06.05.1978
Efri deild: 104. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4633 í B-deild Alþingistíðinda. (3995)

38. mál, iðnaðarlög

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Hvað sem að öðru leyti má segja um þá breytingu sem varð á frv. í Nd., þá hygg é að þeim iðnn.-mönnum þar hafi orðið á í messunni. Ég er alveg viss um að það hefur verið óvart þar sem komist er svo að orði í 8. gr.: „Heimilt er sérfélögum, sveina- og meistarafélagi í sömu iðn að gera sín á milli samning um það, að nota megi ólært verkafólk til iðnaðarstarfa undir stjórn lærðs iðnaðarmanns um ákveðinn stuttan tíma í senn“ — að „nota“ megi ólært verkafólk til iðnaðarstarfa. Ég ítreka, að það hvarflar ekki einu sinni að mér að iðnn.-menn Nd. hafi notað þetta orðalag í óvirðingarskyni, en það fer ekkert á milli mála, að eins og þetta hljóðar í frv. hefur það niðrandi merkingu og ber vott um þess háttar fornaldarhugsunarhátt, að maður gæti næstum því ímyndað sér að það hafi verið Björn heitinn buna sem orðaði brtt.

Við hv. þm. Eggert G. Þorsteinsson leyfum okkur að bera fram skrifl. brtt., svo hljóðandi:

„Í stað orðanna „nota megi ólært verkafólk“ komi: ráða megi ólært verkafólk.“

Ég ítreka það, að ekki hvarflar að mér að þetta sé orðað þannig af hálfu iðnn. Nd. að yfirveguðu ráði í óvirðingarskyni, en ég vil vekja athygli á því, að einmitt þessi grein kom til álita og átaka milli fulltrúa ólærðs verkafólks og fulltrúa faglærðra við umfjöllun málsins í iðnn. Ég tel þess vegna ákaflega nauðsynlegt, að þessu orðalagi verði breytt. Raunar finnst mér, að Alþ. geti ekki verið þekkt fyrir að samþykkja lög með þessu orðalagi.

Ég kem þessari skriflegu brtt. á framfæri við forseta.