06.05.1978
Efri deild: 103. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4617 í B-deild Alþingistíðinda. (3955)

217. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. minni hl. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Eins og ég tók fram við 1. umr. málsins er ætlun mín að freista þess að koma fram nokkrum efnislegum breytingum á tollskránni, en ég er hins vegar ekki andvígur þeim till. sem fólgnar eru í fyrirliggjandi frv. Þessar till. mínar snerta einkum tolla á vélum, tækjum til fiskiðnaðar, útgerðar og landbúnaðar, en einnig varða þessar till. málefni sykursjúkra.

Við 1. umr. málsins benti hv. þm. Jón Helgason, 4. þm. Suðurl., á það, að við meðferð málsins í Nd. hefði verið bætt inn nokkrum efnislegum breytingum á tollskránni sem fælu í sér lækkun á tollum á vélum til landbúnaðar. Ég skal fúslega viðurkenna, að ég hafði ekki orðið var við þessar breytingar, en í þessu tilviki má segja eins og oft áður, að batnandi manni er best að lifa og vissulega horfa þessar breytingar til hins betra. Hér er um að ræða liði nr. 4 og 5 á þskj. 917, ámokstursvélar, hjóladráttarvélar og heyhleðsluvagna. Það ber vissulega að þakka fyrir, að við meðferð þessa máls í þinginu hefur verið fallist á ofurlitla breytingu til batnaðar í þágu landbúnaðarins. Auðvitað þarf ekki nokkur að efast um, hvers vegna meiri hl. gekkst inn á að breyta þessum ákvæðum. Það var einfaldlega vegna þess, að Lúðvík Jósepsson, formaður Alþb., flutti við meðferð málsins í Nd. till. efnislega shlj. þeim, sem ég flyt hér í Ed. Þess vegna varð sú breyting á frv. sem raun ber vitni, en upphaflega fól það ekki í sér neinar raunverulegar efnisbreytingar. Mér finnst nú satt best að segja, svo að maður segi það alveg hreint út, að þessar breytingar, sem ríkisstj. virðist hafa samþykkt að gerðar yrðu á tollskrá til hagsbóta fyrir landbúnaðinn, séu heldur lítilfjörleg dúsa í munn þeirra sem vilja hag landbúnaðarins sem mestan. Ég held að það hafi verið hægt að ganga miklu lengra í þessum efnum. Ég bendi hv. þdm. á að nú þegar hefur verið farið inn á þá braut að framkvæma efnislegar breytingar á tollskránni. Og því ekki að sigla í kjölfarið og bæta nokkrum breytingum við? Það teldi ég vissulega eðlilegast með hliðsjón af því sem á undan er gengið.

Ég gerði ítarlega grein fyrir brtt. okkar við 1. umr. málsins og sé enga ástæðu til að fara að endurtaka það sem ég sagði þá. Það er ríkjandi talsvert ósamræmi í tollmeðferð á vélum og tækjum til hinna ýmsu atvinnugreina. Vélar og tæki til landbúnaðar eru hærra tollaðar en hliðstæðar vélar til iðnaðar, og það sama má segja um vélar og tæki til fiskiðnaðar og útgerðar. Ég geri sem sagt hér í Ed. tilraun til þess að knýja fram leiðréttingu á þessari mismunun. Ég tel ekki að hér sé um neitt stórmál að ræða fyrir ríkissjóð, hæstv. fjmrh. þarf ekki að sjá á bak miklum fjármunum þótt þessi till. verði samþykkt, en hér er um augljóst sanngirnismál að ræða. Ég tel að forsvarsmenn landbúnaðar hljóti að styðja svo sjálfsagt réttlætismál. Þótt þeir hafi að vísu kannske ekki brugðist nægilega vel við við fyrstu sýn þegar þessar till. voru kynntar hér í d., þá trúi ég ekki öðru en að nánar athuguðu máli muni þeir fúsir að veita þessu máli lið.

Um þá till., sem ég flyt hér og snertir sykursjúka, er kannske ástæða til að fara örfáum orðum vegna þess að hún hefur ekki áður verið flutt hér í þinginu. Eins og nú er eru sykurvörur, hvers konar sykur, tollfrjálsar, það er enginn tollur á venjulegum sykri, hvort sem um er að ræða venjulegan strásykur, púðursykur eða annan hrásykur. Á sama tíma eru fæðutegundir, sem sérstaklega eru víða í tollskránni, en þó alveg sér í lagi undir tollskrárliðnum 21.07.03 sem þannig er orðaður: „Neyðarmatvæli í auðkenndum umbúðum, svo og fæðutegundir sérstaklega gerðar fyrir sykursjúka.“ Ég tel það sjálfsagt réttlætismál, að þessu verði breytt þannig að sykursjúkir þurfi ekki að greiða þyngri skatta til ríkisins af þeim vörum, sem þá vanhagar um, en aðrir neytendur.

Ég get upplýst hér að þessi liður, 21.07.03, inniheldur tvenns konar matvæli. Annars vegar er um að ræða fæðutegundir sérstaklega gerðar fyrir sykursjúka og þær námu að verðmæti cif. 1976 3.5 millj. kr. Hins vegar er um að ræða neyðarmatvæli sem eru í auðkenndum umbúðum og notuð eru í gúmmíbjörgunarbáta. Nú er ég út af fyrir sig ekkert sérstaklega að knýja það fram, að tollur verði lækkaður á matvælum í gúmmíbjörgunarbáta, en það vill nú bara svo til, að þetta er í sama tollskrárnúmerinu og ég hef ekki séð ástæðu til þess að leggja þá vinnu í brtt. að skipta þessum vörutegundum upp, þannig að tollurinn haldist örugglega á matvælunum í gúmmíbjörgunarbátana. Mér sýnist að það væri allt í lagi þó að þau matvæli flytu með og tollur á þeim lækkaði einnig, enda um að ræða nauðsynjamál sem ástæðulaust er fyrir ríkissjóð að tolla sérstaklega. Ég hef því látið þessi matvæli fylgjast að og gert ráð fyrir að tollur verði felldur niður á þessum lið eins og hann leggur sig. Ég hef þegar upplýst hvert er tollskrárnúmerið. Samkv. upplýsingum, sem við fengum í gær frá starfsmanni fjmrn., sem til okkar kom, var cif.-verðmæti þessa tollvöruliðs árið 1977 1.5 millj. kr. Tollurinn er 20% og lagt er til að hann verði felldur niður. Hér er því ekki nema um tiltölulega litla tekjulækkun að ræða, væntanlega tekjulækkun sem nemur um 300 þús. kr.

Ég sé svo ekki herra forseti ástæðu til að fjölyrða frekar um þessar till. Þær skýra sig nokkuð sjálfar.