06.05.1978
Efri deild: 103. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4617 í B-deild Alþingistíðinda. (3954)

217. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. meiri hl. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur haft til meðferðar frv. til l. um breyt á l. um tollskrá o. fl., en frv. þetta er fyrst og fremst flutt af ýmsum tæknilegum ástæðum og eins til þess að standa við samþykktir sem við stöndum að á alþjóðavettvangi, og þess vegna er hér um tiltölulega einfalt mál að ræða.

Breytingar þær, sem gerðar eru, eru fyrst og fremst ýmsar breytingar til leiðréttingar. Á árinu 1976, í árslok 1976, voru gerðar nokkrar lagfæringar á tollum, bæði varðandi iðnaðinn, sjávarútveginn og landbúnaðinn, og þá var ekki gengið þannig frá málum að fullt samræmi væri á milli tollflokka. Þetta átti sérstaklega við um nokkur landbúnaðartæki, en tollur á þessum tækjum verður almennt 2% í ársbyrjun 1979. Hæstv. fjmrh. flutti í Nd. nokkrar brtt. sem miðuðu að því að leiðrétta þessa hluti og nokkra aðra, m. a. að færa þar til samræmis ámoksturstæki og hjóladráttarvélar, heyhleðsluvagna og hluti til þessara vagna. Með þessu er komið á þeim lagfæringum, sem stefnt var að að koma á á árinu 1976, og ættu því landbúnaðurinn og sjávarútvegurinn að búa við góð kjör varðandi toll á hinum ýmsu vélum, en hann er aðeins 2%, sem er lægsti tollur sem gerist í þessari tollskrá.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál. Það er fyrst og fremst tæknilegs eðlis og einnig hafa verið gerðar þar nokkrar leiðréttingar. Ég vil aðeins endurtaka að meiri hl. n. leggur til að frv. verði samþ. með þeim breytingum sem samþykktar voru við meðferð málsins í Nd., en minni hl., Ragnar Arnalds, mun skila séráliti. Jón Árm. Héðinsson og Albert Guðmundsson tóku ekki þátt í afgreiðslu málsins í nefndinni.