05.05.1978
Neðri deild: 98. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4507 í B-deild Alþingistíðinda. (3890)

181. mál, bann við fjárhagslegum stuðningi erlendra aðila við íslenska stjórnmálaflokka

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. neitt að ráði, enda er hér mál að mínu viti sem hvorki þarf að halda margar ræður um né langar.

Ég vil segja það strax sem mína skoðun, að ég tel að sjálfsagt sé að samþykkja það frv. sem hér liggur fyrir og ég held að allir þm. og allir íslenskir stjórnamálamenn hljóti að geta verið sammála um, að það sé ekki bara æskilegt, heldur raunar nauðsynlegt að slíkt sé gert, því að það hlýtur að vera öllum Íslendingum efst í huga að skoðanamyndun hér á landi verði ekki vegna áhrifa erlends fjármagns, e. t. v, fyrst og fremst.

Af því að það hefur komið hér fram hjá sumum ræðumönnum a. m. k., að hér væru innan dyra einhverjir þm., sem líklega væru andvígir þessu máli og vildu drepa því á dreif eða jafnvel koma í veg fyrir að það næði fram að ganga nú, og þar tilnefndir fyrst og fremst þm. Alþfl., þá vil ég segja það, að mér finnst afar ólíklegt að það sé bara til í dæminu, að þm. Alþfl, hér í d. vilji á nokkurn hátt bregða fæti fyrir svo sjálfsagt mál sem hér er um að ræða. Ég á a. m. k. eftir að sjá það, að þeir greiði atkv. á móti þessu frv., og byggi ég þá skoðun mína á því, að á 98. löggjafarþingi, þ. e. a. s. árið 1976–1977, var flutt till, til þál. af öllum þm. Alþfl., hverjum og einum einasta, þess efnis, að samdar yrðu afdráttarlausari reglur og lagaákvæði er banni opinberum starfsmönnum að veita viðtöku umtalsverðum gjöfum umfram það sem starfsréttindi þeirra kveða á um. Í þessari till. segir með leyfi fógeta:

„Alþingi ályktar að óska eftir því við fjmrh., að hann feli þeim aðilum, sem starfa að endurskoðun á lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanns, að þeir geri sérstaklega till. um ný og afdráttarlausari fyrirmæli en nú er að finna í lögum, er banni opinberum starfsmönnum að veita viðtöku umtalsverðum gjöfum, endurgjaldslausri þjónustu, sérstökum fríðindum eða óvenjulegri fyrirgreiðslu umfram starfsréttindi, er meta má til peningaverðs, frá opinberum aðilum, einstaklingum eða fyrirtækjum sem viðkomandi starfsmaður hefur starfsleg samskipti við. Auk þess skal í till. kveðið á um skyldu opinbers starfsmanna til þess að upplýsa til réttra aðila um þau fríðindi, gjafir, endurgjaldslausa þjónustu o. s. frv. er hann kynni að hafa þegið, svo og um viðurlög við brotum. Jafnframt verði þeim aðilum, er þessa endurskoðun á lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna hafa með höndum, falið að gera till. um sambærilegar reglur varðandi ráðh. og alþm., sveitarstjórnarmenn og starfsfólk sveitarstjórna svo og um aðra þá sem ráðnir eru eða kjörnir til opinberra starfa, og þá sérstaklega lagasetningu þar um ef þurfa þykir, svo og að gera till. um þær breytingar á öðrum lögum, svo sem eins og almennum hegningarlögum, sem gera þyrfti í þessu sambandi.“

Svo mörg eru þau orð. Þessi þáltill. mun, að því er ég best veit, aldrei hafa verið rædd. Hún mun ekki heldur, eftir því sem ég best veit, hafa verið endurflutt nú á þessu þingi. Eigi að síður tel ég að svo verði að líta á, að þetta sýni fyrst og fremst hugarfarið til þess að ekki sé um mútuþægni að ræða á einu eða neinu sviði. Ég vil því skoða þetta frv., sem hér liggur fyrir, sem annað skrefið í þeirri siðbótarvæðingu og siðbótartali sem þeir Alþfl.menn hafa tekið upp, og þökk sé þeim fyrir það, a. m. k. að vissu marki. Ég get því ekki með nokkru móti séð að þeir geti á einu eða neinu stigi, með tilliti til þess sem þeir hafa gert á Alþ. fyrir stuttu, reynt að drepa þessu máli á dreif eða greiða atkv. gegn því hér. Það væri í algerri andstöðu við það sem þeir hafa flutt hér sjálfir fyrir stuttu. Og ég hef enga trú á því, fyrr en ég þá sé það, — að vísu er enginn þeirra nú inni eins og er, — að þeir geri slíkt. Ég hefði því talið miklum mun æskilegra og eðlilegra með hliðsjón af þessari fyrri þáltill., að við hefðum séð hér þá þm. Alþfl. sem eru í þessari d., alla þrjá, miklu fremur heldur en sjá að hér er aðeins einn Alþfl.-þm., flm. að frv, og sá þm. sem mér skilst, að Alþfl. sé búinn að ákveða að losa sig við. (Gripið fram í) Ég veit það. Alþfl.-þm. er hann eigi að síður.

Ég lít svo á, sem sagt, að þó að menn séu með getgátur hér um það, að Alþfl.-þm. og einhverjir þm. Sjálfstfl., — það á að vísu eftir að koma í ljós, þeir hafa engir flutt slíka þáltill„ eins og hér er hægt að vitna til um Alþfl., um að koma í veg fyrir mútuþægni eða óæskilegar gjafir, — þá hef ég ekki trú á því, að það sé neinn þm. á Alþ. sem vilji koma í veg fyrir að þetta frv. fari í gegn. Ég hef enga trú á því. Ég vil því í lengstu lög taka upp hanskann fyrir þá þm. Alþfl., þangað til ég sé að þeir hafa horfið frá því góða sem þeir fluttu hér 1976 allir sem einn, til þess að koma í veg fyrir að taka næsta skrefið, sem ég lít svo á að þetta frv. sé, í áframhaldi af þeirri þáltill. sem þm. Alþfl. fluttu 1976.

Það var einvörðungu þetta sem ég vildi koma á framfæri til þess að menn myndu eftir því, hverjir hófu innreið siðbótartalsins á Alþ. á sínum tíma. Það er ástæðulaust a. m. k. að sinni að ætla þeim hinum sömu það, að þeir ætli nú að koma í veg fyrir að siðbótaráhrifin haldi áfram að verka í þjóðfélaginu. Undir engum kringumstæðum held ég að þeir geti sóma síns vegna á neinu stigi reynt að bregða fæti fyrir þetta frv.