05.05.1978
Efri deild: 101. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4518 í B-deild Alþingistíðinda. (3911)

217. mál, tollskrá o.fl.

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Hér kemur til meðferðar í deildinni enn eitt þeirra mála sem þannig eru sköpuð að n., í þessu tilfelli fjh.- og viðskn., hlýtur að hafa treyst að ákaflega miklu leyti á í fyrsta lagi útskýringar sérfróðra embættismanna, svo sem eðlilegt er um mál sem varðar tollskrána. Tæpast er hægt að ætlast til að hv. þm., sem ekki hafa átt þess kost að yfirheyra embættismenn um hina ýmsu sérstöku liði frumvarps sem lýtur að breytingum á tollskrá, geti raunverulega tekið efnislega afstöðu til þess, og þarf ekki lengi að kanna frv. sjálft til þess efnislega að sjá að slíkt verður býsna torvelt.

Eins og hæstv. fjmrh. gerði grein fyrir í framsöguræðu sinni, þá er hér á ferðinni frv. í eðlilegu framhaldi af breytingunni sem gerð var á tollskránni 1976, þar sem fyrst og fremst var fjallað um samræmingu á tollnafnaskránni svonefndu í samræmi við ákvarðanir Tollasamvinnuráðsins. Frá þeim umr. mun okkur ýmsum vera minnisstætt ýmislegt sem þá bar upp á og virtist vera í ákaflega óljósu samhengi við íslenskar þarfir raunverulega í verslunarmálum, margt af því harla torskilið, sumt af því virtist ekki beinlínis lúta að því að fella út af tollskrá samkv. alþjóðlegum samningum verslunarvöru sem litlu máli skipti fyrir verslunarviðskiptin í heild. Mér er það minnisstætt frá því máli, umfjölluninni um tollskrána 1976, t. d. þegar það kom í ljós við athugun á því frv., að það mundi leiða til hækkunar á borðhnífum, göfflum og skeiðum, en aftur á móti til lækkunar tolla á höggsverðum, fallbyssum og öðrum útbúnaði sem að stórskotaliði lýtur. Mér er einnig minnisstætt hversu furðulega það sló ýmsa þm. þá þegar í ljós kom að kveðið var þar á um stórkostlega lækkun á geitaklaufafeiti. Afgreiðslu þess þingmáls bar svo sem nú upp á tíma þegar fjölmörg ákaflega þýðingarmikil mál, sem varða raunverulega efnahag þessarar þjóðar, varða raunverulega undirstöðuatriði varðandi verslunarviðskipti þessarar þjóðar og atvinnumál, biðu óleyst, — mál sem kölluðu vissulega að um umfjöllun hér á hv. Alþ. Ég ítreka það, að mér er ljóst að hæstv. fjmrh. sinnir með því að leggja fram þetta frv. aðkallandi skyldu sinni, einnig það, að hæstv. ráðh. er sjálfum fyllilega ljóst að önnur vandamál og brýnni kalla nú að rn. hans og hv. Alþ. heldur en þetta frv. til 1. um breyt. á lögum um tollskrá.

Ég hlýt að taka undir gagnrýni hv. þm. Ragnars Arnalds á sinnuleysi hæstv. ríkisstj. um meinbugi á tollamálum okkar, svo sem í sambandi við innflutning á vélum og tækjum til landbúnaðarins og til fiskiðnaðarins. Ég skildi það svo er hv. þm. Ragnar Arnalds beindi máli sínu sérstaklega til sjálfstæðismanna hér í d., þegar hann var að rifja upp með hvaða hætti Framsfl. hefur forsómað það að koma fram breytingu í réttlætisátt varðandi tollun á vélum til landbúnaðarins, —þá skildi ég það svo að hann hefði verið raunverulega að eggja Sjálfstfl. lögeggjan að tala nú um fyrir maddömu sinni, Framsókn, í þessum málum, fremur en þar hafi verið um einhvers konar tjáningu heitra tilfinninga, hlýrra tilfinninga í garð Sjálfstfl. að ræða, hvað þá ástarjátningu, enda væri það ekki við hæfi að krjúpa við þann beð og biðla til Sjálfstfl. meðan hann iðar enn í skinninu undan ástaratlotunum sjálfum sem í rekkjunni eiga sér stað.

Hér er um að ræða enn eitt það mál sem leitt hefur af aðild Íslands að Fríverslunarbandalaginu, EFTA, sem gagnrýnt var mjög harðlega á hv. Alþ. á sínum tíma og sögðu ýmsir fyrir að leiða mundi til þess að Íslendingar misstu forræði í ýmsum ákaflega þýðingarmiklum málum sem að tollum lúta. Af hálfu Alþb.-manna var sýnt fram á það á þeim tíma, að íslenskur iðnaður hefði ekki bolmagn til þess að gera þess háttar gagnkvæman samning um afnám verndartolla og lækkun allra tolla, þar sem við værum ekki þannig í stakk búnir, í fyrsta lagi vegna þess hversu iðnaður okkar væri vanþróaður, í öðru lagi vegna þess, hversu illa við erum settir svo fjarri mörkuðum og í þriðja lagi vegna fólksfæðar og vanmáttar af þeim sökum til þess að koma okkur upp öflugum, samkeppnisfærum iðnaði sem stæðist hinum erlenda iðnaði stórþjóðanna snúning. Þess vegna væri aðildin að EFTA hættuleg. Við gætum ekki tekist á herðar sams konar skuldbindingar og hinar stóru þjóðir í þessum efnum og hér yrði um að ræða samning sem ekki leiddi til þess, að hér yrði kaup kaups, heldur að við mundum glata verndinni, íslenskur iðnaður mundi glata þeirri vernd sem hann hefði fengið í löggjöf áður, — vernd sem átti að nægja honum til þess að hann gæti dafnað og vaxið fyrst og fremst í því skyni að þjóna innlendri þörf.

Mér er það minnisstætt frá þeim tíma, þótt ekki sæti ég þá á Alþ., en felgdist þeim mun betur með í fréttum, hversu undrandi menn urðu á því almennt, að forsvarsmenn íslensks iðnaðar skyldu ganga fram fyrir skjöldu í kröfunni um það, að við gerðumst aðilar að EFTA. Hvort heldur þeir hafa látið glepjast af gylliboðum utanlands frá, einhverjum snjöllum fortölumanni hafi tekist að tjá svo fyrir þeim málið að þeir sæju einungis gull og græna skóga fram undan, eða hvort þeir sáu raunverulega einhverja möguleika til þess að efla framleiðslu sína og auka útflutning á framleiðsluvöru sinni í skjóli EFTA-laganna, einhverja möguleika sem ekki komu fram raunverulega í umr. um málið á þeim tíma, það skal ég láta ósagt. En hitt er ljóst, að það var ekki langur tími liðinn frá samþykkt þessara laga um aðild Íslendinga að EFTA og lögin höfðu ekki lengi verið í gildi þegar í þessa forustumenn íslensks iðnaðar kom allur annar tónn og þeir tóku að barma sér undan framkvæmd laganna, og er nú svo komið að þeir hafa uppi mjög eindregnar kröfur um að gerðar verði til þess ráðstafanir með hörðu, ef þarf, að tefja það að samningarnir við EFTA um tollamálin, um hina gagnkvæmu lækkun tolla, komi til framkvæmda, vegna þess að erlenda samkeppnin, sem fylgdi í kjölfár þessa samnings, er þá hreint lifandi að drepa. Og þegar maður leyfir sér að minna þessa hv. forustumenn íslensks iðnaðar, sem margir hverjir eru hinir mætustu menn, á það með hvílíku offorsi þeir börðust á sínum tíma fyrir aðildinni að EFTA, þegar maður leyfir sér að spyrja þá að því, hvort þetta hafi komið í ljós raunverulega sem tjáð var fyrir þeim á þeim tíma, að t. d. fragtin á húsgögnum frá Íslandi á Evrópumarkað og til Ameríku mundi hækka töluvert við það að timbrið væri búið að taka á sig nýja og rúmfrekari mynd, þegar maður leyfir sér að minna þá forustumenn íslensks iðnaðar á þessi atriði núna og segja við þá sem svo: Ykkur var nær, þá klökkna þeir allmjög og biðja sér griða, biðja menn að tala ekki um þetta við sig, því að vonirnar hafi gjörsamlega brugðist, og vilja þá kenna ríkisstj. um að hafa svikið fyrirheit að iðnaðurinn skyldi njóta þess háttar fyrirgreiðslu um tolla af hráefnum og vélum og skatta og fjármagn að hann stæði erlendum iðnaði jafnfætis, nyti jafngóðra kjara á þessum sviðum, þótt ekki sé nú minnst á hitt, að bætt yrði upp aðstaðan vegna fjarlægðar frá markaði. Og það er skemmst af að segja, að enda þótt ríkisstjórnir hafi þeir nú í fleirtölu þegar þeir bera fram þessa gagnrýni sína, þá hefur hún náttúrlega fyrst og fremst beinst að núv. ríkisstj. sem eðlilegt er, e. t. v. vegna þess að það er nú á síðustu 4 árum sem fyrst og fremst hefur á þetta reynt

Sjálfur er ég þeirrar skoðunar, að nauðsynlegt sé fyrir okkur að taka afstöðuna til EFTA til algerrar endurskoðunar. Ég er að vona að sú endurskoðun gæti leitt til þess, að við gætum létt af embættismönnum okkar því umfangsmikla orðmyndunarstarfi sem felst í áframhaldandi samræmingu á tollnafnaskrá og að við gætum með einum eða öðrum hætti losað okkur út úr þeim vítahring sem aðild okkar að EFTA nú er. Ég er þess fullviss, að við verðum að gera okkar eigin ráðstafanir, hvort sem þær kunna að brjóta í bága við skuldbindingar okkar gagnvart EFTA eða ekki. Við verðum að gera okkar eigin ráðstafanir til verndar innlendum iðnaði, til þess að efla hann, fyrst og fremst fyrir innanlandsmarkaðinn, og ég hygg að það sé svo mikið í húfi að þetta verðum við að gera þó svo það kostaði það, að við hyggjum á tengslin við EFTA og losuðum okkur undan því helsi sem samningurinn við EFTA hefur reynst okkur í þessu tilliti. Það er á mörgum sviðum sem staða íslenskra atvinnuvega er sérstæð. Því fer víðs fjarri að sá mælikvarði, sem lagður er á markaðssamstarf meginlandsþjóðanna, milljónasamfélaganna, geti átt við okkur. Okkar vandamál á þessu sviði eru sérstaks eðlis sem kannske er ekki furða þegar tekið er tillit til þess, að samfélag eins og okkar eða í líkingu við okkar mun ekki finnast á byggðu bóli. Ég veit að vísu að ekki gefst tækifæri til þess og væri raunar ekki rétt í tengslum við frv. þetta, er við fjöllum hér um nú, að taka þau mál til umr. hér. En ég gæti rakið hér ákaflega mörg dæmi um það, með hvaða hætti er raunverulega andkannalega að unnið í tollun á innflutningsvörum okkar.

Mér er það í minni sem gerðist í fyrrasumar þegar Mjólkursamlag þeirra Suður-Þingeyinga flutti inn tankbíl frá Vestur-Evrópu og fyrir hagkvæmnissakir og sparnaðar var þessi vestur-þýski bíll látinn koma við í Hollandi þar sem ryðfríi stáltankurinn var keyptur til þess að setja á þennan bíl og tankurinn var skrúfaður á bílinn til þess að minna færi fyrir honum og til þess að hægt væri að festa hann á farartæki til flutnings í skip í Kaupmannahöfn. Þannig var þessi bíll fluttur inn á Íslandi með mjólkurtankinn skrúfaðan á pallinn. Þessum bíl var skipað upp í Reykjavík þannig, sem líka var eðlilegt, með stáltankinn skrúfaðan á pallinn. Þetta leiddi til þess, að lagt var saman verð þessa stáltanks og verð bifreiðarinnar og hvort tveggja tollað sem bíll. Þetta munaði Mjólkursamlagið ríflega 3 millj. kr. í tollum, að þetta skyldi vera gert á þennan hátt, og þótti forsvarsmönnum þess illt undir að búa og var leitað leiðréttinga, fyrst hjá hæstv. fjmrh. Þar skeði náttúrlega það sem hlaut að ske hjá þeim manni sem ala verður önn fyrir tómum kassa. Hann lét sérfræðinga sína slá upp í lögum og reglugerðum og það kom í ljós, að með því að tankurinn var skrúfaður fastur á bílinn taldist hann orðinn bíll. Þegar forsvarsmaður Mjólkurbúsins leitaði síðan til síns manns, Ólafs Jóhannessonar viðskrh., um það, hvernig við þessu ætti að bregðast, og er hann bæði lögvís maður og efalaust góðgjarn í garð samvinnuhreyfingarinnar, þá leitaði hann til sinna sérfræðinga, sló upp í lögbókum sínum og komst að þeirri niðurstöðu, að eina leiðin til þess að leiðrétta þetta, til þess að koma í veg fyrir að tankurinn yrði tollaður sem bíll, væri að flytja bifreiðina aftur með skipi Eimskipafélagsins út til Kaupmannahafnar þar sem hún var sett um borð í skipið, skrúfa tankinn þar af, það á ekki að vera mikið verk, sagði hæstv. viðskrh., -og flytja síðan hvort tveggja inn aftur sitt í hvoru lagi. Það lá náttúrlega beint við, að þetta mundi kosta stórfé. En þetta var eina leiðin til þess að koma málunum í það horf að bíll og tankur yrðu tollaðir sinn í hvoru lagi.

Það er alveg efalaust að hér var á ferðinni allt annað en nokkurs konar illvilji eða tilraun til þess að gera það sem rangt væri, því fór víðs fjarri. En hér voru í framkvæmd lög og hér voru í framkvæmd reglur sem hljóta að teljast óhæfar.

Ég ítreka það, að ég vil síður en svo draga úr þörf eð vefengja þörf hæstv. fjmrh. fyrir að leggja þetta mál hér fram. En ég vil taka undir orð hv. þm. Ragnars Arnalds um nauðsyn þess að sinna öðrum hliðum sem lúta að íslenskri tollalöggjöf og snerta hag landsmanna miklu meira en það sem lýtur að breytingu á tollskránni til samræmis við tollnafnaskrá og læt svo máli mínu lokið, herra forseti.