10.11.1977
Sameinað þing: 15. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 590 í B-deild Alþingistíðinda. (391)

318. mál, verðlag

Fyrirspyrjandi (Albert Guðmundsson):

Herra forseti. Fjmrh. kom að svari sínu í fjárlagaræðu sinni fyrir nokkrum dögum. En ég lít ekki á það sem neitt endanlegt svar við fsp. minni og mun flytja mál mitt eins og hann hafi ekki tekið það mál til umr. við það tækifæri.

Við störf mín sem formaður Iðnkynningar í Reykjavík að undanförnu fékk ég gott tækifæri til þess að kynnast viðhorfum iðnaðarmanna, iðnrekenda og iðnverkafólks til hinna ýmsu mála sem iðnaðinn varða. Eitt þeirra mála, sem útflutningsiðnaðurinn telur sig una illa, er sá dráttur sem orðið hefur á endurgreiðslu uppsafnaðs söluskatts á útfluttum iðnaðarvörum fyrir árin 1975, 1976 og 1977. Þess vegna bar ég fram þá fsp. til hæstv- fjmrh. sem nú er á dagskrá, á þskj. 26, svo hljóðandi:

„Hvað líður endurgreiðslu uppsafnaðs söluskatts af útfluttum iðnaðarvörum fyrir árin 1975, 1976 og 1977?“

Ég tel rétt að fylgja fsp. úr hlaði með nokkrum orðum til skýringar fyrir hv. þm.

Á árinu 1973 gerði iðnþróunarnefnd sérstaka könnun á vandamálum útflutningsiðnaðar. Í till. með grg, sem þeir sendu iðnrh. um þetta mál, var m.a. bent á endurgreiðslu söluskatts og tolla. Niðurstaða þessa máls varð sú að endurgreiða fyrir árið 1973 2.5% af útflutningsverðmæti útfluttra iðnaðarvara og var þar um að ræða endurgreiðslu á söluskatti og tolli af þessum framleiðsluvörum. Var endurgreiðslum þessum fram haldið til 1. sept. árið 1974, en hætt þá um tveimur mánuðum eftir að ný ríkisstj. hafði tekið við völdum og boðað gengisfellingu sem varð um þetta leyti. Síðar var útflytjendum almennra iðnaðarvara tjáð að ríkissjóður sé reiðubúinn að greiða 2.5% af andvirði útfluttra iðnaðarvara fyrir þá fjóra mánuði ársins 1974 sem eftir höfðu verið skildir áður. Nokkru áður hafði þó ríkissjóður innt þessar greiðslur af hendi vegna lagmetisiðnaðar. Þarna virðist ríkissjóður m.ö.o. hafa fallið frá viðbárum um ranga gengisskráningu.

Í maímánuði 1975 sendi fjmrn, frá sér skýrslu er nefndist: Greinargerð um virðisaukaskatt. Þar fjallar sérstakur kafli um uppsöfnunaráhrif söluskatts, á bls. 21–23. Þar er bent á að söluskattur sé ekki hlutlaus, heldur leggist á ýmis mikilvæg aðföng fyrirtækja, svo sem orku, orkugjafa og viðhaldsþjónustu, auk þess sem hann sé innheimtur af flestum fjárfestingarvörum. Þar segir enn fremur: „Af þessum ástæðum felur núgildandi söluskattskerfi í sér uppsöfnun skatts sem valdið getur m.a. ófyrirsjáanlegri mismunun í samkeppnisaðstöðu hinna ýmsu atvinnugreina.“

Skýrsluhöfundar munu hafa snúið sér til Þjóðhagsstofnunar og beðið hana um að mæla áhrifin, og eru niðurstöður þessarar athugunar birtar á bls. 22 í skýrslunni. Þar segir um hlutföll uppsafnaðs söluskatts af heildarrekstrargjöldum, að beinn söluskattur af útflutningsiðnaði sé um 2%, óbeinn skattur 11/2%, en samtals eru þetta 3.5%. Höfundar skýrslunnar útskýra síðan muninn á beinum og óbeinum söluskatti, en komust að lokum að þeirri niðurstöðu, að útreikningarnir sýni fremur vanmat á uppsöfnunaráhrifum en ofmat.

Í febrúar 1977 kom út skýrsla Þjóðhagsstofnunar sem ber heitið: Hagur iðnaðar. Einnig þar er fjallað um uppsafnaðan söluskatt, en þar segir orðrétt á bls. 51, með leyfi forseta:

„Þótt þannig megi álykta, að þegar á heildina sé litið hafi áhrifa tollalækkana ekki séð greinilega stað í lakari afkomu iðnaðarins á þessu tímabili, verður að hafa í huga að lækkuninni var í upphafi mætt með hækkun söluskatts úr 7.5% í 11%. Síðan hefur söluskattsálagningin þyngst verulega, úr 11% í 20%. Söluskatturinn er ekki lagður á hráefni, en hefur hins vegar yfirleitt verið greiddur af vélum og tækjum svo og ýmsum aðföngum til iðnaðarframleiðslu. Þótt söluskattur hafi nú verið felldur niður af iðnvélum og hlutum í þær er enn um nokkra uppsöfnun að ræða í iðnrekstri. Samkv. lauslegum áætlunum má meta þessa uppsöfnun nærri 21/2% af framleiðsluverðmætt iðnaðar vin skilyrði í árslok 1977. Þessi áhrif eru nokkuð misjöfn milli iðngreina.“

Síðan í skýrslunni, á bls. 52, eru raktar ástæður fyrir mismunandi niðurstöðum 1975 og 1977, og svo segir á bls. 55, með leyfi forseta:

„Sú hækkun óbeinna skatta, annarra en tolla, sem orðið hefur á undanförnum árum, hefur vegna uppsöfnunar þessara gjalda í framleiðslukostnaði iðnaðar valdið nokkurri verndarröskun án þess að til væri ætlast. Með heimildum í nýjum tollskrárlögum og fjárlögum mætti án efa ráða nokkra bót á þessu, en til frambúðar væri almenn óbein skattheimta með virðisaukasniði eða viðtækum endurgreiðsluheimildum vegna skatta af aðföngum líklega rétta lausnin.“

Þetta ætti að gefa fulla vísbendingu á skoðun Þjóðhagsstofnunar um þetta mál, eins og hún kemur fram um hag iðnaðarins.

Forstjóri Þjóðhagsstofnunar hefur birt eftir sig grein í Fjármálatíðindum, 2. maí 1977, en þar kemur hann inn á sama mál og segir m.a. á bls. 141, með leyfi hæstv. forseta:

„Hækkun óbeinna skatta, annarra en tolla, hefur aftur á móti ótvírætt valdið nokkurri verndarröskun, án þess að til væri ætlast, vegna uppsöfnunar þessara gjalda í framleiðslukostnaði iðnaðar. Með heimildum í nýjum tollskrárlögum og fjárlögum mætti án efa ráða hér nokkra bót á, en til frambúðar væri almennt óbein skattheimta með virðisaukasniði eða viðtækum endurgreiðsluheimildum vegna skatta af aðföngum líklega rétta lausnin.“

Og í niðurstöðum greinar sinnar á bls. 146 heldur forstjóri Þjóðhagsstofnunar áfram:

„Er ástæða til að benda á að hækkandi söluskattur og sérstakt vörugjald fela í sér óhagræði fyrir innlenda framleiðendur sem ráða þarf bót á. Einhvers konar virðisaukaskattur eða víðtækt kerfisbundið endurgreiðslukerfi með söluskatti á aðföngum virðist rétta frambúðarlausnin á þessu máli.“

Það fer því ekki á milli mála hvaða skoðun Jón Sigurðsson forstjóri Þjóðhagsstofnunar hefur á þessum málum.

Heildarútflutningur iðnaðarvara án áls nam sem hér segir: Árið 1975 3474.2 millj. og 3.5% af því eru 121.6 millj. kr., 1976 5181 millj, rúm og 3.5% af því eru 181.4 millj. Nú segir hæstv. fjmrh. að 1977 muni það verða 235 millj., ef ég man rétt. Miðað við þær upplýsingar, sem nú liggja fyrir, gerir því útflutningsiðnaðurinn kröfu til endurgreiðslu sem nemur fyrir árin 1975 og 1976 303 millj. kr. + þær 235 millj. kr., sem fjmrh. gat um í ræðu sinni að væri upphæðin fyrir 1977.

Félag ísl. iðnrekenda hefur í nokkur ár farið fram á það við ríkisstj., að hér á landi yrði tekinn upp virðisaukaskattur, eins og þegar hefur verið gert í öllum samkeppnislöndum okkar, eða annað skattform sem tryggi sambærilega neysluskattstöku. Hefur verið fjallað um þetta hjá ríkisstj., bæði núv. og fyrrv., en afstaðan er engin enn. Þá er upplýst í málinu að taka mun a.m.k. tvö ár frá ákvörðun um upptöku virðisaukaskatts að koma honum á, þar sem gert er ráð fyrir að þjálfa þurfi starfsmenn í ríkiskerfinu o.s.frv. áður en af því geti orðið. Iðnrekendur lita það mjög alvarlegum augum að sitja uppi með þá uppsöfnun, sem núverandi söluskattskerfi skapar, fram yfir þann tíma sem aðlögunartíminn nær, og hafa því til viðbótar við kröfuna um upptöku virðisaukaskatts krafist þess, að tekið yrði upp viðtækt endurgreiðslukerfi eða svokallað jöfnunargjald, þar til virðisaukaskatturinn hafi komið til framkvæmda. Umfram allt þarf að koma þessu máli í fast form þannig að verið sé að greiða og endurgreiða í svipuðum krónum. Og ég vona að svar hæstv. fjmrh. verði á þá leið að allir, sem hlut eiga að máli, geti vel við unað. — Ég bið hæstv. forseta afsökunar á að ég hef tekið þetta langan tíma.