06.05.1978
Efri deild: 103. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4621 í B-deild Alþingistíðinda. (3962)

309. mál, almannatryggingar

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Þar sem hér er um eiginlegt stjfrv. að ræða, þó að það sé flutt af heilbr.- og trn. Nd., og þar sem hæstv. ráðh. sá ekki ástæðu til þess að mæla fyrir frv. við 1. umr. þess, þá hefði auðvitað verið ágætt að hann hefði verið viðstaddur til þess að hlýða á umr. En ég get náttúrlega talað það lengi, að hæstv. ráðh. verði kominn hér, því að svo ótæpilega hafa þeir stjórnarsinnar hér í d. talað nú að undanförnu, að ekki væri mikið þó að maður eyddi svo sem klukkutíma í svo viðamikinn lagabálk sem þennan, eða jafnvel eins og tveim tímum, til þess þó að jafna metin. Þeir stjórnarsinnar hafa haldið langar og miklar ræður núna, og sýnist ekki vera að þeim hafi legið mikið á að afgreiða sín mál. Hafa þeir þá treyst á sinn sterka og mikla meiri hl. í hverju einu.

Almannatryggingalögin eru auðvitað það stór og þýðingarmikill lagabálkur og hann snertir það marga, að það hlýtur að vera bagalegt að ekki gefist meiri tími til umr. almennt um almannatryggingalögin og hina ýmsu þætti þeirra á Alþ. þegar þau loksins koma úr hinni margumtöluðu endurskoðun almannatryggingalaga sem staðið hefur yfir allt þetta kjörtímabil. Það er víst og satt, tryggingalögin snerta marga og þó að á þeim hafi verið gerðar ítrekaðar úrbætur, þá eru alltaf viss atriði sem koma til álita til bóta, en viss vafaatriði einnig, sem gott er að fá úrskurð um og hreinna orðalag um. Ég veit að tryggingaráð fær oft — allt of oft — til umsagnar og úrskurðar vafaatriði sem betra væri að væru hreinlega svo skýr í lögunum að enginn vafi væri á og tryggingaráð þyrfti ekki að eyða tíma sínum í að vera að athuga með úrskurð um þau.

Hér er um að ræða frv. sem ég út af fyrir sig styð og tel til bóta. Ég er aðeins að gagnrýna þau vinnubrögð, sem við hafa verið höfð, og skal þá fara allt aftur til þess tíma sem þessi endurskoðunarnefnd var sett á laggirnar. Hún hefur án efa ýmislegt gert. Endurskoðunin hefur leitt af sér þessi tvö lagafrv., sem við höfum séð í vetur, stjfrv. um almannatryggingar. Annað frv. vil ég kalla gott frv., en hitt vont. Um tíma leit út fyrir að það væri algert skilyrði, að með hinu góða frv. skyldi hið vonda fylgja með góðu eða illu. Ég hefði eiginlega viljað hafa hæstv. ráðh. hér inni beinlínis til þess að þakka honum fyrir að hafa snúið frá í því efni. Ég fullyrði, að það hefðu ekki allir hæstv. ráðh. gert að snúa þannig frá staðföstum ásetningi sínum um þessi tvö frv. og komast að samkomulagi við stjórnarandstöðuna um að láta hina betri hluta eina, sem auðvitað eru útgjaldaaukandi einnig, koma til afgreiðslu á Alþingi. Ég tek sem dæmi, að í Nd. voru komnar fram brtt. frá hv. þm. Vilborgu Harðardóttur sem snerti vissan þátt þessara mála, og áður en málið kom til 1. umr. í Nd., til þeirrar endanlegu umr. sem um þetta frv. átti að vera, hafði verið tekið tillit til þessara brtt. hennar. Hæstv. ráðh. hefði einmitt beitt sér fyrir því, að sú breyting kæmist inn í þetta frv. Og þó að þar sé um stjórnarsinna að ræða, sem er hv. þm. Oddur Ólafsson, þá kom hann fram með mjög mikilvæga breytingu, sem ég fagna, ekki síst vegna þess að ég var með þáltill. hér á ferðinni varðandi sérstaklega athugun á atvinnumálum öryrkja sem samþ. var í fyrra. Þó að þar væri um stjórnarsinna að ræða og það góðan stjórnarsinna og drottinhollan hæstv. ráðh., þá var þetta engu að síður vel gert og líka vel gert af hæstv. ráðh. að taka þetta ákvæði, sem kom beint frá hv. þm. Oddi Ólafssyni, inn í þetta frv. Ég harma því eiginlega, að hæstv. ráðh., sem lofið eiga skilið, skuli ekki vera viðstaddir þá sjaldan maður getur hælt þeim. Ég verð að biðja hæstv. forsrh. um að bera hæstv. sjútvrh. þetta lof, því að hér er óneitanlega um það að ræða, að hæstv. ráðh. hefur tekið tillit til óska stjórnarandstöðunnar að verulegu leyti, sem er miklu meira en hægt er að segja um ýmsa aðra hæstv. ráðh.

Hins vegar skal ég aftur víkja að vinnubrögðunum í sambandi við endurskoðunina. Á því tímabili komu vissulega til umr. hér á Alþ. mörg frv. og margar till. um almannatryggingar og úrbætur á þeim. Var öllum þessum till. vísað til þessarar endurskoðunarnefndar, beinlínis vísað til ríkisstj. þar sem hún væri með nefnd í málinu til endurskoðunar á þessu öllu. Nú hefur komið glögglega í ljós, að þessi ágæta endurskoðunarnefnd hefur aldrei athugað þessi lagafrv. og ekki kannað gaumgæfilega hvers eðlis þau væru, hversu sanngjörn eða hve mikið tillit ætti að taka til þeirra óska sem þar kæmu fram. Ég veit ekki við hvern er að sakast, hæstv. ríkisstj. eða hæstv. ráðh. e. t. v., fyrir að hafa ekki komið þessum frv. á framfæri. Þó hygg ég að það sé ekki höfuðmálið, heldur hafi nefndin verið staðráðin í því, eða meiri hl. nefndarinnar, kannske sérstaklega formaður hennar, að vera ekkert að hlusta á slíkt röfl á Alþ., heldur halda sitt strik með það, sem honum sýndist gott eitt, sbr. það að ég heyrði utan að mér og tek ekki á því neina frekari ábyrgð, að formaður þessarar endurskoðunarnefndar hafi furðað sig á því, að það skyldu allt í einu farnar að koma breytingar við þetta frv. frá Alþingi. Alþingi ætlaði sér nú að fara að skipta sér af þessu sem hann hefði verið að baksa við með embættismönnum sínum. Hann var alveg steinhissa á því, að við ætluðum að fara að skipta okkur af þessari löggjöf. — Þetta heyrði ég utan að mér. Ég vil sannast að segja ekki trúa því, en engu að síður eru þetta þó það vel staðfestar fréttir, að ég hygg að það sé mikið til í þeim. Ef svona hugsunarháttur hefur ríkt, þá er ekki von að nefndin hafi verið að líta á frv. frá einstökum þm. Þeim till., sem við Alþb.-menn höfum flutt hér, höfum við komið á framfæri við n. eftir allt öðrum leiðum, við fulltrúa okkar þar.

Ég vil segja að það sé ekki að ástæðulausu sem j-liður 8. gr. er kominn inn í þetta frv., því að við hv. þm. Stefán Jónsson höfðum ítrekað við góðar undirtektir margra þm. flutt frv. um að tekið yrði tillit til hins óhjákvæmilega ferðakostnaðar sem fólk utan af landsbyggðinni yrði fyrir þegar það þyrfti að koma hingað til Reykjavíkur á fund sérfræðinga og það oft til ítrekaðrar meðferðar. Nú er inn í þetta frv., góðu heilli, komið ákvæði sem var upphaflega þannig að greiða óhjákvæmilegan ferðakostnað eftir reglum sem tryggingaráð setur og ráðh. staðfestir, fyrir sjúklinga sem þarfnast ítrekaðrar meðferðar hjá lækni eða á sjúkrahúsi með eða án innlagningar. Þessu var þá breytt í Nd. þannig, til hins lakara að mínu viti, að þar stóð: „óhjákvæmilegan ferðakostnað með takmörkunum.“ Þetta atriði er þá auðvitað komið undir geðþótta tryggingaráðs.

Það eru ágætir menn í tryggingaráði, en þeir hafa verið ákaflega íhaldssamir, svo að ekki sé meira sagt, um alla túlkun á þeim ákvæðum sem þeir hafa átt úr að skera, og veitir sjálfsagt ekki af, því að visst aðhald þarf vissulega að hafa. Ég er þess vegna ekkert sérlega hress með þá breytingu sem heilbr.- og trn. hefur gert á þessu frá því sem þetta kom upphaflega frá hæstv. ráðh., þar sem sagt var: „óhjákvæmilegan ferðakostnað, eftir reglum sem tryggingaráð setur.“ Þá hlutum við að reikna með því, enda skýrt þannig fyrir okkur, að þar væri um allan ferðakostnað að ræða, það væri aðeins spurningin um hvaða sjúkdómar ættu að koma inn í þetta og hvaða flokkar sjúkdóma það yrðu sem inn í þetta kæmu, sem tryggingaráð ætti að hafa yfirumsjón með.

Það er ekki hægt að neita því heldur, að ýmsar aðrar breytingar á frv. eru til bóta, en miklu skemmtilegra hefði nú verið ef menn hefðu getað rætt þessi viðamiklu mál, þá loksins frv. frá ríkisstj. fást rædd í alvöru á þessu kjörtímabili, í rólegheitum og komið athugunum sínum á framtæri, ekki síst í ljósi þess, að hæstv. ráðh. hefur reynst við afgreiðslu þessa máls nú miklu skilningsríkari en maður á að venjast af hálfu hæstv. ráðh. þessarar ríkisstj. Ég hygg því að atriði eins og þau sem ég er að flytja brtt. um hér og endurflyt þar með brtt. úr Nd. frá hv. þm. Vilborgu Harðardóttur, sem eru beinlínis komnar frá Tryggingastofnun ríkisins, frá vissum aðilum þar, sem gerst þekkja til og segja að þarna sé um atriði að ræða sem einhverja leiðréttingu verði að fá á, — að einhver leiðrétting þessara atriða hefði fengist þegar hæstv. ráðh. er í slíkum sáttahug sem hann hefur verið í þessa síðustu daga. Þess vegna hefði verið ágætt að fá til umráða lengri tíma, enda skal ekki standa á mér að vera hér í allan dag og mánudaginn einnig, ef það mætti fá enn frekari breytingar og lagfæringar á þessu máli heldur en nú þegar eru á því orðnar.

Í n. hjá okkur voru uppi spurningar varðandi ferðakostnaðinn, og ég hygg a. m. k. að hv. 12. þm. Reykv. geti, miðað við það dæmi sem hann tók þar, ekki komist hjá því að spyrja hæstv. ráðh. um viss atriði í því efni og fá um þau einhverja yfirlýsingu, ef unnt er. En ég skal ekki nánar fara út í það hér. Ljóst er að með þeirri breytingu, sem varð á reglum um ferðakostnað í Nd., er tryggingaráði gefin aukin heimild til þess að skerða endurgreiðslu ferðakostnaðar frá því sem hæstv. ráðh. ætlaðist til í upphafi. Það er alveg ljóst. Og þó að ég treysti þeim ágætu mönnum þar vel, þá treysti ég þeim líka mátulega vel til þess að túlka þetta á þann hátt sem ég hefði gjarnan viljað og fólst m. a. í frv. okkar hv. þm. Stefáns Jónssonar á sínum tíma, þar sem Alþ. blátt áfram setti reglurnar — eins og eðlilegt er — og það átti svo ekki að þurfa að vera að vefjast fyrir tryggingaráði eða einhverjum deildarstjórum í Tryggingastofnun hvað skyldi gilda í hverju og einu varðandi ferðakostnað þessa fólks, sem þarf ítrekað á sérfræði- og læknisaðstoð að halda og verður að sækja hana hingað á höfuðborgarsvæðið. Við höfðum að vísu líka, við hv. þm., gert aðrar tilraunir með því að óska eftir að sérfræðiþjónustan á heilsugæslustöðvunum væri betur skipulögð og reynt yrði að beina sérfræðingunum meira til fólksins í stað þess að fólkið þyrfti sífellt að sækja til þeirra hingað suður, og vorum sannfærðir um það og erum sannfærðir um það enn, að sú skipan væri miklu heilladrýgri og einnig miklu ódýrari í raun fyrir alla aðila og þá ekki síst fyrir samfélagið.

Ég veit ekki hvað ég á að fara nánar út í þetta mál hér, fyrst hæstv. ráðh. er horfinn svo harkalega af vettvangi. En ég vildi þá aðeins víkja að þeim brtt. sem ég hef leyft mér að flytja og ég hefði sannarlega viljað fá að heyra álit hæstv. ráðh. á, þó alveg sérstaklega á e-lið þeirra brtt. (Forseti: Má ég vekja athygli hv. þm. á því, að það er e. t. v. úrræði í þessu efni, ef við fáum ráðh. við 3. umr.) Já, já, það er möguleiki, ég fagna því, hæstv. forseti, þó að ég geti ómögulega þá, svona rétt fyrir kosningar, farið að endurtaka það lof sem ég bar á hann áðan fyrir að hafa komið svo mjög til móts við stjórnarandstöðuna sem raun ber vitni og ber óneitanlega að þakka. Ég ætla þá að fara yfir þessar till.

Það er í fyrsta lagi í sambandi við 3. mgr. í 12 gr. laganna, þ. e. varðandi örorkumatið. Í núgildandi lögum er á valdi eins manns að úrskurða hér um, þ. e. a. s. tryggingayfirlæknis. Það stendur í greininni: „Tryggingayfirlæknir metur örorku þeirra, sem sækja um örorkubætur.“ Ég er ekkert að draga úr því, að tryggingayfirlæknir geti verið hinn ágætasti maður og hann vilji allt vel gera. En ég dreg alltaf í efa óskeikulleika manna, hvort sem þeir heita tryggingayfirlæknar eða hvaða nafni sem þeir nefnast og hvaða nafn þeir hafa, bæði að fornafni og eftirnafni. Ég gerði tilraun og vildi gera tilraun, eins og við höfum fengið ábendingu um ofan úr Tryggingastofnun, til þess að breyta þessu þannig að lífeyrisdeildarstjórinn, sem er þessum málum geysikunnugur, fjallaði hér einnig um og einnig félagsráðgjafi vegna þeirra félagslegu ástæðna sem oft koma inn í þetta mál.

Þarna væri því um þrjá aðila að ræða. Þá segja menn: Ja, það er til tryggingaráð og tryggingaráð er þó yfir tryggingalækni og getur fengið til úrskurðar hin ýmsu mál hvað þetta snertir. — Ég fullyrði, að þó að tryggingaráð reyni án efa að gera sér grein fyrir þessu eins vel og hægt er, þá skilst mér það á þeim góðu mönnum, að í langflestum tilfellum láti þeir mat þessa eina manns, tryggingayfiræknis, ráða. Og ég hef þetta raunar staðfest og ég tel það ekkert óeðlilegt út af fyrir sig kannske. En hér er verið að gefa einum manni ofurvald. Ég vil að fleiri komi inn í þetta. Og ég þekki dæmi um það, mjög hrópleg dæmi, einmitt núna frá síðustu vikum m. a. s., að mér þykir hafa verið fljótfærnislega að málum staðið, e. t. v. vegna þess að þessi maður hefur of mikið að gera, of mikið á sinni könnu, þarf í of mörgu að snúast, og ég held að það halli á þessa skipan, þó að hún verði ekki nú, þó að hún komi til síðar. Það hefði þess vegna verið gott að við hefðum getað athugað þessi mál í ró og næði og reynt að komast að samkomulagi við hæstv. ráðh. um þetta atriði. Ég tel síður en svo fjarstæðu að hann hefði í einhverju komið til móts við okkur.

Í 14. gr. laganna er lagt til að niður falli í 1. mgr. orðin „enda eigi barnið lögheimili hér á landi.“ Þetta er ákaflega saklaust orðalag og snertir 14. gr, sem hljóði svo, með leyfi forseta:

„Barnalífeyrir er greiddur með börnum yngri en 17 ára, ef annað hvort foreldra er látið eða er örorkulífeyrisþegi, enda eigi barnið lögheimili hér á landi og annað hvort foreldri þess eða barnið sjálft hafi átt hér lögheimili a. m. k. þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram.“

Hér er um það að ræða, að Tryggingastofnun ríkisins greiði meðlag fyrir örorkulífeyrisþega, sem ekki eru hreinlega færir um það, meðlag með börnum þeirra. En ef maki eða eiginkona örorkulífeyrisþega flyst úr landi með 2 eða 3 börn þeirra hjóna og eignast þar lögheimili, þá fellur þessi endurgreiðsla Tryggingastofnunarinnar niður. Hefur þetta verið reynt ítrekað varðandi einstaka menn. Þetta eru mjög fá tilfelli og ekki mjög venjulegt að konur hlaupi svona úr landi og eignist lögheimili erlendis. Munu ekki vera nema um þrjú tilfelli af þessu tagi. Hér er þess vegna ekki um neinar fjárhæðir að ræða, síður en svo, enda hafði Tryggingastofnunin greitt meðlag fyrir alla þessa aðila áður, en hún gerir það ekki eftir að barnið er komið úr landi og á þar orðið lögheimili. Hér er t. d. um að ræða mann í hjólastól, að mér er sagt, sem hefur enga möguleika á þessu í raun og veru, en er auðvitað áfram meðlagsskyldur með barni sínu. Gagnkvæmir samningar landa á milli munu ekki bæta hér úr. Þar af leiðir að Tryggingastofnunin varð að fella niður þær greiðslur sem hún innti af hendi fyrir þennan mann áður, eftir að börn hans höfðu eignast lögheimili í öðru landi. Þarna er um svo smávægilegt atriði að ræða, en jafnframt svo stórt fyrir þann aðila, sem hér er um að ræða, eða þá fáu aðila, að hér hefði verið vandalítið að breyta. Ég skil eiginlega ekki að þessu skuli ekki hafa verið breytt í Nd., og kenni þar um hraðanum einum. Ég var alveg sannfærður um að hæstv. ráðh. hefði verið tilbúinn til þess að athuguðu máli að breyta þessu.

Síðan kemur að vísu liður sem ekki er hægt að neita að hafi í för með sér útgjaldaaukningu, en liður sem ég álít að sé okkur ekki sæmandi engu að síður eins og hann er. Það er varðandi ekkju- og ekklabætur í 17. gr. laganna. Þar stendur svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Hver sem á lögheimili hér á landi og verður ekkja eða ekkill innan 67 ára aldurs á rétt á bótum í 6 mánuði eftir lát maka“ — og síðan kemur upphæð sem mun nú vera rúmar 48 þús. kr. Hér er um verulega upphæð að ræða. En hver var hugsunin á bak við þessa grein í upphafi? Hún var sú að vegna útfararkostnaðar yrði mikið rask á högum þessa fólks og aðrar auðskildar ástæður kæmu þar inn í og því væri réttmætt og eðlilegt að bæta fólki það nokkuð með þessum 6 mánaða bótum. Og dettur nokkrum í hug að það sé eitthvað óréttlátara að greiða því fólki, sem verður fyrir aukakostnaði, — fyrir utan það áfall sem hér af verður, — óhjákvæmilegum kostnaði fyrir það mikla rask sem getur orðið á högum þessa fólks þó að það sé orðið þetta gamalt, — dettur nokkrum í hug að það sé minna hjá þessu fólki heldur en hinum, einmitt þessu fólki sem hefur kannske allra verstu ástæðurnar til að taka á sig þessar breyttu aðstæður, þessa rýrðu hagi og þann kostnað sem þetta hefur í för með sér?

Það er rétt að hér er auðvitað um að ræða atriði sem ég get ekki farið fram á að sé tekið inn í lög í einni svipan, vegna þess að hér er um að ræða mikil útgjöld fyrir almannatryggingar. Við höfum aldrei farið í neinar grafgötur um það. Við vildum því ekki gera till. út í bláinn í þessum efnum, vildum vita hvar við stæðum. En ekki verður hjá því komist að vekja athygli á þessu misræmi engu að síður, því að um mörg átakanleg dæmi er að ræða sem ég tel að ekki þurfi að rekja fyrir mönnum hér. Mönnum á að vera þetta svo auðskilið sem nokkuð getur verið. Á móti þessu held ég að mætti koma það, að tekjutryggingin fer sífellt lækkandi út úr almannatryggingum í raun sem betur fer, því að lífeyrissjóðirnir taka við æ stærra hlutverki og það koma æ fleiri inn í lífeyrissjóði verkalýðsfélaganna og hina almennu lífeyrissjóði og sérstaklega þá verkalýðsfélaganna. Og það er greinilegt að þarna gæti jafnvel, eftir upplýsingum deildarstjóra í Tryggingastofnun ríkisins, orðið um að ræða upphæðir sem gætu mæst. Hann fullyrðir ekkert um það. Ég fullyrði ekki um það heldur, en þarna gæti orðið um upphæðir að ræða annars vegar sem lækkuðu varðandi tekjutrygginguna og hins vegar sú hækkun sem af þessu leiddi, sem tæki til fólks sem eldra væri orðið en 67 ára.

Ég held að ég sjái ekki ástæðu til þess að hafa um þetta fleiri orð. Þó segi ég það enn og aftur, að ég harma að þegar þessi lagabálkur kemur til umr, í fyrsta sinn á kjörtímabilinu og á að koma til heildarumr. eftir endurskoðun, þá skuli það vera með þessum hætti. Ég ítreka samt, að ég tel breytingar þær, sem hér er um að ræða, til bóta og þó alveg sérstaklega j-lið 8. gr., sem ég vona sannarlega, af því að ég sé að einn tryggingaráðsmaður er genginn í salinn, að hann og aðrir tryggingaráðsmenn sjái til þess að verði nýttur sem allra best, þar verði veitt hið fyllsta aðhald, eins og við margtókum fram þegar við fluttum frv. okkar við hv. þm. Stefán Jónsson, hið ítrasta aðhald. Áður hafði því verið svarað til m. a. s. af virktarmanni uppi í Tryggingastofnun, að það væri fjarstæða að fara að borga skemmtiferðir fyrir landsbyggðarfólkið hingað suður „eftir behag“, það væri slík ósvífni, að menn skyldu vara sig á því hvað verið væri að gera ef þeir ætluðu að fara út í slíkt. Ég treysti tryggingaráði til þess, að þær reglur, sem það setur um þetta, verði landsbyggðafólkinu verulega til góðs. Og þá get ég fyrir hönd þessa stóra hóps, sem þarna er um að ræða, í lokin, þrátt fyrir fjarveru ráðh., ekki stillt mig um að bæta einni rós í hnappagat hans fyrir þetta atriði alveg sérstaklega.