum Menningar- og fræðslusambands alþýðu meðan það var og hét, skýrir þessi ágæti fyrrv. kommúnisti og einn af þeirra helstu forustumönnum í Vestur-Evrópu frá því, að ákveðnum aðferðum hafi verið beitt og ákveðnar leiðir verið valdar til þess að koma fjárstuðningi í formi beinharðra peninga frá alþjóðasamtökum kommúnista víða út um Vestur-Evrópu, m. a. hingað til Íslands. Og hann nefnir líka í þessari bók hvernig það hafi verið gert og hvaða skipafélag þar komi við sögu.