05.05.1978
Sameinað þing: 75. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4525 í B-deild Alþingistíðinda. (3921)

279. mál, endurskoðun meiðyrðalöggjafar

Flm. (Vilborg Harðardóttir):

Herra forseti. Sú till. til þál., sem hér er, er borin fram af mér og hv. þm. Páli Péturssyni og Svövu Jakobsdóttur og er svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að endurskoða beri löggjöf um ærumeiðingar og samþykkir að kjósa til þess 5 manna nefnd. Nefndin skili niðurstöðum í frumvarpsformi á næsta þingi, fyrir áramót.“

Eins og segir í grg. hafa ýmis ákvæði núgildandi meiðyrðalöggjafar þótt orka tvímælis, svo að ekki sé fastar að orði kveðið, allt frá því að hún var rædd og afgreidd frá Alþ. innan ramma almennra hegningarlaga fyrir hartnær 40 árum

Frv. til núgildandi hegningarlaga var lagt fram á Alþingi 9. mars 1939, en þá hafði refsilöggjöfinni ekki verið breytt að ráði í 70 ár eða frá því 1869. Voru því flestir sammála um að endurskoðunar hlyti að vera orðin þörf. Frv. var eðlilega langur bálkur í 29 köflum og 273 greinum og tekur með grg. yfir 90 dálka í Alþingistíðindum. Það var samið af þremur hæstaréttardómurum, þeim Þórði Eyjólfssyni, Einari Arnórssyni og Gizuri Bergsteinssyni, og aths. eða mótbárur við því urðu fáar sem engar nema við þær tiltölulega fáu greinar þess sem varða ærumeiðingar, aðdróttanir og því um líkt, þ. e. a. s. 108., 236. og 237. gr. Í þáltill. okkar eru hins vegar þrjár aðrar greinar einnig taldar þurfa endurskoðunar við, þ. e. a. s. 234., 235. og 241. gr. Ég ætla nú ekki að tefja tíma hv. þm. á því að lesa þessar greinar upp, en vitna í grg. okkar þar sem segir að í þessum greinum sé m. a. kveðið svo á, að sektum varði bregði maður manni brigslum án tilefnis þótt hann segi satt, og varðandi opinbera starfsmenn að aðdróttun, þótt sönn sé, varði sektum sé hún borin fram á ótilhlýðilegan hátt.

Frv. var lagt fram af allshn. Ed. fyrir tilmæli þáv. forsrh. og dómsmrh. Hermanns Jónassonar. Var hann raunar eini þm. sem varði frv. gagnrýni, enda er svo að skilja á umr. að honum hafi verið það mikið kappsmál að koma frv. í heild sem fyrst í gegnum þingið. Frsm. allshn. Ed. og Nd., þeir Ingvar Pálmason, Magnús Gíslason og Bergur Jónsson, höfðu litlar aths. fram að færa við frv. í heild eða einstakar greinar þess. Ingvar Pálmason tók raunar fram við 1. umr. 13. mars, með leyfi forseta: „þótt ég verði að kannast við það fyrir mitt leyti, að ég geri ekki ráð fyrir að ég hafi þekkingu til að dæma um hinar einstöku greinar frv. og ég verði fyrir mína parta aðallega að byggja á þeim skýringum sem höfundurinn hefur látið fylgja frv.“

Frsm. n. við 2. umr. í Ed., 14. apríl, Magnús Gíslason, taldi hins vegar 236. gr. eina geta valdið ágreiningi í öllum lagabálkinum og sagði í því sambandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Hér má kannske segja að nokkuð sé nærri gengið prentfrelsinu og málfrelsinu jafnvel líka. Þetta er það eina ákvæði sem ég hef rekist á er ég gæti trúað að mundi valda ágreiningi.“ Og síðar: „og ég hef einmitt haft þá sérstöðu í allshn., að réttast mundi að láta afgreiðslu þess bíða fyrst um sinn og láta fleiri sérfróða menn á þessum sviðum fjalla um málið, eins og t. d. prófessora lagadeildar háskólans.“

Magnús telur réttast að láta afgreiðslu bíða og fleiri sérfróða menn fjalla um málið, en þessu svarar dómsmrh. svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Vitanlega er það ekki tilgangur frv. að höggva á nokkurn hátt nærri málfrelsi manna eða skoðanafrelsi eða frelsi manna til að láta í ljós skoðanir sínar í riti. En ég er þó þeirrar skoðunar, að sá réttur hafi stundum hér á landi verið mjög misnotaður. Tilgangurinn með réttinum til að láta í ljós skoðanir sínar í ræðu og riti er fyrst og fremst og eingöngu bundinn við það, að menn láti í ljós skoðanir sem þeir hafi sjálfir ástæðu til að ætla að séu réttar. Það hefur aldrei verið tilgangur prentfrelsis eða valfrelsis að menn hafi leyfi til að láta í ljós skoðanir sem þeir telja sjálfir ósannar. En það getur ekki verið ástæða til að vernda með löggjöf þær athafnir að bera á aðra menn sakarefni sem menn hafa ekki einu sinni sennilega ástæðu til að álíta satt. Því er ég á þeirri skoðun, að þessi frvgr. sé í fullu samræmi við íslenska réttlætismeðvitund, en eftir henni verður alltaf að fara þegar setja skal hegningarlöggjöf.

Hins vegar er því ekki að neita, að dómstólunum er gefið allmikið vald með þessu, því að þeir eiga að ákvarða hvort maður eigi að teljast hafa ástæðu til að álykta að hann fari með rétt mál eða ekki. En íslenskir dómstólar hafa alltaf síðan hegningarlögin voru sett 1869 verið varfærnir í því að dæma strangar refsingar fyrir meiðyrði, svo að telja verður jafnvel vafasamt að þeir hafi fylgt lögum er gilt hafa hér á landi. Má fullyrða að hjá dómstólunum hefur myndast venja um að fylgja tæplega lögum, vægast sagt. Ég held því að ekki sé ástæða til að óttast að dómstólarnir mundu ekki einnig hér eftir fylgja lögunum af varfærni.“

Þetta var það sem dómsmrh. hafði að segja. En frsm. allshn. hins vegar, Bergur Jónsson, sagði þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Þau ákvæði frv., sem helst mundu geta orkað tvímælis, munu vera ákvæðin um ærumeiðingar, enda er það sá kafli refsifræðinnar sem einna vandasamast er við að eiga, og er það eðlilegt þar sem um er að ræða eins teygjanleg og óákveðin hugtök eins og æru og mannorð.“ Fyrstu andmælendur þessara greina frv. voru þm. Sósíalistaflokksins, Brynjólfur Bjarnason og Einar Olgeirsson, sem fluttu nokkrar brtt. sem voru felldar eins og við var að búast á þeim tíma.

Helsti andófsmaður þessara greina frv. var hins vegar Gísli Sveinsson sýslumaður og þm. Vestur-Skaftfellinga við 3. umr. í Nd. 22. apríl, og eru orðaskipti þeirra Hermanns Jónassonar einkar athyglisverð fyrir okkur í dag.

Gísli lagði megináherslu á að afgreiðslu frv. yrði frestað þar til þing kæmi saman aftur að hausti, einkum þar eð hann taldi sum ákvæði þess varðandi ærumeiðingar hæpin og krefjast nánari athugunar. Nota skyldi sumarið til að gefa fleiri aðilum kost á að skoða þessi ákvæði og segja sitt álit, t. d. prófessorum við lagadeild Háskóla Íslands. Gísli sagði þá m. a., ef ég má vitna til þess, með leyfi hæstv. forseta:

„Því hefur verið haldið fram, að mál þetta hafi fengið meiri og betri athugun en almennt gerist um lagafrv. Það er alveg rétt, að einn dómarinn í Hæstarétti hefur samið frv. og það svo fundið náð fyrir augum samdómara hans. En hvað sem því líður, þá er hitt þó víst, að í frv. eru atriði sem leikmenn í þessum efnum hnjóta um, hvað þá aðrir, og það er sakir þessa, að ég mælist til þess við hæstv. forsrh. að hann fresti máli þessu til næsta hausts. Sum atriðin eru þess eðlis, að þau gefa jafnvel til kynna að beita eigi hörku í praksis þeirra, og verði horfið að því í fullri alvöru, þá fer ýmislegt að líta hér öðruvísi út en æskilegt gæti talist í landi sem er lýðræðisland og hefur stjórn myndaða á þeim grundvelli.

Eftir þinglegum skilningi mun ekki hætta á því, að þetta svokallaða lýðræði brotni á bak aftur fyrir þessari refsilöggjöf, en hinu, sem kalla má lýðfrelsi, má traðka svo fremi sem hún verður samþykkt. Sá kafli frv., sem mest grípur á þessum hlutum, er XXV. kaflinn. Þó að flest í þessum kafla sé í löggjöf nágrannaþjóðanna, þá eru samt 2–3 atriði sem ég tel rétt að minnast á, því að ég tel þau varhugaverð sem fylgismaður lýðfrelsisins.

Þessi atriði, sem ég tel varhugaverð, eru í 236. og 237. gr. frv. Þar er beinlínis farið fram á að skerða þá hluti sem í eina og hálfa öld hafa verið uppistaða alls lýðfrelsis í ræðu og riti. Því hefur verið haldið fram, að búið sé að traðka þessum hlutum hjá mörgum þjóðum heims, en slíkt réttlætir á engan veg að við þurfum að gera það líka. En eins og kunnugt er, þá hafa allar þjóðir keppst um að taka upp í stjórnarskrár sínar ákvæði um ritfrelsi og prentfrelsi allt frá stjórnarbyltingunni miklu í Frakklandi, og svo gera og öll ríki enn þá sem lýðfrelsi unna. Að því er snertir ákvæði 236. gr. frv., þá munu ákvæði síðari mgr. óvíða komin í lög. Í frv., sem dómsmrh. danski bar fram í danska þinginu, fór hann fram á að fá leitt í lög slíkt ákvæði sem þetta í Danmörku, en enn sem komið er hefur það ekki fengist fram. Þar hefur verið deilt mjög um það og hefur ráðh. haldið því fram, að það væri hinn mesti misskilningur að slíkt lagaákvæði sem þetta gæti orðið til þess að traðka lýðfrelsinu, það væri þvert á móti til að tryggja það. En hvað segja nú menn um þetta hér? Ég býst við að flestir verði á þeirri skoðun við rólega yfirvegun þessara hluta, að hér sé of langt gengið, höggvið of nærri lýðræðinu með því að fara að lögfesta slík ákvæði sem þessi. Það á að sjálfsögðu að halda uppi allri reglu í landinu með öflugri lögreglu, og ég vona að lögreglan verði gerð svo sterk, hvort sem það er gert með stofnun svokallaðrar ríkislögreglu eða á annan veg, að hún megni að vernda borgarana og lýðræðið og gera slíkt lagaákvæði sem hér á að lögfesta með öllu óþarft. Ég hef skotið þessum aths. fram af því að ég tel að með síðari mgr. 236. gr. frv. sé stefnt að því að eyðileggja það mál sem grundvöllur alls lýðfrelsis byggist á, ég geri þetta sakir þess, að enn þá tel ég lýðræði í landinu þar sem borgararnir hafi rétt til þess að hugsa og velja og ráða athöfnum sínum, í stað þess að vera beinlínis skipað fyrir um hvað þeir megi gera, eins og gert er í einræðislöndunum.

237. gr. frv. er nýmæli hér. Þó á hún sér stað í löggjöf annarra landa, en það er langt frá því að ég telji nauðsynlegt að lögleiða hér allt sem er í erlendum lögum, ekki aðeins að því er snertir þetta atriði, heldur og miklu fleiri. Að ég hef tekið þessar tvær greinar út úr frv. og rætt þær sérstaklega stafar af því, að hér er um svo viðkvæman punkt að ræða. Þess vegna tel ég rétt að hv. Alþ. athugi, hvort það mundi koma að sök að dráttur yrði á afgreiðslu málsins nú svo að menn og flokkar gætu, ef þeir vilja, leitað eftir upplýsingum um atriði þau er ég talaði um.“

Í svari dómsmrh. kom fram, að einn af höfundum frv. hefði sagt honum að einungis XXV. kafli frv., þ. e. a. s. um ærumeiðingar og friðhelgi einkalífs, ætti að geta valdið ágreiningi.

Í næstu ræðu Gísla Sveinssonar kom m. a. eftirfarandi fram, með leyfi hæstv. forseta:

„En það sem ég hef talað um er að séð verði til þess, að enn gefist nokkur tími til þess að aðrir fjölluðu um málið en þm., til þess að þm., sem vitanlega að miklum meiri hl. hvorki eru inni í málinu, eins og gefur að skilja, né heldur óska að vera það, verði rólegri með það, að nú verði samþykkt lög sem þá iðrar ekki í neinu atriði að hafa verið með í að samþykkja.

En ég hef bent á aðrar hliðar á þessu máli. Það eru stofnanir innan þjóðfélagsins sem fara með mál manna sem hér koma mjög til greina. Ritvöllurinn og ræðuvöllurinn eru atriði sem mér virðist að þurfi að taka til greina í þessu sambandi. Blöðin t. d. eru oftast bundin við ákveðnar stofnanir þó að utan þings sé. Og þá komum við að því í þessu frv., sem er ágreiningur nokkur um hér hjá okkur og einnig hefur verið ásteytingarsteinn annars staðar. Það er rétt, að 237. gr. þessa frv. er að ákvæðinu til í löggjöf hjá nokkrum þjóðum þó að hér sé þetta nýmæli. En það er ekki alveg sjálfsagt í fyrstu lotu að lögleiða allt sem aðrar þjóðir hafa í þessu sambandi. Það ber að íhugast og skoðast vandlega, hvort slíkt lagafyrirmæli er heppilegt hér á þessu stigi, sem menn telja, að að sumu leyti sé nauðsyn á að hafa hér hörð ákvæði um, en sem ég efast um að sé á réttu byggt, heldur get búist við að það sé varasamt að gera þá, sem brotlegir kunna að verða gegn þessari grein, að píslarvottum, það getur hefnt sín.

Ef hæstv. ráðh. þykist eiga einhvern ámælanda slíkan hér innan þings, þá er sama um það að segja, að það verður að taka sálfræðilegt tillit til slíkra manna og umhverfis þeirra. Og ef maður talar um 237. gr., þá er það vitanlegt, að þar er nýmæli sem er ekki í lögum með þjóðum almennt annars staðar. En slíkt ákvæði sem þetta er í frv. sem hefur verið lengi til meðferðar í Danmörku og þar mætt mikilli mótspyrnu, sem að vísu ekki hefur gengið fjöllunum hærra, en það hefur frá réttum aðilum mætt seiglingslegri mótspyrnu. Nú heyri ég hjá hæstv. dómsmrh. — það ber kannske eðlilegan, en a.m.k. athyglisverðan vott um sálarfar sumra manna sem eru dómsmrh., að sálarfarið verður svo ósköp líkt með þeim og það er e. t. v. eðlilegt, en hæstv. dómsmrh. hefur sömu rök og Steincke dómsmrh. Dana hefur haft. Hann telur betra að brjóta frelsið til þess að vernda frelsið heldur en að láta þetta ógert. Það hefur ekki farið dult hjá þeim bræðrum okkar við Eyrarsund, að þetta sé að brjóta frelsið. En Steincke hefur varið það með þeirri forsendu, að nauður geti rekið til að brjóta frelsið til að vernda frelsið. En nú hefur það ekki komið fram, hvor hluti frelsisins er þyngri á vogarskálinni, sá sem brotinn er eða sá sem er verndaður.“ Og áfram heldur Gísli:

„Þegar hæstv. ráðh. talar um að þetta mál hafi legið frammi fyrir hv. þm. til athugunar, svo að þeir hafi getað athuga málið, þá er þetta ofsagt. Hv. þm. hafa haft öðru að sinna á þinginu. Hv. þm. eru heldur ekki allir að stúdera málin til þess að gera sér sjálfstæða grein fyrir því, hvernig þau eru.

Það eru fleiri ákvæði í þessu frv., sem orka tvímælis en þau, sem ég hef tekið fram, og það jafnvel í þessum kafla. Ég bendi aðeins á það, sem þó er minni ásteytingarsteinn en 237. gr., að í 236. gr. er ákvæði um að það varði varðhaldi eða fangelsi allt að tveim árum ef ærumeiðandi aðdróttun er birt eða borin út opinberlega enda þótt sakaráberi hafi ekki haft sennilega ástæðu til að halda hana rétta. Nú er þetta, „sennileg ástæða“ mjög svo varhugaverð setning, af því að um það er dæmt af dómstólunum eftir á, að ýmsu upplýstu sem ekki var upplýst á þeirri stundu þegar þessi sakaráberi bar fram sína aðdróttun. Og þá gæti vel farið svo, að dómstólarnir litu á sem svo: Maðurinn hefur ekki haft sennilega ástæðu til að bera þetta fram, hann getur hafa sagt það gegn betri vitund.

En þessi ástæða gat samt verið til staðar, þó að eftir á, að fengnum einhverjum vissum upplýsingum, þyki það ólíklegt. Þarna er rúmt frelsi til að athuga það sem kallað er pólitík. Hér er ekki talað um áburð á einstakan mann, sem varðar æru hans, heldur er hér komið inn á það svið þar sem blaðamenn telja sér leyfilegt að ganga nokkru lengra í hita dagsins en dómstólar e. t. v. eftir strangasta skilningi mundu telja rétt vera.

Fleiri atriði vildi ég gera aths. við sem ég tel að betur mættu fara. Ég hef af eðlilegum ástæðum vegna embættisstöðu minnar meira til brunns að bera til þess að gera slíkar aths. heldur en sumir aðrir hv.þm. og sé því sumt sem menn mundu vilja breyta í þessu frv. ef málið fengi meiri yfirskoðun. Og ég vil slá því föstu, að þó að við e. t. v. samþykktum þetta frv. nú, meira og miður fúsir, þá verður hæstv. dómsmrh. samt að búast við því, sem er þó ekki heppilegt, að það geti mjög bráðlega komið fram það sem menn kalla „opinion“ að menn fari að skoða huga sinn um hvort þetta verður þolað. Og þá vona ég að hæstv. ráðh. verði fús til að laga sig og breyta til eftir því sem sennilegar ástæður liggja til og upplýsist að rétt verður að teljast, og er skylt að hafa það sem réttara og sannara reynist.“

Í svari sínu sagði dómsmrh. um 236. gr. frv., með leyfi forseta:

„Ég vil vekja athygli á því, að sönnunin í þessu tilfelli er neikvæð. Og við vitum að atriði eru oft ákveðin eða skýrð í lögum með dálítið meiri strangleika en framkvæmd laganna er. Og í þessu tilfelli má gera ráð fyrir slíkum dálítið meiri strangleika en beinlínis verður krafið til þess að sanna hvort maðurinn hafi ekki haft sennilega ástæðu til að halda einhverju fram. Þarna er náttúrlega lagt mikið vald í hendur dómstólanna, og það verður hv. Alþ. að gera upp við sig, hvort það vill gera það eða ekki. Og þess ber einnig að gæta, að allt frá því að hegningarlöggjöfin var sett 1869 hafa dómstólarnir alltaf haft tilhneigingu til að skýra og dæma eftir ákvæðunum um ærumeiðingar vægar heldur en orð hegningarlaganna jafnvel standa til. Það hefur jafnvel verið gengið svo langt að mynda þá dómvenju sem heggur nærri því að vera ekki í samræmi við orð laganna. Og þess vegna er það, að þó að þetta ákvæði standi þannig í lögunum, þá eru ekki nokkrar líkur til þess, að þessu ákvæði verði beitt þannig að ástæða sé til að vera á móti því að lögfesta það, heldur eru allar líkur með því, að þessu ákvæði verði beitt með þeirri fyllstu varúð.“

Þetta var álit dómsmrh. Umr. var síðan frestað og frv. ekki afgreitt frá Nd. fyrr en 15. des. veturinn eftir. Flutti frsm. allshn., Bergur Jónsson, þá þrjár brtt., þ. e. a. s. við 108., 236. og 237. gr. Við tvær hinar fyrri var sú breyting ein gerð, að heimilað var að dæma menn í sektir fyrir brot gegn þeim, en ekki endilega í varðhald eða fangelsi. 237. gr., sem áður hljóðaði svo:

„Ef aðdróttun er borin fram á ótilhlýðilegan eða móðgandi hátt, má beita refsingu samkv. 234, gr., enda þótt sönnur hafi verið á hana færðar. Þegar refsingar er krafist samkv. þessari grein eingöngu er ekki heimilt að færa sönnur á aðdróttunina nema nauðsyn þyki til bera vegna almannahags.“

Þessari grein var nú breytt í núverandi horf, þ. e. a. s.: „Ef maður bregður manni brigslum án nokkurs tilefnis, þá varðar það sektum, þótt hann segi satt.“

Tók frsm. sérstaklega fram, að hér væri um Grágásarorðalag að ræða, og virðist helst sem sæst hafi verið á það orðalag sem málamiðlun þar sem það væri gagnvart öllum aðilum nægilega úrelt, teygjanlegt og óskiljanlegt. Dómsmrh. kvaðst sætta sig við þessar brtt., þótt hann teldi þær óþarfar. En síðan lauk Gísli Sveinsson umr. með þessum orðum, með leyfi hæstv. forseta:

„Það má segja, að frv. hafi ekki tekið miklum stakkaskiptum eða ekki liggi fyrir á þskj. 445 stórvægilegar brtt. við þennan mikla lagabálk. En þó má segja og er sjálfsagt að viðurkenna, að þessar brtt. á þskj. 445 áhræra það sem sérstaklega þóttu agnúar á meiðyrðalöggjöfinni. Mér er að vísu ekki kunnugt um að nokkrir sérstakir aðilar, sem hafa látið sig málið miklu skipta, hafi fjallað um þetta á því tímabili sem liðið er frá því er málinu var frestað, en það vita sjálfsagt hæstv. dómsmrh. og hv. allshn. En ég ætlaðist til að með þessum fresti yrði tóm til fyrir þær lögfræðistofnanir og sérfræðinga, sem ekki hafa verið nógsamlega til kvaddir, svo og ýmsar „korporationir,“ eins og blaðamannafélög, til að gera sínar aths. og tillögur. Ég veit ekki, hvort þaðan hafa komið nokkrar slíkar aths., og sakast ég ekki þar um, en vil aðeins lýsa yfir því, að ég tel málinu betur borgið með þessum brtt. hv. allshn. sem eflaust verða samþykktar, og mun ég geta sætt mig við að málið verði afgreitt nú með þeim breytingum, þó að ég hafi að vísu nokkuð að frv. að finna. Vil ég samt gera þá tilraun með þetta, því að það stendur eflaust til bóta sem önnur stórmál, þó að fordæmi sé að þessi gömlu og viðkvæmu lög hafi enzt ótrúlega lengi og ótrúlega vel. Hefur þar farið saman fullkomin framkvæmd laganna og réttlætismeðvitund þjóðarinnar. En nú er þó tími til kominn að breyta þessum lögum og hefur það verið gert og að sumu leyti til batnaðar með frv. þessu, en að sumu leyti er breytingin að vísu lítil, því að mörg þessara gömlu ákvæða hafa staðist eldraun reynslunnar svo vel að ótrúlegt mætti þykja. Annars býst ég ekki við að ég eða aðrir muni leggja stein í götu þessa frv., og vil ég gjarnan sjá hvernig það verkar í þjóðfélaginu er það orðið að lögum eins og nú er ráð fyrir gert.“

Það er greinilegt á því, hversu fáir taka þátt í umr. varðandi þetta viðamikla mál, að flestir þm. hafa talið sig lítt dómbæra um einstök ákvæði þess vegna ónógrar lögfræðikunnáttu og því varpað sínum áhyggjum upp á sérfræðingana, ekki ólíkt því sem nú er gert. Þetta viðurkennir Ingvar Pálmason hreinskilnislega sem einn hinna ólöglærðu, og Gísli Sveinsson sýslumaður sem einn hinna löglærðu lætur þessa skoðun óspart og ótvírætt í ljós um samþm. sína. Hann felist hins vegar á það í lokin að láta megi reyna á þessi lög í framkvæmd, enda megi þá vissulega breyta þeim síðar. Þáv. dómsmrh., Hermann Jónasson, kvaðst hafa mikla trú á því, að dómstólar mundu túlka lagaákvæðin vægilega og með varúð, eins og reynslan hefði verið síðustu áratugi, þótt bókstafur laganna væri að vísu allstrangur.

Það má líka sjálfsagt segja að ekki hafi mikið reynt á túlkun meiðyrðalöggjafarinnar um það bil hálfan fjórða áratug eftir að hún var sett, þótt nokkur kátleg dæmi séu til um það, svo sem þegar maður nokkur fékk uppnefni, sem rithöfundur einn hafði viðhaft um hann á prenti, dæmt dautt og ómerkt. En dómurinn varð hins vegar til þess, að viðurnefnið — það var strigakjaftur — sem áður var lítt þekkt festist við vesalings manninn og var hann naumast kallaður annað síðan.

En svo bar við sumarið 1974, eins og öllum er kunnugt, að þá upphófust hin umfangsmiklu málaferli vegna meintra ærumeiðinga sem ekki eiga sinn líka í íslenskri réttarsögu og í daglegu tali eru kennd við samtökin Varið land. Sá málatilbúnaður og dómar, sem upp hafa verið kveðnir, hafa öðru fremur fært mönnum heim sanninn um að brýn þörf sé orðin á að endurskoða meiðyrðalöggjöfina eins og framsýnustu menn sáu þegar fyrir að við mundi þurfa árið 1939. Í þeim stefnum og dómum væri af mörgu að taka til dæma, en eitt þeirra atriða varðar einmitt túlkun orða og ummæla. Fram hefur komið að stuðst er við Grágásarorðalag í 237. gr. a. m. k. En í Grágás segir um túlkun orða: „Hvert orð skal vera sem mælt er, en ekki skal að skáldskaparmálið ráða.“ Þetta þýðir, segir Gunnar Thoroddsen í doktorsriti sínu: Fjölmæli, með leyfi forseta: „Í óbundnu máli skal túlka hvert orð eftir venjulegri merkingu daglegs máls, en ekki samkv. þeirri sérmerkingu sem orðið kann að hafa í skáldskaparmáli.“

Þá segir einnig í Grágás um hálfréttisorð, að hálfrétti er það orð, „er ræður til hvors tveggja góðs og ills“ eða „færa má til hvors tveggja góðs og ills“. — „Hálfrétti varðaði almennt ekki við lög samkv. Grágás,“ segir Gunnar Thoroddsen í áðurnefndu riti. „Almennt eru þau vítalaus.“

Af þeim fjölmörgu orðum og ummælum, sem stefnt var út af í fyrrnefndum VL-málaferlum, skal einungis tekið sem dæmi orðið „mannvitsbrekka“, en í máli stefnenda gegn Úlfari Þormóðssyni blaðamanni var honum m. a. stefnt fyrir eftirfarandi orð: „Þessi hópur mannvitsbrekkna.“ Í aths. lögmanns stefnenda segir svo um þessi ummæli: „Stefnendur telja þessi ummæli móðgandi og refsa beri fyrir þau samkv. 234. gr. laga nr. 19 1940.“ Nú hefur merking orðsins „mannvitsbrekka“ vafist ekki lítið fyrir málfræðingum. Það er notað sem viðurnefni um tvær konur í Íslendingasögum, frænkurnar Ástríði mannvitsbrekku og Jórunni mannvitsbrekku.

Almennastur skilningur viðurnefnisins mun á þessari öld hafa verið einhvers konar „viskufjall“ eða sá klettur sem vitsmunir annarra stranda á. Er þessi skýring runnin frá þýska málfræðingnum Hugo Gering árið 1894, sem þýðir það á þýsku sem „Weisheitsklippe.“

Eldri skýring viðurnefnisins kemur hins vegar fram hjá skylt dönsku sögninni „brække“, enskunni „break“ og þýskunni „brechen“, „Männerwitzbreeherin“, þ.e. sú sem brýtur niður vit karlmanna eða töfrar og tælir horska hali: die verständige Männer bezaubernde.

Er þá talið að orðið maður hafi í fornmáli þýtt karlmaður eins og skyld orð í öðrum málum gera enn í dag. Finnur Jónsson skilur viðurnefnið hins vegar meira jarðlegum skilningi: Þar sem mannvitið var á þeim tíma talið eiga heima í brjóstholinu hafði orðið mannvitsbrekka átt við konu með sérlega þrýstinn barm.

Ekki er ljóst hvort stefnendur eða dómarar hafa talið einhverja af þessum skýringartilraunum móðgandi fyrir hina 12 horsku hali, en dauð og ómerk voru ummælin dæmd. Væri málfræðingum sjálfsagt þökk á að fá að vita hvaða skilningi orðsins stefnendur og dómarar höfðu komist að. En þetta er aðeins örlítið dæmi þess, hver vandkvæði hljóta að vera á túlkun þessara lagaákvæða. Úr því að á annað borð er verið að hjálpast við orðalag hinna gömlu þjóðveldislaga í 237. gr., þá hefði í rauninni farið betur á því að hafa refsinguna líka í fornum anda og láta liggja við fjörbaugsgarð eða skóggang. Það hefði verið álíka skiljanlegt og sökin sjálf. En samsvarandi grein í Grágás hljóðar svo:

„Ef maður bregður manni brigslum eða mælir honum áljót, þótt hann segi satt, og varðar fjörbaugsgarð.“ Hér er engan veginn ætlunin að gera lítið úr ákvæðum hinna fornu þjóðveldislaga. Við fyrstu sýn getur manni reyndar virst sem hinir frelsisunnandi forfeður okkar hafi verið furðulega orðsjúkir og hvumpnir gagnvart ummælum annarra, einkum þó ef þau voru í bundnu máli. Um þau efni segir m. a. svo í Grágás:

„Skóggang varðar, ef maður yrkir um mann hálfa vísu, þá er löstur er í eða háðung, eða lof það, er hann yrkir til háðungar.“

„Ef maður yrkir mansöng um konu, og varðar skóggang. Kona á sök, ef hún er 20 ára eða eldri. Ef hún vill eigi sækja láta, og á lögráðandi hennar sökina.“

En ekki ber að líta á þvílík ákvæði sem vott um venjulega spéhræðslu á okkar mælikvarða. Hér er um að ræða leifar af eldfornri trú á mátt orðsins, einkum kynngimátt skáldskaparins, sem orðið gæti að álögum. Þess konar trú er rótgróin meðal fólks á svokölluðu „frumstæðu“ menningarstigi sem ég vil alls ekki skilja niðrandi merkingu, en leifar þessarar trúar eða form hennar geta lifað og birst í ýmsum myndum löngu eftir að trúin sjálf er úr sögunni eða svo gott sem. Í dæminu um mansönginn felst til að mynda óttinn um það, að óæskilegur maður geti með töfrum skáldskaparins náð ástum konu. En meðan kona var nokkurs konar eign eða vara lögráðanda, sem nota varð við ábatasama hjúskaparsamninga, þá taldist nauðsyn að banna strengilega þvílíka truflun.

Hið sama er að segja um andúð hins svokallaðs „frumstæðs“ fólks á því að láta gera af sér myndir, eins og allir kannast við, vegna hættu á hermigaldri. En í þjóðveldislögunum er einnig ákvæði um tréníð eða að „skera manni tréníð“, og virðist þar vera átt við að gera myndir af mönnum í tré.

Sé þessi forna trú á mátt orðsins, skáldskaparins, galdursins, höfð í huga, þá verða ákvæði þjóðveldislaganna um fjölmæli og áþéttisorð mun skiljanlegri. Hitt er með meiri ólíkindum, að til skuli vera jafnorðsjúkir menn á síðari hluta 20. aldar. Og það er enn fremur sýnilegt, að þegar hálfdauður eða óljós bókstafur laga er gerður að hyrningarsteini án tillits til þeirra kringumstæðna sem ríktu þegar hann var settur, þá er hugsanlegt að beita honum næstum eins og um galdraáburð væri að ræða.

Í útvarpsþætti 13. des. s.l. komst Ólafur Jóhannesson dómsmrh. svo að orði um þessa löggjöf, með leyfi forseta:

„Ég tel nú að það sé þörf á endurskoðun og breytingum á meiðyrðalöggjöfinni. Ég verð hins vegar að játa að ég hef lítið leitt hugann að þessu. En þessi löggjöf er orðin gömul að stofni til og ýmsar aðstæður hafa breyst, t. d. varðandi fjölmiðlana. Ný fjölmiðlun hefur komið til o. s. frv.

Hins vegar verð ég að segja, að ég hefur nú ekki orðið var við mikinn áhuga á því, að breytingar væru gerðar á þessari löggjöf. Ég held að menn taki ekki þessa löggjöf mjög alvarlega nú og hún sé að verulegu leyti dauður bókstafur. Það er sjaldgæft að menn fari í meiðyrðamál. Það er nú næstum því daglegt brauð, að stóryrði og jafnvel aðdróttanir séu í dagblöðum, fjölmiðlum, en ég held að það sé t. d. alveg óþekkt að stjórnmálamenn eða ritstjórar séu að fara í meiðyrðamál. Menn telja þetta einhvern veginn ekki réttarvörsluúrræði sem dugi.

Hverjar breytingar ætti á þessu að gera? Það er nú svo, eins og ég sagði, ég hef ekki sérstaklega kannað það. Ég held þó að það væru vissar breytingar sem þörf væri á. Það þyrfti kannske að skoða þetta einmitt með tilliti til þeirra breytinga og þeirra nýju fjölmiðla sem hafa komið til, t. d. að ákvæðið um ómerkingu meiðyrða sé alveg úrelt orðið og heimskulegt því að það er ekki hægt að dæma orð dauð.“

Þetta voru ummæli hæstv. núv. dómsmrh. En hvað varðar ummæli hæstv. dómsmrh., að ekki hafi orðið vart við mikinn áhuga á breytingum, þá má vel vera að svo hafi ekki verið fyrr en á síðustu missirum. En hin umfangsmiklu VL-málaferli hafa þá einmitt vakið þann áhuga og sýnt fram á þörf breytinganna. Sá áhugi birtist hvað greinilegast á s. l. hausti þegar 78 þekktir borgarar stofnuðu „Málfrelsissjóð“ og gáfu af því tilefni út ávarp sem m. a. er undirritað af flestum skólameisturum landsins, forustumönnum listamannasamtakanna og verkalýðssamtakanna, forseta ASÍ og fyrrv. forseta lagadeildar Háskóla Íslands. Í ávarpinu segir m. a., með leyfi forseta:

„Allt frá tímum frönsku stjórnarbyltingarinnar hefur skoðana- og tjáningarfrelsi verið einn af hornsteinum þess lýðræðis sem þjóðir um norðanverða Evrópu og Ameríku hafa hafa hyllt og leitast við að festa í sessi. Réttarþróun í þessum efnum hefur mjög gengið í þá átt að rýmka málfrelsi í stjórnmálaumr.

Samkv. stjórnarskrá Íslands eiga þessi réttindi að vera tryggð Íslendingum, en með framkvæmd gildandi lagaákvæða um meiðyrði er hætta á að þessum réttindum verði í raun settar óæskilegar og ónauðsynlegar skorður.“

Tilefni þessa ávarps eru dómar þeir sem nýlega hafa verið kveðnir upp í Hæstarétti vegna ummæla sem fallið hafa í umr. um hersetuna, eitt heitasta deilumál þjóðarinnar síðustu þrjá áratugi. Með þeim hefur mörgum einstaklingum verið gert að greiða háar fárhæðir í málskostnað og miskabætur handa stefnendum.

Í tillögu okkar er gert ráð fyrir að Alþ. kjósi nefnd til að endurskoða löggjöfina um ærumeiðingar. Ég þykist nú sjá að það sé orðið nokkuð seint sem þetta kemur á dagskrá og kannske of seint til þess að slíka nefnd sé hægt að kjósa. En ég vil þó þakka hæstv. forseta fyrir að hafa leyft mér að flytja þessa framsögu, og í stað þess að leggja til, að þessari till. verði vísað til n., þá legg ég til að henni verði vísað til ríkisstj.