05.05.1978
Efri deild: 101. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4513 í B-deild Alþingistíðinda. (3909)

217. mál, tollskrá o.fl.

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Fyrr á þessu þingi var lagt fram frv. á þskj. 417 um breyt. á l. nr. 120 frá 31. des. 1976, um tollskrá o. fl., með áorðnum breytingum. Þm. er í fersku minni að í des. 1976 voru samþ. á Alþ. ný tollskrárlög. Lögin mörkuðu framhald þeirrar tollastefnu, sem mótuð var með lögum um sama efni frá 1970 og 1974, og kváðu á um samningsbundnar tollalækkanir vegna aðildar Íslands að Fríverslunarsamtökum Evrópu og samnings Íslands við Efnahagsbandalag Evrópu. Jafnframt þessum breytingum voru gerðar umfangsmiklar breytingar á undirskiptingu vöruliða í íslensku tollskránni, en breytingar á tollnafnaskrá Tollasamvinnuráðsins höfðu verið samþykktar í ársbyrjun 1976 af ráðinu fyrir tilstilli Tölfræðistofnunar Sameinuðu þjóðanna.

Ástæðan til þess, að frv., sem hér er til umr. með áorðnum breytingum, var flutt, er sú, — ég gat í fjárlagaræðu minni um framlagningu þessa frv., — að brýna nauðsyn ber til að samræma íslensku tollskrána þeim breytingum sem nú hafa verið gerðar á tollnafnaskrá Tollasamvinnuráðsins frá því að hún var gefin út að nýju í jan. 1977 með áorðnum breytingum.

Eins og kunnugt er var ákveðið í heildarendurskoðun tollalöggjafarinnar frá 1963 að taka upp tollskrárgerð eftir tollnafnaskrárbreytingu Tollasamvinnuráðsins í Brüssel eins og skrá þessi var árið 1959. Tollnafnaskráin var áður þekkt undir heitinu Brüsseltollskráin, en upphafleg gerð hennar var frá árinu 1950 svo og alþjóðleg samþykkt um hana. Um 40 þjóðir eru í dag aðilar að samþykkt þessari, en um 130 þjóðir munu hins vegar hafa tekið upp tollskrár, sem eru í grundvallaratriðum byggðar á tollnafnaskrá Tollasamvinnuráðsins.

Frá árinu 1963, að Ísland tók upp fyrrgreinda tollskrá, hefur 21 breytingaskrá verið samþ. á tollnafnaskránni. Hefur verið leitast við að breyta íslensku tollskránni jafnóðum til samræmis við breytingar þessar, þannig að notið yrði þess hagræðis sem er því samfara að hafa sama tollskrárform og allar helstu viðskiptaþjóðir okkar. Við síðustu heildarendurskoðun íslensku tollskrárinnar árið 1976 var tollskráin þannig m. a. færð til samræmis við nýja útgáfu tollnafnaskrár Tollasamvinnuráðsins í tengslum við samræmingu þeirrar síðar nefndu við hina tölfræðilegu vöruskrá Sameinuðu þjóðanna, eins og áður getur. Jafnframt var tollskránni breytt til samræmis við breytingarskrár nr. 20 og 21, sem höfðu verið gerðar í ársbyrjun 1976.

Tollasamvinnuráðið samþykkti í júní 1976 umfangsmiklar breytingar á tollnafnaskránni sem leiða munu til verulegrar fækkunar á vöruliðum. Vöruliðirnir, sem falla niður vegna breytinga, eru fyrst og fremst vöruliðir sem komið hefur í ljós við samræmingu tollnafnaskrár Tollasamvinnuráðsins og vöruskrár Tölfræðistofnunar Sameinuðu þjóðanna að eru óþarfir þar eð vöruliðirnir taka til vara sem að magni til eru mjög lítilvægir í alþjóðlegum viðskiptum. Í bréfi Tollasamvinnuráðsins frá 12.7. 1977 segir um breytingar þessar, að þar sem engar aths. hafi borist ráðinu frá aðilum að samþykkt um vöruflokka í tollskránni komi breytingar til framkvæmda frá og með 1. jan. 1978.

Síðan frv. var lagt fram háfa komið frá Tollasamvinnuráðinu aths. sem leiddu til þess, að á þskj. 558 flutti meiri hl fjh.-og viðskn. Nd. brtt. og er þskj. 861 frv. með áorðnum breytingum. Enn voru að berast aths. og ég flutti því við 3. umr. málsins í Nd. brtt. á þskj. 912 og voru bæði brtt. frá meiri hl. fjh.- og viðskn. við 2. umr., svo og þær sem ég flutti við 3. umr., samþykktar og er frv. nú þskj. 917. Brtt., sem gerðar voru í Nd. og ég gat um áðan, voru til samræmis við atriði og ábendingar sem komið höfðu frá Tollasamvinnuráðinu. Auk þess voru gerðar örfáar breytingar á tolltöxtum landbúnaðarvéla, en í ljós hafði komið að við sameiningu á tolltöxtum á Alþingi 1976 hafði samræming ekki átt sér stað á örfáum númerum sem lagfærð hafa verið nú með brtt. á þskj. 912.

Ég fjölyrði ekki meir um frv., en leyfi mér að leggja til, herra forseti, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn. Ég vonast til þess, að nm. hafi þann kunnugleika á málinu frá meðferð þess í þingi að takast megi að afgreiða það sem lög nú áður en þingslit verða. Það er vissulega nauðsynlegt og til hagræðis fyrir alla þá sem viðskipti þurfa að stunda að við höfum tollskrá sem er í sem mestu samræmi við tollskrár þeirra þjóða sem við skiptum mest við.