06.05.1978
Neðri deild: 101. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4628 í B-deild Alþingistíðinda. (3968)

38. mál, iðnaðarlög

Frsm. (Ingólfur Jónsson):

Hæstv. forseti. Frv. þetta var lagt fram í hv. Ed. á s. l. hausti, en er fyrst núna á ferðinni í þessari hv. d. Í gærmorgun hafði iðnn. þessarar d. fund og á fund hennar komu fulltrúar frá Sambandi byggingarmanna, frá Trésmíðafélagi Reykjavíkur, frá Múrarafélagi Reykjavíkur, frá Prentarafélaginu, frá Félagi ísl. járniðnaðarmanna, frá Rafiðnaðarsambandinu og frá Félagi vélvirkja.

Allir þessir aðilar óskuðu eftir viðtali við n. vegna 8. gr. frv. sem þeir töldu að væri ekki góð og beinlínis skaðleg fyrir verkmenntun í landinu. Í 8. gr. frv. er sagt að ráða megi þó verkafólk til iðnaðarstarfa, þ. e. a. s. alveg skilyrðislaust. Þetta ákvæði er vitanlega ekki gott, að þeir, sem hafa lagt á sig margra ára skólagöngu til verkmenntunar, sitji ekki frekar fyrir iðnaðarstörfum heldur en alveg ólærðir verkamenn. Ef þetta ákvæði yrði lögfest, þá mundi það ekki ýta undir menn að leita sér tæknimenntunar.

Iðnn. varð þess vegna sammála um að koma til móts við óskir þessara fulltrúa, sem ég nefndi, og gerir till. um að breyta 8. gr. laganna, þó þannig að iðnrekendur, meistarar og aðrir atvinnurekendur geti einnig sætt sig við það orðalag og þau ákvæði sem iðnn. vill lögfesta. Brtt. n. er á þskj. 915 og hv. alþm. geta borið saman 8. gr. frv. og brtt. n. Ég sé ekki ástæðu til þess að vera að lesa það upp þar sem það er á borðum hv. þm.

N. varð sammála um að gera þessa einu brtt. Það hefur verið athugað, bæði af iðnn. Ed. og iðnn. þessarar d., hvaða viðhorf er almennt til þessa frv., og það má segja að allir þeir, sem að iðnaðarmálum vinna og iðnaðarmálum starfa, telji að þetta frv. stefni í rétta átt og sé til bóta, þ. e. a. s. ef brtt. iðnn. verður samþykkt í stað 8. gr. eins og hún nú er í frv.

Hæstv. forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta, en iðnn. leggur til að frv. verði samþ. með þeirri breytingu sem ég hef lýst.