05.05.1978
Sameinað þing: 75. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4543 í B-deild Alþingistíðinda. (3926)

328. mál, Kröfluvirkjun

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Sú skýrsla, sem hér liggur fyrir, skýrsla um Kröfluvirkjun, er svar við beiðni á þskj. 81, en þó miklu viðameiri en beiðnin gefur tilefni til. Í skýrslunni, sem er nær 230 bls., er leitast við að rekja sögu þessa máls frá upphafi og leggja fram skýrar og greinargóðar upplýsingar um öll atriði málsins. Ef átt hefði að prenta upp allar grg. og bréf um þetta mál hefði skýrslan orðið miklu lengri og viðameiri, enda þá oft orðið um óþarfar endurtekningar að ræða, en allar þessar grg. og bréf, sem um málið fjalla, liggja frammi í iðnrn., eins og bent er á í formála skýrslunnar, og geta menn snúið sér þangað og kannað öll gögn þar sem þeir óska eftir.

Í formála skýrslunnar er m. a. drepið á ástæður þess að ráðist var í þessa hina fyrstu meiri háttar framkvæmd á háhitasvæði okkar. Þar segir m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Í svari við umræddri fsp. ætti að vera óþarft að geta ástæðu til þess að Alþ. samþykkti vorið 1974 lögin um Kröfluvirkjun, en hún var öðru fremur sú, að alvarlegur orkuskortur var yfirvofandi á Norðurlandi. Norðurlínan hefur nú bægt þessum skorti frá í bili, en kaflanum fyrir Hvalfjörð, sem var hinn veiki hlekkur línunnar, var hraðað og lokið á árinu 1977, en í fjárl. og lánsfjáráætlun hafði verið gert ráð fyrir að ljúka þessum kafla á þessu ári. Engu að síður er nauðsynlegt að Kröfluvirkjun verði tekin í notkun til frambúðar hið fyrsta. Nefna má til þess m. a. tvær ástæður. Önnur er sú, að öryggi orkuflutnings eftir svo langri línu sem Norðurlínu er auðvitað ekki það sama eins og að hafa virkjun nær markaði á sjálfu svæðinu, og það er eðlilegt að Norðlendingar æski meira öryggis heldur en fæst með svo löngum linum. Hin ástæðan er sú, að ef Krafla kemst ekki fljótlega í notkun, þá er búist við rafmagnsskorti, aflskorti, í landinu veturinn 1979–1980.

Á árinu 1974 ríkti mikil bjartsýni á að hægt væri að reisa jarðgufuaflstöð, er gæfi verulega lægra orkuverð en vatnsaflsstöðvar gefa, og einnig að byggingartími slíkra stöðva væri mun styttri. f þessu sambandi er rétt að benda á töflu um orkukostnað frá jarðgufuaflsstöð (bls. 17), er Orkustofnun birti í skýrslu árið 1973. Þar kemur fram að orkuverðið lækkaði mjög með stærð stöðvar.“ — Á sama tíma áætlaði Landsvirkjun að orkuverð frá Sigölduvirkjun yrði verulega hærra en Orkustofnun áætlaði verð frá jarðgufuaflsstöð. Þótti stjórnvöldum því eftir allmiklu að slægjast hér, enda flutti fyrrv. hæstv. ríkisstj. stjfrv. á Alþ. vorið 1974 um virkjun Kröflu og Alþ. samþykkti lögin einróma.

Þessari skýrslu er skipt í 5 meginkafla:

I. kaflinn fjallar um rannsóknir til undirbúnings virkjunarframkvæmdum við Kröflu. Þar eru raktar þær rannsóknir, sem farið höfðu fram á Námafjalls- og Kröflusvæðinu og tillögugerð og síðan ákvarðanataka og lagasetning Alþ. var byggð á.

Í II. kafla er m. a. greint frá lagasetningu, skipun framkvæmdaaðila og annarra stjórnunaraðila. Þá er getið um fyrstu störf Kröflunefndar, val ráðgjafarverkfræðinga, kaup aðalvéla og val á byggingarverktökum.

III. kafli fjallar um virkjunarframkvæmdir við Kröflu. Þar er skýrt frá framkvæmdum Kröflunefndar, Orkustofnunar og Rafmagnsveitna ríkisins. Þá er þar greint frá niðurstöðum efnisútboða og verksamninga. Rakinn er gangur borana og birtar skýrslur ráðuneyta um þær. Framkvæmdir við gufuveitu og útboð er þar rakin.

Í IV. kafla skýrslunnar eru rakin áhrif eldsumbrota og annarra náttúruhamfara á framkvæmdirnar við Kröflu. Í V. kafla er svo að lokum fjallað um byggingarkostnað Kröfluvirkjunar.

Eins og hv. þm. mun vera ljóst er mikið verk að taka saman jafnumfangsmikla skýrslu. Ég vona að með birtingu hennar sé varpað ljósi á mörg þau atriði, er máli skipta, og m. a. ýmislegt, sem sumir hafa reynt að gera tortryggilegt í þessu máli.

Sú skýrsla um Kröfluvirkjun, sem hér er á dagskrá í dag, 5. maí, var lögð fyrir Alþ. fyrir 11 dögum, mánudaginn 24. apríl. Ástæðan til þess, að skýrslan hefur ekki verið rædd fyrr, er sú, að þegar hún var á dagskrá Sþ. 25. apríl og ég ætlaði að gera grein fyrir henni, þá var fyrsti fyrirspyrjandi, Sighvatur Björgvinsson, vanbúinn þess að ræða málið. Hann heimtaði það tekið af dagskrá og var það gert. Þm. vissi þó að ég þyrfti daginn eftir að fara utan í opinberum erindum. En þótt hann hefði í fjögur ár eða heilt kjörtímabil helgað Kröfluvirkjun starfskrafta sína í ríkum mæli, þá treysti hann sér ekki til að taka þátt í umr. um málið nema eftir margra daga undirbúning og með aðstoð ýmissa Kröflusérfræðinga Alþfl., svo sem meðframbjóðanda síns á Vestfjörðum í síðustu kosningum.

Nú hafði hv. þm. samt sem áður öll þessi ár rausað um málið í tíma og ótíma innan þings og utan, innan og utan dagskrár. Samt sem áður treysti hann sér ekki til þess að fara í umr. um málið þegar það var á dagskrá Sþ. 25. apríl. Þegar þessi hv. þm. svo ræðst s. l. þriðjudag utan dagskrár að mér fjarstöddum með brigslum um vanrækslu í störfum, þá vissi þessi sami hv. þm. að það var hann sem kom í veg fyrir að skýrslan yrði rædd áður en ég fór utan. Hvað finnst þingheimi um framferði eins og þetta? Að mínum dómi er þetta blygðunarlaus blekking af hálfu þm.

Ég kem þá að næsta ranghermi þm. Hann segir í ræðu sinn hér í þingi s. l. þriðjudag:

„Samningu skýrslunnar var lokið um mánaðamótin jan.—febr. Hún var send iðnrh. sem sat á henni vikum saman og mánuðum án þess að leggja hana fyrir Alþingi.“

Og enn fremur segir hv. þm.; „Hæstv. iðnrh. hefur af ráðnum hug dregið vikum saman að afhenda Alþ. skýrslu sem alþm. kröfðust að fá og samin hafði verið.“

Allt eru þetta ósannindi og tilbúningur þm. Sighvats Björgvinssonar. Samkv. 31. gr. þingskapa geta þm. beðið ráðh. um skriflega skýrslu. Í þingsköpum er enginn tímafrestur settur, og vitanlega verður tíminn að ákvarðast af umfangi skýrslunnar og þeirri vinnu sem í hana þarf að leggja. Hv. 1. fyrirspyrjandi setti hins vegar í beiðni sína, að óskað væri þess, að skýrslan yrði tekin til umr. á Alþ. áður en afgreiðslu fjárl. og lánsfjáráætlunar fyrir 1978 lyki. Þessi tímasetning hv. þm. var auðvitað óraunhæf, hrein fjarstæða og út í hött en hún sýndi að þm. virtist ekki hafa hugmynd um hvað hann var að biðja um. Samning skýrslu um Kröfluvirkjun, þar sem dregin yrði fram mynd af þessu umfangsmikla máli með öllum þeim miklu skjölum og skýrslum, sem þar fjalla um, hlaut auðvitað að taka mjög langan tíma.

Strax ettir að þessi beiðni kom fram var hafist handa við vinnu að draga að gögn og safna heimildum. Það var safnað gögnum frá Orkustofnun, frá Kröflunefnd, frá ráðgjafarfyrirtækjum og öðrum þeim aðilum þar sem gögn voru fyrir hendi um þetta mál. Síðan þurfti að vinna úr þessum gögnum. Eins og ég gat um áðan var fráleitt að prenta allt frá orði til orðs sem skrifað hafði verið um þetta mál. Það hefði ekki aðeins orðið þykk bók, miklu þykkari en þessi sem hér hefur verið lögð fram, heldur verið þar mikið af óþörfum endurtekningum. Auk þess þurfti, eftir að safnað hafði verið gögnum, bréfum og skýrslum frá þessum aðilum, að fylla upp í eyður þar sem vantaði upplýsingar, því að það er auðvitað með hverja framkvæmd þannig, að ekki er allt sem er að gerast, skrifað jafnóðum í bréf eða skýrslur. Þessu verki öllu var ekki lokið fyrr en um 20. apríl.

Það eru alger ósannindi, að samningu skýrslunnar hafi verið lokið, eins og hv. þm. sagði á einum stað, í desember, á öðrum stað í janúarlok, og ég man ekki hvaða dagsetningar hann hefur fleiri. Þessu verki, samningu skýrslunnar, var ekki lokið fyrr en um 20. apríl og þá strax var hafin fjölritun á þessari skýrslu. Það var unnið að henni yfir helgi. Fyrstu eintökin voru tilbúin fyrir hádegi mánudaginn 24. apríl og eitt af fyrstu eintökunum var þann dag fyrir hádegi sent Sighvati Björgvinssyni sem fyrsta fyrirspyrjanda. Síðan var skýrslunni útbýtt á fundum Alþ. þennan sama dag. Á fundi Sþ. 25. apríl var málið svo tekið á dagskrá.

Ég vil taka það fram til frekari skýringar, að þessi skýrsla, sem hér er lögð fram, og sú skýrsla, sem beðið er um, var ekki grg. Orkustofnunar eða grg. Kröflunefndar, heldur skýrsla iðnrh. Það þýddi að ég hef að sjálfsögðu yfirfarið alla skýrsluna og öll þessi gögn, bætt því við sem ég taldi að ekki mætti vanta. Þetta var önnur rangfærslan í máli hv. þm., uppspuni frá rótum um að skýrslan hafi verið fyrir löngu til og ég hafi dregið það vikum og mánuðum saman, eins og hv. þm. segir, að leggja hana fyrir Alþ. Skýrslan var lögð fyrir Alþ. undireins og hún var tilbúin.

Hv. þm. gerði í sinni furðulegu ræðu hér utan dagskrár s. l. þriðjudag utanför mína að umræðuefni. Og hann komst svo að orði, að ráðh. væri fjarstaddur eins og landflóttamaður og þetta væri reginhneyksli, að manni skilst eitt af stærstu hneykslum sögunnar. Nú er það svo, að þessi utanför mín var ákveðin fyrir um það bil tveim mánuðum. Svo er mál með vexti, að það var ákveðið að að þessu sinni skyldi aðalfundur Járnblendifélagsins haldinn í Noregi, m. a. til þess að stjórnarmenn og aðrir hefðu tækifæri til að skoða þar verksmiðjur, m. a. verksmiðjur þar sem er nýjasta gerð af bræðsluofnum, lokaður ofn, en einnig til þess að þar gæfist kostur á að ræða við alla helstu forráðamenn og sérfræðinga félaga okkar í þessu fyrirtæki. Var sem sagt ákveðið fyrir um tveim mánuðum, að þessi fundur skyldi haldinn og þessi skoðunarferð skyldi farin í lok aprílmánaðar. Auk þessa erindis ætlaði ég að kynna mér nokkur atriði í sambandi við félagsmál, bæði í Noregi og Danmörku.

Hv. þm. sagði m. a., að auk þess sem ég hefði verið landflóttamaður, flúið land til þess að forðast það að þurfa að ræða um Kröflu við hann, hefði ég farið úr landi án vitundar forseta Sþ. Auðvitað eru þetta ósannindi eins og fleira sem kom fram hjá þessum hv. þm. Hæstv. forseti Sþ. vissi að sjálfsögðu um það, alveg eins og þessi hv. þm. vissi einnig um það, að ég mundi fara þennan dag, og ég hafði sagt honum einnig, að ég mundi væntanlega ekki kominn þennan s. l. þriðjudag, þegar hann svo smekklega reis hér upp í þingi utan dagskrár með svívirðingum um mig.

Þessi hv. þm. komst svo að orði, að iðnrh. sinnti ekki þingskyldum sínum, og krafðist þess, að hann kæmi heim sem fyrst til að sinna þingskyldum sínum. Það ætti náttúrlega að vera óþarft að taka það fram, en er þó rétt að gera það af þessu tilefni, að ráðh. hafa margvíslegum skyldum að sinna auk þingstarfa. Sumar þeirra skyldna eru ekki síður mikilvægar en seta á þingfundum, og þegar mismunandi skyldur ráðh. rekast á, þá verður auðvitað að gegna þeirri sem er talin mikilvægari, en hin verður að víkja. Þetta er mat, sem við allir verðum auðvitað oft að framkvæma. Og sumar skyldur ráðh. eru enn mikilvægari en sú skylda að sitja á þingfundi og hlusta á hávaðann í Sighvati Björgvinssyni.

Þessi hv. þm. taldi sér það sæma að deila á mig fyrir vanrækslu í skyldustörfum. Nú vita væntanlega allir hv. þm., sem hér eru staddir, að á s. l. vori fór þessi þm. af þingi, ekki í opinberum erindum. Hann lét ekki kalla inn varamann. Hann fór til útlanda að ég ætla í boði og á kostnað erlendra aðila. Hann vanrækti þar með þingstörf sín í nokkrar vikur, en auðvitað hélt hann fullu þingfararkaupi. Kannske hann hafi verið á einhverri siðvæðingarráðstefnu, því að allt gengur nú út á það hjá Alþfl. að siðvæða hina íslensku þjóð. Ef svo hefur verið, þá væri fróðlegt að heyra eitthvað um árangurinn af þessari siðbót. Er nú þessi hv. þm. þess umkominn að deila á aðra fyrir vanrækslu í þingstörfum? Hins vegar var kannske sá munurinn, að hans var ekki saknað.

Það eru margir, sem undrast það ofstæki, öfgar og vanstillingu sem svo mjög er áberandi bæði hjá þessum hv. þm. og sumum fleiri Alþfl.-mönnum. Þessi vanstilling og ofstæki hv. þm. kom m. a. fram hér fyrir skömmu. Það var einn hv. þm. sem gerði fsp. utan dagskrár út af frv. eða till. um sjónvarpssendingar á fiskimiðum. Þá kvaddi náttúrlega hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sér hljóðs og fór að tala um Kröflu. Þm. gekk illa að skilja samhengið milli Kröflu og sjónvarpssendinga á fiskimiðum, en ég leyfði mér að benda á þá áráttu hv. þm. nú undanfarin þing að þurfa innan dagskrár og utan að tala um Kröflu, þótt allt önnur mál og óskyld væru á dagskrá. Ég leyfði mér í góðlátlegu gamni að benda á hinn merka stjórnmálamann, Kató gamla, sem endaði allar sínar ræður um hvaða mál sem var á því, að Karþagó þyrfti að leggja í eyði, og það væri nú með þennan hv. þm., að hvaða mál sem væri á dagskrá, þá þyrfti hann að koma Kröflu að, því að hann hefði hana á heilanum. Svar hv. þm. við þessari góðlátlegu ábendingu vakti, held ég, undrun margra, því að svar hans var að líkja iðnrh. við geðveikan glæpamann, sem réði ríkjum í Rómaveldi um stund fyrir nærri 2000 árum.

Margir spyrja: Hvernig stendur á allri þessari vanstillingu, þessu ofstæki og þessum öfgum hjá þessum siðbótamönnum? Hún kemur fram, þessi vanstilling, hér í þingsölum hjá þessum hv. þm. hvað eftir annað, alveg eins og hún kemur fram hjá sálufélaga hans í „Kastljósi“ í sjónvarpi og víðar. En í rauninni er þetta ekkert undarlegt og þetta er ekkert nýtt. Þessir félagar hafa áður hafið árásir. Öllum er í fersku minni þegar þeir hófu hinar dæmalausu árásir á sínum tíma á hæstv. dómsmrh. með brigslum um alls konar afbrot. Allt hrundi þetta auðvitað eins og spilaborg hjá þessum mönnum. Kannske það hafi einnig sín áhrif sem gerst hefur núna síðustu daga og vikur þegar vissir hlutir hafa komist upp um samherja þeirra og heimildarmenn, að eitthvað sé úr lagi gengið með jafnvægið og þurfi nú að reyna að slá sig til riddara með þessum öfgum og ofstopa.

Ég taldi nauðsynlegt vegna hinnar dæmalausu framkomu hv. þm. Sighvats Björgvinssonar, ósanninda hans í minn garð, rangfærslna og blygðunarlausra blekkinga að rekja þetta mál hér nokkru nánar. Sannleikurinn er sá, að ef einhver snefill af sómatilfinningu væri til hjá þessum hv. þm., þá ætti hann að biðja opinberlega afsökunar.