06.05.1978
Efri deild: 103. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4603 í B-deild Alþingistíðinda. (3936)

282. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. minni hl. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég hef ekki ástæðu til að lengja störf þessarar d. um of, en það eru nokkur atriði sem ég þyrfti að víkja lítillega að frá því að seinast gafst kostur á að ræða þessi mál.

Ég vil fyrst þakka hv. form. fjh.- og viðskn. Ed, fyrir að hafa útvegað reikniaðstoð í sambandi við till. sem ég flyt á þskj. 871. Ég held að afgreiðsla þessa máls sýni gjörla hversu fráleitt það er af hálfu ríkisstj. að keyra mál af þessu tagi í gegnum báðar deildir þingsins á tiltölulega skömmum tíma og ætlast til þess að menn taki afstöðu til fjöldamargra reikningslegra atriða, prósentuhlutfalla og annarra stærða sem verka með mjög flóknum hætti hver á aðra. Annaðhvort verða menn að taka við því, sem að þeim er rétt, eða hafa góðan tíma til þess að meta þær breytingar sem gera þyrfti á frv.

Ég flyt á þskj. 871, eins og ég hef áður sagt, allmargar brtt. og ég tel, eftir að ég hef fengið upplýsingar um reikningslegar afleiðingar af samþykkt þessara till., að það leyni sér ekkert, að þær stefna í rétta átt og hér sé að sjálfsögðu fyrst og fremst um stefnumótun að ræða. Hitt er annað mál, að ef ég hefði haft þá reikningsaðstöðu að geta sett upp og látið reikna mismunandi tilvik, þá má vel vera að ég hefði hagað þessum till. með eitthvað öðrum hætti, því að eins og gefur að skilja er erfitt að hitta nákvæmlega á hið rétta ef maður hefur ekki reiknivélina alla í gangi meðan verið er að setja slíkar till. á blað. En eins og ég hef þegar tekið fram, er ljóst að till. mínar stefna í rétta átt. Þær eru auðvitað fyrst og fremst viðbrögð við þessu frv. og sýna hvers konar stefnumótun ég tel að eðlilegri væri.

Það fór alveg eins, þegar reiknimeistarar komu til sögunnar, og verið hafði við upphaf þessarar umr., að þeir reyndust reiðubúnir að reikna hver útgjöld og tekjutap fælust í till. mínum, en þeir gáfust alveg upp á að reikna hverjar tekjur ríkissjóður gæti haft af samþykkt till., og var þó enginn í vafa um það, sem athugaði till., að þær mundu hafa í för með sér verulegan tekjuauka fyrir ríkissjóð. Ástæðan er auðvitað fyrst og fremst tæknilegs eðlis.

Till., sem horfa til tekjuauka fyrir ríkissjóð, snerta fyrst og fremst skattlagningu fyrirtækja og rekstraraðila, og það verður að segjast eins og er, að það hefur alveg verið vanrækt að hlaða tölvur með upplýsingum um einstaka rekstrarþætti fyrirtækja, sem áhrif hafa á skattlagningu þeirra, svo að auðvelt væri að láta tölvurnar svara ákveðnum atriðum varðandi skattlagningu fyrirtækja.

Ég flyt á þskj. 871 þrenns konar tillögur. Í fyrsta lagi flyt ég till. sem snerta skattálagningu 1978 og 1979, sem sagt bæði á þessu ári og hinu næsta, og ég held að enginn, sem athugar þessar till., sé í neinum minnsta vafa um að þær munu hafa í för með sér stórfelldan tekjuauka fyrir ríkissjóð þannig að á þessum tveimur árum nái ríkissjóður talsverðu forskoti fyrir áhrif þessara till. sem ég hef lagt fram.

Í öðru lagi snerta till. mínar álagningu skatta á árinu 1980, og þá er það vafalaust rétt, sem fram kom við upphaf þessarar umr., að till. hafa í för með sér á því ári meiri útgjöld fyrir ríkissjóð en tekjur. Auðvitað mætti endurskoða þessar till. annaðhvort á þessu vori eða næsta hausti, eftir að ljóst lægi fyrir hver tekjuaukinn væri. En í því sambandi vil ég bara minna á að ekki er minnsti vafi á því, að frv. allt verður tekið til endurskoðunar áður en verður lagt á samkv. lögum á árinu 1980. Ég er sannfærður um að þegar álagning verður gerð á árinu 1980, þá stendur varla ein einasta tala í þessum væntanlegu lögum óbreytt. Þær munu allar breytast, ekki aðeins krónutölurnar vegna verðbreytinga, heldur einnig prósentutölurnar. Þær eru allar miðaðar við aðstæður líðandi stundar og eiga vafalaust eftir að taka breytingum. Einnig er ég sannfærður um að við nánari athugun málsins eigi menn eftir að reka sig á ýmsa vankanta þessa frv., enda þori ég að fullyrða að þeir þm. hér á Alþ. eru teljandi á fingrum annarrar handar sem eru færir um að gera grein fyrir öllum ákvæðum þessa frv. og skilja þau til fullnustu. Ég vil ekki fullyrða að ekki séu nokkrir þm. til hér sem eru fullkomlega klárir á því hvernig bakreikningur fyrninga kemur út í reynd.

Þeir eru áreiðanlega nokkrir, en þeir eru ekki margir. Þeir eru svo sannarlega ekki margir. Ég er því sannfærður um að þetta frv. á eftir að taka verulegum breytingum, jafnvel þótt það verði að lögum nú áður en álagning á sér stað.

Um þessa útreikninga vil ég að öðru leyti ekki segja margt. Talið er að hækkun persónuafsláttar, sem ég hef hér gert till. um og nemur 50 þús. kr., þ. e. a. s. hækkun úr 250 þús. kr., hafi í för með sér rúmlega 5 milljarða útgjöld fyrir ríkissjóð. Þetta þykir mönnum auðvitað harla kynlegt við fyrstu sýn. En ástæðan mun vera sú, að talsverður hluti af þessum persónuafslætti rennur til manna í gegnum útsvörin eða greiðslu útsvara og kemur til lækkunar á þeim, þannig að hér er ekki bara um að ræða lækkun á tekjuskatti, heldur um leið verulega lækkun á útsvari. Þetta setur auðvitað nokkurt strik í reikninginn. Svona er nú þetta skattakerfi orðið flókið, að það er erfitt að koma fram persónuafslætti í tekjuskatti án þess að það komi ekki talsverður partur af honum á sama tíma á útsvarið. Hins vegar væri út af fyrir sig ekkert óeðlilegt að lækka skattabyrði útsvarsgreiðenda, vegna þess að staðreyndin er sú, að núv. ríkisstj. hefur verið alveg sérlega dugleg að leggja flatan skatt á útsvarsgreiðendur sem kemur þyngst niður á lágtekjufólkinu. Þetta er flatur skattur sem lendir á allar tekjur, jafnvel hinar lægstu, og hann hefur einmitt verið hækkaður sérlega mikið í tíð þessarar ríkisstj. með hækkun sjúkratryggingagjalds, álagningu þess fyrst og svo hækkun þess á s. l. vetri.

Ég veit nú ekki hversu nákvæmlega á að fara í að gera grein fyrir þessum útreikningum. Ég hef fengið tvö plögg. Annars vegar er um að ræða útreikning á skattakerfi Ragnars Arnalds, eins og hér er merkt, og það eru hvorki meira né minna en 14 útskrifaðar síður úr tölvu og felur í sér samanburð á frv. með þeim breytingum, sem ég hef hér gert við það, og gildandi lögum. Ef maður á síðan að komast að niðurstöðu um það, hver sé munurinn á frv. samkv. tillögum mínum og frv. ríkisstj., verður að fara í aðra útskrift sem er engu styttri, einnig upp á 14 útskrifaðar síður og felur í sér samanburð á skattakerfinu eins og það er nú og frv. sem ríkisstj. hefur lagt fram. Það þarf sem sagt að fara í gegnum tvær tölvuútskriftir til þess að komast að niðurstöðu um þessi atriði. Við skulum vona að tölvan hafi ekki misstigið sig á þessari löngu leið og hafi komið þessu til skila með réttum hætti. En þetta sýnir nokkuð vel hversu flókið mál er hér um að ræða.

Eins og ég sagði áðan, þá sé ég ekki að öðru leyti að ástæða sé til að fjölyrða um till. mínar. Ég tel að útreikningarnir, sem lagðir hafa verið fram í þessu sambandi, séu góðra gjalda verðir og gott að hafa þá til samanburðar. En þeir koma ekki nema að takmörkuðu gagni vegna þess að það er engin tilraun gerð til þess að reikna tekjuhlið þessara brtt. Ég vil vekja á því athygli, að atvinnureksturinn í landinu mun velta á árinu 1978 u. þ. b. 800 þús. millj. kr., og miðað við reynsluna af fyrri árum, þegar komið hefur á daginn að réttur helmingur af veltu fyrirtækja lendir ekki í tekjuskatti, eru horfur á því, að á árinu 1978 renni um 400 þús. millj. kr. hjá garði án þess að lenda í tekjuskatti. Með því að gera verulegan uppskurð á núverandi álagningarkerfi hvað snertir tekjuskatt á félög er alveg vafalaust hægt að ná verulegum viðbótartekjum í ríkissjóð. Hversu stórar upphæðir er hér um að ræða er hins vegar ekki auðvelt að fullyrða neitt um, en ég verð að segja það alveg eins og er, að mér þætti ekki ólíklegt að hér gæti verið um að ræða 10 milljarða, svo ég nefni tölu sem vissulega er tekin af nokkru handahófi. Á árinu 1976 er talið að vergur hagnaður fyrirtækja hafi numið tæpum 20 milljörðum kr. Miðað við aukningu veltu milli ára frá árinu 1976 til ársins 1978 þætti mér ekkert ósennilegt, að um væri að ræða vergan hagnað fyrirtækja sem gæti verið milli 40 og 50 milljarða. Fyrirtækin sleppa, eins og ég hef margoft bent á, að verulegu leyti við að greiða tekjuskatt og álagður tekjuskattur félaga á s. l. ári nam aðeins 2870 millj. kr. Ég hef hins vegar getið mér þess til, að með þeim róttæku breytingum, sem ég hef gert hér till. um að gerðar verði á fyrningarreglum, gæti farið svo, að u. þ. b. fjórðungur af þessum verga hagnaði fyrirtækja yrði skattlagður, þ. e. a. s. 10 þús. millj. kr. Þetta er að vísu ágiskunartala sem ég verð að styðjast við eingöngu vegna þess að gögn eru svo ófullkomin af hálfu skattyfirvalda að ekki er hægt að tölvuvinna slíka áætlun. En ég held að þessi tala, sem ég hef hér nefnt, bendi eindregið til þess, að tekjur á árunum 1978, 1979 og 1980 yrðu ekki minni, heldur talsvert meiri af völdum samþykktar þessara till., sem ég hef lagt fram, heldur en útgjöldin.

Herra forseti. Um þetta mál mætti margt fleira segja, en vegna þess hversu naumur tími okkar er í dag læt ég þessi orð nægja.