06.05.1978
Efri deild: 103. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4620 í B-deild Alþingistíðinda. (3958)

217. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. minni hl. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég vildi segja þetta eitt í tilefni af ræðu hv. þm. Jóns Helgasonar: Það er rétt, ég nefndi þessar fáu breytingar, sem fengist hafa fram varðandi landbúnaðartækin, dúsu, en ég nefndi þær ekki ómerkilega dúsu, það er rangt. Þetta er nefnilega merkileg dúsa. Ég tel að þetta sé skref í rétta átt, ánægjulegt skref, tók reyndar fram að batnandi manni væri best að lifa og að fagna bæri hverju skrefi í rétta átt. Ég verð að bæta því einu við, að auðvitað er ekki nokkur einasti maður í Nd. Alþ., sem fylgdist með framgangi tollskrármálsins þar, í vafa um hvers vegna afgreiðsla tollskrárfrv. dróst svo úr hömlu í d. að það er nú, fáeinum klukkutímum fyrir þinglok, að koma til 2. umr. hér. Ástæðan var einfaldlega sú, að eftir að formaður Alþb., Lúðvík Jósepsson, hafði lagt fram till. sínar um lækkun tolla á landbúnaðartækjum upphófust langvinnar samningaviðræður um dúsuna, um það, hvað hægt væri að fallast á þannig að þeir framsóknarmenn teldu sig hafa bjargað andlitinu. Þetta er sannleikur málsins, sannleikur sem allir þekkja í Nd., en menn virðast ekki gera sér fullkomlega grein fyrir hér í Ed. Er þó kominn tími til. En eins og ég segi, þá ber að þakka fyrir hvert lítið skref sem stefnir í rétta átt.