05.05.1978
Neðri deild: 98. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4509 í B-deild Alþingistíðinda. (3891)

181. mál, bann við fjárhagslegum stuðningi erlendra aðila við íslenska stjórnmálaflokka

Jónas Árnason:

Herra forseti. Hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson flutti hér skrýtna tölu áðan. Hann kom mér þar nokkuð á óvart. Ég hélt að Guðmundur H. Garðarsson væri það sem við nefnum „litterer“, Ég hef orðið var við að hann hefur áhuga á góðum bókmenntum, les mikið góðar bókmenntir, er næmur fyrir góðum bókmenntum, og reynsla mín er sú, að slíkir menn nenna yfirleitt ekki að lesa samsetning eins og þann sem birtist í því tímariti sem hann nefndi, þ. e. a. s. Fréttir frá Sovétríkjunum. Ég segi fyrir mig: ekki nenni ég því. Ég fæ að vísu ekki nema eitt eintak af því, kasta því venjulega beint í körfuna. En hv. þm, sagðist fá þrjú, svo að verið getur að þessu valdi meðfædd háttvísi hv. þm. og honum finnist það lágmarkskurteisi af sinni hálfu, af því að hann fær þrjú eintök, að lesa a. m. k. eitt.

Ég vona að hv. þm. misskilji mig ekki. Ég er alveg sammála honum um það, að auðvitað eigum við að setja skorður við útgáfustarfsemi af þessu tagi. Og ég hlakka til þegar við höldum áfram þessari siðbót, hlakka til, ef við verðum báðir á þingi næsta vetur, að flytja með honum till. um það t. d. að skyggnst verði inn í starfsemi samtaka sem nefna sig Samtök áhugamanna um vestræna samvinnu, Varðberg og annað slíkt. Varðberg, eins og nefnt hefur verið hér í ræðu, hefur hér mann á launum til þess að útbreiða sinn fagnaðarboðskap. Það skyldi ekki vera kominn tími til að draga úr því ofurlítið líka? Vegna þess að þessi tónn er í hv. þm., þá er ég ekki í neinum vafa um að hann verður tilbúinn næsta vetur að flytja með mér tillögur af þessu tagi.

Annar nokkuð svo skrýtinn kafli var hjá hv. þm. þar sem hann vitnaði í bók sem hann hafði lesið um undirróðursstarfsemi kommúnistaflokka fram til 1942, kommúnistaflokka á Norðurlöndum. Ég vek athygli á því, að sú „undirróðursstarfsemi“, sem hv. þm. nefnir svo, mun þá hafa átt sér stað af hálfu þessara kommúnista á Norðurlöndum, eitt árið, síðasta árið, mun þá síðustu árin hafa beinst gegn nasistum. Þessar þjóðir voru þá undir járnhæl nasista. Þarna verður snögglega stans á. Þessi maður, sem er fyrrv. kommúnisti, hefur ekki lengri sögu að segja. Ég vona að þessi snöggi stans hafi ekki stafað af því, að félagar mannsins hafi allir verið leiddir fyrir aftökusveitir nasista.

Vitaskuld eigum við að torvelda undirróðursstarfsemi, bægja henni sem mest frá landi okkar. Og af því að þessi tónn er í hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni, þá sem sagt hlakka ég til, ef við verðum hér á þingi áfram, að þá berum við gæfu til að ganga enn þá lengra og reisa skorður við ýmiss konar starfsemi af þessu tagi úr öðrum áttum.

Ég skil satt að segja ekki afstöðu hv. þm. Sighvats Björgvinssonar. Hann flytur hér till. með hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni, og Guðmundur H. Garðarsson flytur þessa till. auðvitað í þeirri góðu trú, að það vaki fyrir hv. þm. Sighvati Björgvinssyni að fá þessar till. samþykktar til þess að bæta þetta frv. Nm. viðkomandi n. eru búnir að lýsa yfir að þeir styðji þessar till. Hv. þm. Páll Pétursson kom hér upp áðan og sagðist hafa talað við nm. og þeir styddu þessar tillögur. Ég skil satt að segja ekki þessa afstöðu hv. þm. Sighvats Björgvinssonar. Ég veit ekki hvað hann ætlast til að gerist helst í n., annað en það þá að hann ætli að fara að þvarga um eigin tillögur. g lýsi yfir stuðningi við tillögurnar og þá í trausti þess, að það hindri ekki endanlega afgreiðslu frv.