06.05.1978
Efri deild: 103. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4612 í B-deild Alþingistíðinda. (3948)

299. mál, jöfnunargjald

Frsm. meiri hl. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur fjallað um frv. til l. um jöfnunargjald og hefur m. a. haft málið til meðferðar á sameiginlegum fundum með fjh.- og viðskn. Nd. Á sameiginlegan fund n. komu ýmsir aðilar og gáfu upplýsingar og báru fram ýmsar óskir: frá Félagi ísl. iðnrekenda, frá Verslunarráði Íslands, frá Alþýðusambandi Íslands og frá Iðju, félagi verksmiðjufólks. Auk þess kom á fund fjh.og viðskn. Ed. Klemens Tryggvason hagstofustjóri og skýrði verðhækkunaráhrif jöfnunargjaldsins.

Með þessu frv. er lagt til að lagt verði 3% gjald á innfluttar iðnaðarvörur í því skyni að vega upp á móti þeim söluskatti sem leggst á íslenska framleiðendur hliðstæðra vara, en nágrannalönd okkar búa almennt við virðisaukaskattskerfi, sem hefur ekki þau uppsöfnunaráhrif sem söluskattskerfi okkar hefur. Með frv. er því í fyrsta lagi stefnt að því að jafna á milli íslenskra framleiðenda og erlendra framleiðenda sem keppa hér á sama markaði, og leitast er við að meta þann mismun sem þessi mismunandi skattkerfi fela í sér. Þennan mismun mætti að sjálfsögðu jafna með því að taka upp hliðstætt kerfi hér því sem er í nágrannalöndunum, þ. e. a. s. virðisaukaskattskerfi, en ljóst er að nokkur tími mun líða þangað til slíkt kerfi muni komast á hér á landi, þótt yfirlýstur vilji sé fyrir hendi og nú liði óðum að því, að aðlögunartíminn varðandi EFTA-aðildina renni út og því sé enn þá brýnni nauðsyn til þess að sé sem jöfnust aðstaða íslensks iðnaðar og erlends iðnaðar. Íslenskur iðnaður hefur átt við vaxandi erfiðleika að etja og þar sem, eins og ég gat um áður, stutt er þangað til þessi aðlögunartími rennur út, þá er mikilvægt að hann verði ekki fyrir verulegum áföllum á þeim stutta tíma sem eftir er. Ég er ekki með því að segja, að þetta gjald muni skipta þar algerum sköpum, en það mun þó verka í þá átt að jafna þessa samkeppnisaðstöðu.

Það er ljóst að þetta gjald verkar ekki aðeins í þá átt að jafna samkeppnisaðstöðuna, heldur mun álagning þessa gjalds leiða til þess, að nokkrar tekjur muni koma í ríkissjóð. Áætlað er að þessar tekjur nemi 675 millj. kr. á árinu 1978 og 1080 millj. á árinu 1979 eða á ársgrundvelli

Í 3. gr. frv. er fjallað um á hvern hátt þessum tekjum skuli varið, en þar kemur fram að gert er ráð fyrir að tekjum af jöfnunargjaldi verði að hluta til varið til eflingar iðnþróun, eftir því sem ákveðið verður við setningu fjárl. hverju sinni. Lagt er til að ríkisstj. ráðstafi því fé, er innheimtist árið 1978, og mun því fyrst og fremst varið til þeirra viðfangsefna á sviði iðnaðar sem upp eru talin í fjárl. fyrir árið 1978.

Það er skoðun og álit meiri hl. fjh.- og viðskn., að eðlilegast væri að verja þessu fé til greiðslu á uppsöfnuðum söluskatti fyrri ára. Síðan er nauðsynlegt að gera sér glögga grein fyrir því, en það hefur ekki legið fyrir n., hvað þurfi í hlut ríkissjóðs, m. a. vegna niðurfellingar á súkkulaðigjaldi og vegna áhrifa þessarar hækkunar á launakostnað ríkissjóðs, og því sem eftir verður verði svo varið eftir því sem best verði við komið til ýmissa viðfangsefna á sviði iðnþróunar, en fjöldamörg verkefni liggja fyrir varðandi það atriði og margvíslegar óskir hafa verið fram bornar, m. a. á fundum nefndarinnar.

Nokkuð hefur verið um það deilt, hvaða áhrif þetta gjald mundi hafa á vísitölu framfærslukostnaðar, verðlagsvísitölu, og þar með á launakostnað í landinu. Ýmsar tölur hafa verið nefndar í þessu sambandi. M. a. kemur fram í ályktun Verslunarráðs Íslands, að það megi áætla að þetta muni nema um 1%. Iðnrekendur hafa hins vegar gert ráð fyrir því, að þessi áhrif yrðu á bilinu 0.1–0.2%. Til þess að fá þessi mál sem best skýrð fékk n. á fund sinn Klemens Tryggvason hagstofustjóra, en Hagstofan hefur mesta reynslu og gleggstar upplýsingar um áhrif sem þessi og þess vegna tel ég rétt að byggja fyrst og fremst á áliti Hagstofunnar í þessum efnum. Hagstofustjóri sagði að vísu að erfitt væri að áætla þetta nákvæmlega, en taldi hins vegar eðlilegt að áhrifin af innfluttu vörunum, þ. e. a. s. þegar þetta gjald legðist á innfluttu vörurnar, yrðu um 0.2%. Hins vegar sagði hann, að erfiðara væri að áætla innlendu áhrifin, þ. e. a. s. hugsanlegar verðhækkanir á innlendum iðnaðarvörum sem gætu komið í kjölfarið. Hann taldi þó að hér mundi vera um óverulegar hækkanir að ræða, en taldi hins vegar rétt að áætla þessi áhrif 0.1% eða heildarverðhækkunaráhrif 0.3%. Hann gat þess einnig, að hvernig sem á þetta væri lítið, þá væri hér um óveruleg áhrif að ræða í þeim miklu verðhækkunum sem eiga sér stað í þjóðfélaginu og við höfum átt í erfiðleikum með að glíma við. Ég tel hins vegar rétt að láta það koma fram, að hann taldi þetta vera áætlun sem vel væri byggjandi á.

Ég sé ekki ástæðu, herra forseti, til að fjölyrða frekar um þetta mál, en vil aðeins ítreka, að meiri hl. n. leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt, en minni hl. mun skila séráliti.